Í nýliðinni viku beið ég eftir flugvél á JFK-flugvelli, snemma á ferðinni, því áhöfn Air Berlin hafði á leiðinni út tilkynnt flugfarþegum að þeir sem ætluðu sér að fljúga aftur með flugfélaginu til Evrópu yrðu að mæta þremur til fjórum tímum fyrir brottför ef þeir vildu vera vissir um að ná vélinni. Ekki að spyrja að öryggisgæslunni í Bandaríkjunum, enda var mér ekki hleypt inn á flugvöllinn fyrr en búið var að rannsaka fartölvuna til að vita hvort í henni leyndist sprengja. Vonandi einhvers konar sprengja, hugsaði ég með mér en hætti auðvitað ekki á að segja aulabrandarann upphátt.
Raunverulegur fáránleiki
Ég drap tímann með því að glápa á CNN í biðsalnum, fréttir af nýjasta upptæki auðjöfursins Trump að reka James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar, FBI. Allt í kringum mig starði fólk sem dáleitt á sjónvarpsskjáinn eins og það væri strandað í martröð.
Á skjánum skiptust þjóðfélagsrýnar og flokksriddarar á að greina stöðuna; hvort Trump hefði rekið Comey af því að síðarnefndur hefði ekki viljað heita honum hollustu sinni, mitt í rannsókn á meintum samskiptum aðila úr herbúðum Trumps við valdamenn í Rússlandi og mögulegum áhrifum síðarnefndra á kosningarnar.
„Allt í kringum mig starði fólk sem dáleitt á sjónvarpsskjáinn eins og það væri strandað í martröð“
Þáttastjórnendur vitnuðu í mótsagnakennd svör forsetans og flestir viðmælendur þeirra fordæmdu allt saman meðan einhverjir réttlættu það með frösum á borð við að forstjóri FBI mætti ekki vera pólitískur. Í augum útlendings að bíða eftir flugvél hljómuðu svör forsetans álíka jarðbundin og DADA-örsögur eftir Kharms, burt frá sjálfri rannsókninni séð, og upplifunin álíka fáránleg og að vera stödd inn í verki eftir téðan höfund.
Að standa af sér veðrið
Kvöldið eftir kveikti ég á CNN í Berlín til að fylgjast með martraðasirkusnum, líkast því mig væri að dreyma vakandi. En ég snöggvaknaði þegar kona nokkur sagði eitthvað á þá leið að skrýtnast væri samt að á sama tíma og fjöldi fólks upplifði atburðina sem stjórnmálakrísu, þá væri aðra sögu að segja um Trump og aðstoðarmenn hans. Þeir sæju ekki krísuna sem blasti við öðrum, eina sem skipti máli væri að standa af sér veðrið og halda síðan sínu striki.
„Mottóið væri: Ef þú vilt ekki vandamál, þá skaltu ekki viðurkenna að það sé vandamál“
Önnur kona samsinnti þessu og þær bentu á að sama gilti um marga valdamikla Repúblikana sem veigruðu sér við að koma nálægt þessu máli svo lengi sem forsetinn kvittaði upp á réttu plöggin. Mottóið væri: Ef þú vilt ekki vandamál, þá skaltu ekki viðurkenna að það sé vandamál.
Endalaus misskilningur
Við þessi orð varð mér hugsað til þess þegar fjölmiðlafólk hamaðist mánuðum saman við að benda á að ráðuneyti Hönnu Birnu hefði brotið trúnað við skjólstæðing ríkisins og þverbrotið hinar ýmsu siðareglur en flokkssystkini hennar ypptu öxlum – eins og vandamálið væri hugarburður kverúlanta, svo lengi sem þau viðurkenndu það ekki.
Aðferðafræðin verður líka áberandi þegar fjölmiðlafólk bendir á mögulega árekstra viðskipta núverandi forsætisráðherra og ættingja hans við hagsmuni þjóðarinnar. Þá verður smá uppþot – síðan fjarar það út.
„Þeir eru ófáir misskilningarnir í málum sem tengjast viðskiptum Bjarna og ættmenna hans, svo margir að spurningarnar renna saman og fjara út“
Þessi sama aðferðafræði lét á sér kræla þegar nöfn bæði núverandi og fyrrverandi forsætisráðherra birtust í Panamaskjölunum. Annar slapp, hinn ekki – en við nánari tilhugsun man ég ekki nákvæmlega af hverju Bjarni var hvítþveginn. Ýmsar spurningar kviknuðu í kjölfarið og hann rámaði í að hafa með einu eða öðru móti tengst fasteignaviðskiptum í Fjarskanistan en, ef ég man rétt, mundi hann hvorki hitt né þetta í smáatriðum. Var málið kannski misskilningur? Eða er mig að misminna?
Þeir eru ófáir misskilningarnir í málum sem tengjst viðskiptum Bjarna og ættmenna hans, svo margir að spurningarnar renna saman og fjara út. Allir gleyma öllu, rétt eins og Bandaríkjamenn eiga líklega eftir að gleyma æsifréttum um að mágkona Ivönku Trump hafi mögulega notað fjölskyldutengsl við forsetann í viðskiptum í Kína. Er svosem eitthvað að muna?
