Þessi orð, „sagt er“, eru vanalega talin óboðleg í opinberri umræðu, jafnvel þótt það sem „sagt er“ sé sannleikur og flestum ljós. Stundum á þetta við, en langt í frá alltaf. Fólk veit vel að setningin: „Sagt er að forsætisráðherra sé hörundsár og úrillur“ er sönn.
En það sem sagt er getur líka verið lygi. Blekkingar og bull. Tungumálið notað til að villa um fyrir fólki, hafa áhrif á skoðanir þess og móta þær. Frasar sem standast enga skoðun. Því tungumálið og orðin eru geysilega öflug vopn sem við verðum að gæta okkar á. Vera ævinlega á varðbergi gagnvart orðræðunni. Orð eru dýr.
Í útvarpserindi 2011 ræddi Andri Snær Magnason um leitina að orðunum. Hann sagði meðal annars þetta: „Tungumálið er vald og til þess að halda völdum þarf að stýra tungumálinu. Stýra því hvað er sagt og hvernig heimurinn er orðaður, vegna þess að orðin stýra heiminum...“
Um þessar mundir er áætlað að selja stóran hluta í einni af sameignum þjóðarinnar, Landsbankanum. Borgunarmálið gerir varla annað en að fresta þeim gjörningi því Landsbankinn gefur svo mikið af sér að brýnt er að koma honum í einkavinahendur. Eins og hlut bankans - þjóðarinnar - í Borgun. Því fylgja orð.
Sagt er... að ekkert vit sé í því að ríkið reki banka. Talað er um áhættu sem ríkið taki með því að eiga og reka banka. Samt getur bankarekstur verið áhættulaus ef vel er á spilunum haldið. Svo ekki sé minnst á að skilið sé á milli viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Ríkisrekinn banki gæti gengið á undan með góðu fordæmi, afnumið eða lækkað ýmis gjöld og haft samfélagið og fólkið í fyrirrúmi. Ekki bara endalausan gróða. Sýnt mennsku, skynsemi og siðferðislega ábyrgð. Verið samfélagsbanki. En viljann vantar því einhverjir þurfa alltaf að græða. Reynt er að sýna fram á með orðum án innihalds að þetta sé ógerlegt.
Sagt er... að aldrei hafi farið meira fé í rekstur heilbrigðiskerfisins en í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er rangt, en hamrað er á þessum orðum í tíma og ótíma. Þó segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, sem er sérfræðingur í heilbrigðiskerfinu, í grein í síðustu Stund: „Gjaldskrárhækkun sérgreinalækna á samningslausa tímabilinu milli 2011 og 2014 og hvernig hún varð að opinberum útgjöldum til heilbrigðismála er eitt dæmi um það hvernig það gerist sem útreikningar hafa sýnt, að einkarekstur innan kerfisins hefur betur en opinber rekstur í samkeppninni um fjármagn úr opinberum sjóðum. Þetta ber að hafa í huga þegar ráðherrar og þingmenn halda því fram að þeir hafa verið að bæta verulega í framlög til heilbrigðismála. Hér þarf að spyrja, hvert hefur það fjármagn farið: til þjónustu í einkarekstri eða þjónustu í opinberum rekstri.“ Getur verið að viðbótarframlögin fari í einkarekstur? Hvað segir formaður fjárlaganefndar? Hún hefur aldrei minnst á það einu orði.
Heilbrigðisráðherra sagði í fréttaviðtali fyrir nokkrum dögum að von væri á þremur nýjum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og þremur hjúkrunarheimilum. Hann nefndi ekki að þessar stofnanir yrðu allar einkareknar. En hvað ætli mikið af framlögum ríkisstjórnarinnar fari í þessar einkareknu stofnanir merkt „heilbrigðiskerfið“? Væri ekki heiðarlegra að sýna fram á í fjárlögum hvað fer í hvort kerfi - hið opinbera og hið einkarekna - í stað þess að vera í þessum blekkingaleik? Hér nægja ekki orð án skýringa.
Sagt er... að það bráðvanti húsnæði í borginni, einkum fyrir ungt fólk. Í hentugri stærð og á viðráðanlegu verði. Helst miðsvæðis. En af hverju er þá verið að byggja risahótel á hverjum lófastórum bletti í miðborginni? Eða breyta húsum sem fyrir eru í hótel. Sum kennd við lúxus eins og fyrir hrun.
Hvernig í ósköpunum stendur á því að erlendir ferðamenn eru látnir ganga fyrir húsnæðislausum íbúum borgarinnar? Og hvað á það að þýða að þrengja svo að þeim íbúum sem fyrir eru, angra þá með rútuumferð, bílastæðaskorti, ónæði allan sólarhringinn og auknum skorti á nærþjónustu sem öll stílar orðið á ferðamennina?
Í miðborginni er þéttasta byggðin, þrengstu göturnar, minnstu útivistarsvæðin (ef einhver), fæstu og dýrustu bílastæðin. En samt standa borgaryfirvöld fyrir því að þétta byggðina enn meira, ýta undir umferð sem hverfin þola alls ekki og hrekja þá íbúa sem eftir eru í burtu... fyrir erlenda ferðamenn. Fyrir kosningar er svo talað um og lofað íbúðum sem venjulegt fólk hafi efni á. Mikið geta orðin nú verið ódýr og pólitíkin ómerkileg.
Sagt er... að það merkilegasta sem hafi gerst árið 2015 séu samningarnir um losun hafta. Samningar um uppgjör þrotabúanna, nauðasamningarnir, stöðugleikaframlögin... það allt. En hvar er losun haftanna? Er byrjað að losa þau? Hvað verður um gengið? Hvernig fer með afganginn af gömlu snjóhengjunni sem myndaðist vegna vaxtamunaviðskipta fyrir hrun? En þessi ólukkans vaxtamunaviðskipti, sem voru meðal annars þess valdandi að fjármagnshöftum var komið á eftir hrun, eru hafin aftur og skiptu tugmilljörðum í fyrra.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna höfðu mörg merkingarlaus orð um þetta meinta afrek þótt ekki hafi gengið þrautalaust að komast að niðurstöðunni. Ekkert hefur heyrst um hvar málin eru stödd og líkast til fáum við seint upplýsingar um hverjir græddu feitt á 20% leið Seðlabankans og stöðugleikaframlagssamningunum. Hér vantar orð en þau eru ósögð... ennþá.
Athugasemdir