Ég veit ekki hvort það var lægðin eða allt kaffið sem ég var búinn að drekka í óhófi dagana á undan. Kannski voru það kosningamyndbönd Framsóknarflokksins eða skoðanakannanir sem sýna spilltustu auðvaldsstjórn Íslandssögunnar á leiðinni í kosningasigur. Hvað sem olli þá var mjög þungt yfir mér á kjördag. Ég beið bara eftir slæmum fréttum. Leið eins og rétt áður en bregðuatriðið kemur í hryllingsmynd. Ónotalega.
Kvöldi kjördags var ég búinn að ákveða að eyða á kosningavöku Pírata. Hvernig sem færi þá gerðust tíðindin þar, jafnvel þó svo færi að þeirra verstu skoðanakannanir yrðu að raunveruleika. Staðurinn var pakkaður þegar ég mætti ásamt konunni minni og æskuvini á Bryggjuna brugghús úti á Granda, klukkan að nálgast 22:00 og fyrstu tölur áttu að byrja að detta inn á milli 22:00 og 23:00. Kosningavaka flokksins var kominn á fullt skrið.
Þegar við komum inn tóku Valli í Fræbbblunum og Iðunn konan hans á móti mér. Þau eiga þrjá stráka sem ég er stoltur að kalla vini mína. Tveir þeirra, sá yngsti, Viktor Orri, og sá elsti, Andrés, voru einmitt báðir á lista Pírata í Reykjavík suður - Viktor í þriðja og Andrés í áttunda.
Á meðan við stóðum og röbbuðum rúllaði dagskrá RÚV án hljóðs á sjónvörpum víða um staðinn. Enginn var neitt sérstaklega mikið að velta dagskránni fyrir sér, þó fyrstu talna væri að vænta á hverri stundu. Skyndilega tók staðurinn þó andköf. Upp á skjáinn var komið línurit og öll augu leituðu á það sjónvarp sem næst stóð og fóru að rýna í tölur. Án þess að hafa hljóð til þess að útskýra fyrir okkur hvað væri að gerast þá litu þessar fyrstu tölur algjörlega ótrúlega út. Sjálfstæðisflokkurinn var í um 25 prósentum, Píratar 15, en það sem var algjörlega magnað var að Alþýðufylkingin var með tæp 20% með 10 þingmenn.
„Flestir krakkar hata skóla og það er náttúrulega spennandi að stytta nám svo þau sleppi fyrr út í þennan heim sem er svoleiðis löðrandi í peningum og allskonar.“
Ringulreið réð ríkjum á kosningavöku Pírata í nokkrar sekúndur, þar til fjöldinn fór að átta sig á því að tölurnar tilheyrðu skuggakosningu grunnskólabarna og að um innslag frá Krakkarúv var að ræða. Spennustigið sem hafði verið frekar hátt fyrir hækkaði þarna umtalsvert, en lækkaði svo aðeins aftur. Það er umhugsunarefni að 25% barna styðji Sjálfstæðisflokkinn. Flestir krakkar hata skóla og það er náttúrulega spennandi að stytta nám svo þau sleppi fyrr út í þennan heim sem er svoleiðis löðrandi í peningum og allskonar.
Píratar og stuðningsmenn þeirra eru fjölbreyttur hópur. Á Bryggjunni var fólk af öllum stærðum, gerðum og aldri. En eftir að hafa farið á fundi og hittinga hjá öllum helstu stjórnmálahreyfingum landsins, þá voru þarna nokkrar týpur sem ég hef ekki séð annarsstaðar. Fedora hattar voru til að mynda talsvert algengari en á fundum Framsóknarflokksins. Skegg Pírata eru verr hyrt en hjá stuðningsmönnum Vinstri grænna. Jakkafötin þeirra eru ekki eins vel sniðin og dýr og hjá Sjálfstæðisfólki. Hlutfall Dogma bola var þó svipað hátt og hjá Bjartri framtíð.
Ég hef spilað Dungeons & Dragons hlutverkaspil og ég hef stundað minn skerf af LAN-i. Á þessari kosningavöku Pírata voru samankomnar persónur sem ég hef ekki séð í samhengi stjórnmálanna áður. Ég ætla bara að segja það beint úr: Það eru nördar þarna! Slagorð Pírata fyrir þessar kosningar: „Endurræsum Ísland,“ er enda gríðarlega lúðalegt. Þegar eitthvað í tölvunni hans pabba virkar ekki þá ráðlegg ég honum að slökkva og kveikja á henni. Þessar kosningar eru í rauninni hin íslenska hefnd nördanna 2.
„Mér leið eins og ég væri kominn á Skjálfti 1999 reunion.“
Sum borð inni á staðnum voru þakin fartölvum og rafbúnaði. Eftir því sem innar kom á staðinn hækkaði bæði hita og rakastigið umtalsvert og skyndilega fór ég að fá flashback. Mér leið eins og ég væri kominn á Skjálfti 1999 reunion. Forseti Úrúgvæ José Mujica, sem er frægur fyrir að vera fátækasti forseti heims, sagði að sparka þyrfti ríku fólki úr stjórnmálum. Ég sá samt aldrei fyrir mér að í staðinn kæmi fullt af lúðum, en ég er pínu til í það. Kannski af því ég er einn af þeim.