Sjónvarpskúrs í Flórída
Þegar nöfn ráðamanna birtust í Panamaskjölunum var vandamálið þó orðið svo æpandi augljóst að klaufanum varð að fórna strax – ef sá stofuhreini ætti ekki að þurfa að svara of óþægilegum spurningum óþægilega lengi. Kannski er þessi taktík þróuð í hugveitum á vegum Repúblikana sem einhverjir Sjálfstæðismenn lengst norður á Íslandi hafa fengið að kynnast. Eða kannski lærir maður þetta með því að horfa nógu oft og lengi á sjónvarpið í Flórída. Aðferðin gæti heitið: Láttu það slæda! En fórnaðu einhverjum ef stefnir í fjöldamótmæli.
„Óþægilegum spurningum er ýmist eytt með þögn eða innihaldslausum frösum en um leið er ráðist á ríkisstofnanir“
Óþægilegum spurningum er ýmist eytt með þögn eða innihaldslausum frösum en um leið er ráðist á ríkisstofnanir sem eiga að vernda okkur fyrir sjálfum okkur. Í Bandaríkjunum sér forsetinn óvin í forstjóra alríkislögreglunnar en á Íslandi hafa stjórnmálamenn séð Grýlu í Ríkisútvarpinu – nema jú, nú gleymi ég símtölum Hönnu Birnu til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem sagði af sér og hvernig núverandi forsætisráðherra varði gjörðir flokksystur sinnar, í þeirri fölsku trú að hún væri líka gerð úr teffloni.
Varnarskjöldur
Ef stjórnmálamenn saka ríkisstofnanir í lýðræðisríkjum um að vera með pólitísk afskipti getur maður verið viss um að þær sinni hlutverki sínu með sóma: að standa vörð um lýðræðið. En James Clapper, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, heldur því einmitt fram að Trump sé nú að ráðast á mikilvægar stofnanir í Bandaríkjunum.
Maður er ennþá vankaður eftir árásirnar á Ríkisútvarpið á síðasta kjörtímabili þegar Vigdís Hauksdóttir virtist stöðugt vera með hótanir við þá ríkisstofnun sem á að vera rödd samfélagsins – fyrir vikið fannst manni Vigdís hóta okkur, kjósendum.
Þetta lét núverandi forsætisráðherra gott heita, rétt eins og hann sat í ríkisstjórn með Sigmundi Davíð og varði með því móti ótrúlegan stjórnunarstíl síðarnefnds. En maður spyr sig: Hver vildi hvað hvenær?
„Maður er ennþá vankaður eftir árásirnar á Ríkisútvarpið á síðasta kjörtímabili“
Síðasta ríkisstjórn minnti á tímabil í dönskum stjórnmálum þegar Dansk Folkeparti hélt ríkisstjórninni saman með stuðningi sínum og nýtti tækifærið til að ráðast svo harkalega á innflytjendur að orðræðan í Danmörku snarversnaði og breyttist til frambúðar. Ríkisstjórnarflokkarnir, Venstre og Det Konservative Folkeparti, fylgdust flekklausir með Dansk Folkeparti gera allt vitlaust með popúlistapólitík og taka á sig skítinn – sáttir við allt saman – meðan fólk spurði sig hvort öfga hægriflokkurinn væri varnarskjöldur fyrir borgaralegu flokkana til að fá því sama framgengt?
Hvað var Sjálfstæðisflokkurinn, hvað var Framsókn?
Einn valdaflokkur
Ætli fólkið í Bjartri framtíð hafi spurt sig að því þegar það blessaði síðasta kjörtímabil með því að halda Sjálfstæðisflokknum við stjórnvölinn? Á Íslandi eru nefnilega ekki bara tveir valdaflokkar á borð við Demókrata og Repúblikana heldur einn: Sjálfstæðisflokkurinn (og tifallandi hækja hans). Nema þarna í örfá ár, þegar þurfti að skúra upp hroðann eftir hann. Björt framtíð brosir framan í sama fólk og réttlætti árásir á Ríkisútvarpið með ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn, á sama tíma og það afneitaði af glæpsamlegri þrjósku að Hanna Birna væri búin að koma sér í vanda, svo ekki sé minnst á skuldaleiðréttinguna eða hvernig klippt var á samningaviðræður við Evrópusambandið með Facebook-færslu. Er þá fátt upp talið af skringilegheitum sem dundu yfir samfélagið á síðasta kjörtímabili.
„Með þessu skrefi gerði Björt framtíð mig vondaufa um að við barnið mitt getum átt framtíð á Íslandi“
Með þessu skrefi gerði Björt framtíð mig vondaufa um að við barnið mitt getum átt framtíð á Íslandi. Framtíðin er þeirra sem fengu drjúga skuldaleiðréttingu og búa svo vel að þeir geta líka leigt út Airbnb. Þeir hinir sömu eiga þá væntanlega aur til að borga fyrir þjónustu í einkaklíník, margir bara sáttir við hvers konar einkavæðingaráform. Draumkenndar hugmyndir um einkavæðingu sem ráðamenn kannast varla við, hvað þá að þeir axli ábyrgð á þeim – fyrr en um seinan. Því ef þeir gangast ekki við vandamálinu, þá er ekkert vandamál. Sama hvað landlæknir, Kári Stefáns eða forstjóri Landspítalans tuða. Því allir þagna á endanum. Svo mikið er víst. Og það er líka nokkuð víst að það sem við missum fáum við ekki aftur.
En kannski er þetta ímyndun.
Allt, ímyndun mín.
Athugasemdir