Undarlega gisin skapahár. Snípur sem rann saman við innri og ytri skapabarma í dularfullum fellingum. Svört og leyndardómsfull leggöng. Þvagrásarop sem líktist einna helst dyrabjölluhnappi. Endaþarmsop sem tróndi ofan á rassaskorunni eins og stjarna á jólatré. Í fjarska sást í tvær þústir, brjóst konunnar sem lá sundurglennt á bakinu fyrir augum okkar. Heildarmyndin römmuð inn af lærum hennar, sem teygðu sig skáhallt út úr myndarammanum til beggja átta.
Þessa mynd sáum við flest, ef ekki öll, í grunnskóla. Svarthvítu, teiknuðu skýringarmyndina af kynfærum kvenna, sem var og er liður í kynfræðslu íslenskra skólabarna. Myndin vakti sterk viðbrögð þegar hún var kynnt fyrir okkur í sjöunda bekk forðum daga. Stelpurnar gripu andann á lofti. Sú sem sat við hliðina á mér hrökk við og leit undan. Ég blygðaðist mín líka og skildi ekkert í því. Þetta var bara píka. Ég var alin upp af víðsýnum foreldrum og hafði vitað hvernig börnin verða til frá því ég mundi eftir mér. Líkamsskömm var ekki liður í sjálfsmynd minni. Samt fann ég hvernig ég skammaðist mín fyrir að horfa á teikninguna. Þögnin var þykk á meðan skólahjúkrunarfræðingurinn þuldi upp orðin yfir ýmsa hluta píkunnar sem merktir voru með strikum inn á myndina. Allar virtumst við bíða eftir að þessu lyki svo fletta mætti yfir á næstu blaðsíðu.
Á fullorðinsárum hefur mér nokkrum sinnum verið falið að gera námsefni um kynferðismál fyrir börn. Nýlega féll það mér í skaut að móta kynfræðsluefni fyrir grunnskólanemendur og útskýra meðal annars æxlunarfæri beggja kynja. Mér var svipt aftur til dagsins þegar ég sat þarna, tólf ára gömul, og leið eins og ég væri í órétti með svarthvítu píkuna fyrir framan mig. Eins og ég hefði keyrt inn einstefnugöng og þyrfti nú að hraðspóla til baka út um leggangaopið til að brjóta ekki frekar af mér. Er mig að misminna? Liggur vandamálið ekki í myndinni heldur hjá mér, kannski? Spurningarnar létu mig ekki vera, enda hlýtur lykillinn að góðri kynheilsu þjóðarinnar að liggja í námsefni sem svalar fróðleiksþorsta án þess að vekja blygðun og vandræðagang.
Í leit að svörum hafði ég samband við skólahjúkrunarfræðing og fékk að sjá kynfræðslunámsefnið. Mikið rétt, þarna var píkan sem ég leit augum í sjöunda bekk. Allsendis óbreytt þrátt fyrir rúmu tuttugu árin og þær tugþúsundir ljósrita sem skilja að nútímann frá deginum örlagaríka í sjöunda bekk. Þótt ég væri komin vel á fullorðinsár vakti myndin aftur neikvæða svörun og tilhneigingin til að líta undan var yfirþyrmandi. Svarið rann skyndilega upp fyrir mér. Auðvitað.
„Hann er ekki liggjandi afvelta, höfuðlaus með gisin bringuhár í fjarska.“
Konan á teikningunni er ekki augljós þátttakandi í kynfræðslunni. Hún er ekki að fræðast um líkama sinn, enda er engri konu fært að sjá sig frá þessu kvensjúkdómalæknislega sjónarhorni. Eina leiðin fyrir konur að sjá líkama sinn frá þessum vinkli væri að liggja glennt fyrir framan spegil og reigja höfuðið upp til að geta virt fyrir sér spegilmyndina. Slík teikning myndi innibera höfuð konunnar og gera hana þar með að virkum þátttakanda í fræðsluefninu, sem hefði ennfremur þann kost í för með sér að kenna stúlkum hvernig þær geta séð kynfæri sín sjálfar, til að efla þær í þekkingarleit um eigin kropp. En konan á gömlu kynfræðsluteikningunni er ekki með höfuð. Hún er ekki með, yfir höfuð. Líkami hennar er smættaður niður í kynfæri frá sjónarhorni sem engri konu er eðlislægt. Hún er ekki að skoða sig, hún er sú sem er skoðuð. Af öðrum. Valdalaus, útglennt, skoðanalaus píka.
Til samanburðar einskorðast teikningin af kynfærum karla við kynfærin sjálf. Hann er ekki liggjandi afvelta, höfuðlaus með gisin bringuhár í fjarska og læri sem liggja út úr myndarammanum, jafnvel þótt færa megi rök fyrir því að staðsetning endaþarmsopsins á körlum hafi alveg sama fróðleiksgildi og það hefur á konum. Sjónarhornið á kventeikningunni hefði líka mátt einskorða við kynfærin eingöngu, ef vilji hefði staðið til að setja kynin fram með sambærilegum hætti. Þótt skýringarmyndin af karlinum sé jafn höfuðlaus og sú af konunni ætti viðkomandi karl auðvelt með að sjá sig frá þessu sjónarhorni. Þátttaka hans er ekki útilokuð og þar af leiðandi fær áhorfandinn síður á tilfinninguna að hann liggi á gægjum. Það var nefnilega tilfinningin sem píkuteikningin skildi mig eftir með: Að ég hefði legið á gægjum og skoðað kynfæri afvelta konu sem var ekki augljós þátttakandi í aðstæðunum. Án þátttöku verður samþykki loðið fyrirbæri. Án samþykkis erum við komin á hálan ís.
Öll fræðsla til barna um kynferðismál ætti alltaf að grundvallast á samþykki og þátttöku. Meira að segja á skýringarmyndum, sem verða héðan í frá af virkum þátttakendum með bæði höfuð og handspegil – ef ég fæ einhverju um það ráðið.
Athugasemdir