Við tróðum okkur innst á staðinn. Þar stóðu allir toppar Pírata í einum hnapp og horfðu á tjald sem sjónvarpað var á hljóðlausri útsendingu RÚV. Egill Helgason, Fanney Birna og Björn Ingi voru í panel í sjónvarpsveri og hreyfðu á sér varirnar. Í kringum forystusveit Pírata var mun fjölmennari hjörð af fjölmiðlafólki frá öllum heimshornum. Tugir myndavéla og ljóskastara beindust að þessum nokkru hræðum sem voru að gera tilraun til þess að hamfletta íslenska pólitík. Þau voru þarna brosandi, en hitinn var gríðarlegur og spennan magnaðist með hverri stundu. Andlitin glansandi undir ljósunum, líkamsdaunn af næsta manni og brosin þeirra duttu stundum í gólfið og þá skein hreinn kvíði yfir óorðnum hlutum í gegn. Fyrstu tölur. Allir að bíða eftir fyrstu tölum.
Lilja Alfreðsdóttir malaði hljóðlaus á tjaldinu. Hitinn hækkaði. Vape-ský spruttu upp hér og þar úr mannhafinu inni á þessum troðna stað. Skoðanakannanir síðustu daga höfðu verið á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn væri að bæta í og Píratar væru að falla. Sú staðreynd að ungt fólk kýs ekki, ofan í drepleiðinlegan storm og fréttir af lélegri kjörsókn og fjarveru yngri kjósenda á kjörstöðum voru farnar að móta þá spá í höfðinu á mér að Sjálfstæðisflokkurinn endaði líklega í 30 prósentum.
Svo komu fyrstu tölur.
Suðurkjördæmi. Tjaldið sveiflaðist. Einhver í hópnum öskraði „SMÁRI!“ Eitt sterkasta kjördæmi íhaldsins kom engum á óvart. D var með tæp 30 prósent og virtist hafa drukkið í sig fylgistap Framsóknar. Tölurnar voru allskonar, en Píratar voru með 9,8%. Upp á tjaldið kom mynd af Bjarna Benediktssyni klappandi og hlæjandi „HEHEHE,“ og salurinn púaði í einingu. Kona með augnlepp og páfagauk á öxlinni hristi hausinn. Einhver öskraði í geðshræringu: „TIL HAMINGJU ÍSLAND!“. Óvíst hvort hann misskildi úrslitin eða var mjög ósáttur með þau.
Næstu tölur voru úr suðvestur kjördæmi. Þar var niðurstaðan svipuð, þó talsvert betri fyrir Sjálfstæðisflokk og Pírata, sem samt náðu ekki nema um 15 prósentum. Það fór að verða ljóst að ungt fólk hafði ekki mætt á kjörstað. Veðrið og sinnuleysið. Fjögur ár í viðbót. Bandalagið sem fundað hafði fyrir kosningar virtist vera andvana fætt. Tölurnar héldu áfram að rúlla. Stjórnin fallin, en Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn drukku Framsóknarfylgið í sig. Bjarni Ben glottir á tjaldinu og sú spennuþrungna galsafulla stemning sem verið hafði á kosningavöku Pírata var orðin að þögn. Sprungin blaðra.
„Sannleikurinn skiptir ekki máli.“
Það var að renna upp fyrir fólkinu í salnum, sem hafði trúað að sannleikurinn sigraði að lokum, að sannleikurinn skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að stjórna hugsunum og væntingum fólks. Það breytir engu hver sagði hvað og hvenær. Hver hrökklaðist frá völdum út af leka. Hver átti hvaða hús og fékk að gista í því gegn þjónkun í Kína. Hver hélt framhjá konunni sinni og geymdi peningana sína hvar. Þetta skiptir engu máli. Það sem þú gerir skiptir ekki máli. Það skiptir hinsvegar öllu máli að segja réttu hlutina. Að viðurkenna aldrei mistök. Vera alltaf í sókn. Gera eitt og segja annað. Segjast lækka skatta en gera það samt ekki. Segjast bjóða upp á stöðugleika en standa ofaná blöðru sem er að þenjast út.
En á þessari stundu, þegar vonbrigðin lágu yfir salnum eins og mara, skipti kosningasjónvarp RÚV yfir í beina útsendingu frá staðnum. Birgitta var tekin í viðtal þar sem hún var skælbrosandi og vígreif. Margir miðuðu útkomu Pírata í kosningunum líklega við þær skoðanakannanir sem sýndu flokkinn í rúmum 30 prósentum í apríl síðastliðnum. Birgitta benti hinsvegar á að flokkurinn væri að þrefalda fylgi sitt og þingmannafjölda. Sagðist hún vera gríðarlega þakklát fyrir það að svo mikill fjöldi Íslendinga treysti þessum unga flokki til verka. Hún virkaði mjög heiðarleg. Var raunverulega mjög sátt með útkomuna. Nördarnir fóru að taka við sér og átta sig á því að þessar kosningar væru bara eitt skref af mörgum. Rjóðir í framan af hita og bjórdrykkju fór fólkið, sem var jókerinn á öllum grímuböllum eftir að Heath Ledger dó, að skála og tala aðeins hærra. Laga fedora hattana sína og fagna þessum sigri. Þó hann væri aðeins áfangasigur.
Fólkið sem hefur síðustu átta ár staðið á Austurvelli með skilaboðin sín á skiltum er núna á leiðinni inn um dyrnar á alþingishúsinu með boðskapinn sinn. Ísland var ekki endurræst í gær, en með þessu áframhaldi kemur að því. Ég held það sé óumflýjanlegt.
Athugasemdir