Ég hef nokkrum sinnum orðið hvínandi blönk á lífsleiðinni. Ég veit hvernig það er að þurfa að velja milli þess að kaupa bensín á bílinn eða klósettpappír. Að hamstra fatnað á janúarútsölunni fyrir næstu þrjár árstíðir. Að fresta tannlæknaheimsókn og kvíða mánaðarmótunum. Ég þekki tilfinninguna að gleðjast eins og barn á jólunum yfir því að uppgötva að margra ára vextir á gömlum bankareikning höfðu alið af sér heilar tvöþúsund krónur. Eins og svo margir aðrir. Raunar tel ég blankheit vera ein af þeim lífsreynslum sem sameinar flesta jarðarbúa. Ég þekki fólk sem var svo blankt að það átti ekki fyrir áleggi og fann upp réttinn „brauð með kryddi“. Annar blankur vinur minn varð sér úti um mat með því að reikna út hvenær matvöruverslunin í hverfinu henti útrunnum vörum, þar sem hann veiddi bestu bitana upp úr gáminum. Vinkona mín bjó sér til snyrtivörur úr ólífuolíu og kaffikorg þegar buddan var tóm og hjá annarri samanstóðu jólagjafirnar af handskrifuðum miðum með greiðum sem hún lofaði að gera ástvinum sínum á komandi ári.
Eðlileg afleiðing óeðlilegs kerfis
Flestir eiga sér sögu um blankheit og stundum eru þær sagðar með stolti yfir útsjónarseminni sem sýna þurfti þegar neyðin kenndi manni að spinna, ekki síst ef tímabilið er að baki. Ef blankheitin standa ennþá yfir fylgir því oft skömm yfir ástandinu; eins og það sé einhvers konar áfellisdómur yfir viðkomandi eða vísbending um lélega dómgreind. Þá ranghugmynd þarf að uppræta og það hið snarasta. Blankheit eru eðlileg afleiðing þess að þurfa að lifa á námslánum. Atvinnuleysisbótum. Lágmarkslaunum. Örorku. Þau eru eðlileg afleiðing af hinu óeðlilega kerfi sem úthlutar fólki rúmar 200 þús. kr. í laun eftir áralanga sérhæfingu og lógísk útkoma reikningsdæmisins sem leigumarkaðurinn í Reykjavík er fyrir langflesta leigjendur, svo dæmi séu nefnd. Þótt mér finnist fátt jafn ömurlegt og afkomuótti kenndu blankheitin mér virði peninga á hátt sem ég hefði annars ekki lært. Það gerði mér kleift að samsama mig samferðarfólki mínu sem hefur lítið á milli handanna. Fyrir utan ánægjuna sem það færði mér þegar ég hafði efni á bíómiða eða köldum bjór. Þvílíkur löðrandi lúxus.
„Sagan sýnir þó að þegar ríkasta mengi samfélagsins fer með völdin er tilhneiging þeirra sú að hygla hinum ríku á kostnað hinna fátæku.“
Sífellt ríkari ráðamenn
Fátækt er ekki dyggð, ekki fremur en ríkidæmi. Peningar gera fólk hvorki gott né slæmt. Sagan sýnir þó að þegar ríkasta mengi samfélagsins fer með völdin er tilhneiging þeirra sú að hygla hinum ríku á kostnað hinna fátæku og auka þar með á stéttskiptingu í samfélaginu. Auðvaldsstjórnir víða um heim hafa einkavætt náttúruauðlindir og grunnþjónustu og úthlutað til útvalinna einstaklinga sem verða stjarnfræðilega ríkir, hvort sem kvótinn er í formi olíu, fjarskipta eða fisksins í sjónum. Til að drýgja hlutinn enn frekar hafa þeir ekki þurft að greiða í sameiginlega sjóði nema að takmörkuðu leyti. Vestanhafs hefur þróunin verið sú undanfarna áratugi að þingmenn tilheyra í vaxandi mæli ríkasta eina prósenti þjóðarinnar. Þá er ekki að undra að á sama tíma hefur samneysla dregist verulega saman, ríkasta eina prósentið hefur fengið ríkulegar skattaívilnanir og tennurnar hafa verið dregnar úr ríkisvaldinu með lögum og regluverki sem veikir eftirlit og tryggir jafnframt auð þeirra sem mest eiga.
Að hygla sínum
Ríkustu núlifandi Íslendingarnir komust flestir til efna á síðustu árum og áratugum, margir fyrir tilstilli einkavæðingar á auðlindum og ríkisfyrirtækjum. Þeir hafa sjaldan eða aldrei átt sér jafn marga fulltrúa í ríkisstjórn og nú. Sama ríkisstjórn hefur hyglað ríkasta þjóðfélagshópnum með ýmsum hætti, svo sem þeirri ákvörðun að endurnýja ekki auðlegðarskatt og lækka veiðigjaldið. Skemmst er að minnast skuldaniðurfellingarinnar sem lækkaði skuldir tekjuhæsta fimmtungs landsmanna um 80 milljarða króna. Þá eru ótaldar þær ívilnanir og það eftirlitsleysi sem valdið hefur því að hinir ríkustu hafa komið fé sínu undan skatti með ýmsum hætti. Samhliða þessu var skattur á matvæli hækkaður, sem bitnaði verst á lágtekjufólki.
Reynsluheimurinn mótar hagsmunina
Mig grunar að ráðamenn sem vita ekki í hvaða landi þeir geyma tugmilljónirnar sínar hafi aldrei þurft að velja milli bensíns og klósettpappírs. Mig grunar að íslenskt mektarfólk á síðum Panamaskjalanna tengi ekki við angistina sem fylgir því að eiga ekki fyrir tannlæknaþjónustu. Einmitt þess vegna spyr ég mig hvort aðilar, sem þekkja ekki veruleikann sem flest vinnandi fólk hefur kynnst af biturri reynslu, séu best til þess fallnir að taka ákvarðanir sem varða fjárhag okkar allra? Óskastaðan væri sú að kjörnir fulltrúar endurspegluðu þjóð sína, svona nokkurn veginn. Þannig ætti ríkasta toppprósentið sinn fulltrúa, en setja þarf spurningarmerki við þegar fjöldi þeirra verður hlutfallslega yfirgengilegur meðal ráðamanna líkt og nú er. Þá er hætta á því að hagsmunir okkar hinna, sem vitum hvernig það er að kvíða mánaðamótunum, mæti afgangi.
Athugasemdir