Kæra Monica Lewinsky,
Árið 1998 var ég átján ára. Ég var, eins og unglingum er tamt, að feta mín fyrstu fótspor í ástarmálum og í óðaönn að uppgötva kynverund mína. Ást og kynlíf voru sveipuð forboðnum ljóma sem var uppfullur af misvísandi skilaboðum. Sem ung kona átti ég að vilja sofa hjá, annars væri ég freðýsa, en ekki of mikið, þá væri ég drusla. Ég átti að vera reiðubúin að stunda kynlíf án ástar, því það væru bara lúðar og teprur sem steyptu ást og kynlíf í sama mótið. Ég átti að stunda kynlíf af ást, en án þess þó að gera tilfinningar mínar of augljósar því þá væri ég uppáþrengjandi. Ég átti að vera sjálfstæð, annars væri ég dyramotta, en ekki of sjálfstæð, því þá væri ég tík. Karlkyns vinir mínir virtust sigla lygnari sjó í þessum efnum, glímdu við færri siðferðisspurningar og lýstu kynlífi sínu sem sigrum á meðan við stelpurnar börðumst við tvískinnunginn og áfellisdómana sem falla konum oftar í skaut en körlum í kynferðismálum. Orðið „drusluskömmun“ (slut-shaming) var ekki til í orðaforðanum. Þess vegna gat ég ekki skilgreint það sem dundi yfir þig árið 1998, þótt ég hafi herpst saman af ónotum yfir vægðarleysinu sem þér var sýnt.
Ég fylgdist með í þöglum hryllingi þegar þú varst dregin fyrir dóm á meðan fjömiðlar drógu þig sundur og saman í háði. Í huga mínum og margra ungra kvenna varðst þú holdgervingur þess sem kemur fyrir okkur ef við gerum það sem samfélagið skilgreinir sem mistök í ástarlífinu. Refsingin var í formi brennimerkingar á þér sem vergjörnu tálkvendi og hjónabandsdjöfli í heimspressunni, þótt staðreyndin sé sú að ástarsambönd eru á ábyrgð beggja aðila sem til þeirra stofna. Flestum ætti að reynast nokkuð auðvelt að setja sig í spor 22 ára gamallar manneskju sem verður ástfangin af heillandi einstaklingi sem náð hefur lengra en flestir munu nokkurn tímann ná á lífsleiðinni. Þess vegna var ástin sem þú lýstir í símtölum sem voru tekin upp án þinnar vitundar, og síðar meir í yfirheyrslum sem þú sættir, smættuð niður í kynlífsathafnir með kaldrifjuðum hætti í fjölmiðlum. Mannlegir eiginleikar sem hefðu vakið skilning og samúð voru strípaðir burt til að rýma fyrir fordæmingu og auðmýkingu. Stúlkur eins og ég, sem vorum að taka okkar fyrstu skref í ástarmálum, fengum skýra viðvörun: Ekki eiga í sambandi sem er fyrir utan samfélagslega samþykkta mengið. Ekki falla fyrir giftum manni. Ekki falla fyrir manni í valdastöðu. Ekki halda að þú sért sögumaðurinn í eigin lífi. Og alls ekki stunda kynlíf sem samræmist ekki hugmyndinni um „siðprúða konu“, því þá ertu drusla sem er einskis nýt nema til þess að gera grín að í spjallþáttum og dægurmenningu. Fyrirbæri sem engum dettur í hug að verja.
„Ég fylgdist með í þöglum hryllingi þegar þú varst dregin fyrir dóm á meðan fjömiðlar drógu þig sundur og saman í háði.“
Án þess að gera lítið úr tilfinningum annarra sem þjáðust líka leynt og ljóst vegna umrædds ástarsambands, þá hlaust þú útreið sem markaði nýjar lægðir í drusluskömmun. Þú ákvaðst að halda þér til hlés lengi vel, enda var reynsla þín sú að í hvert skipti sem þú lést á þér kræla fór niðurlægingarsirkusinn aftur af stað. Brotthvarf þitt úr sviðsljósinu var því afar skiljanlegt, en hugur minn hvarflaði reglulega til þín í gegnum árin með þeirri ósk að þér farnaðist vel. Vitneskjan um að þú lifðir af þá opinberu aftöku sem fram fór á mannorði þínu gaf mér og öðrum ungum konum von um að hægt væri að halda áfram með lífið, jafnvel ef ske kynni að við yrðum ástfangnar af „röngum manni“. Í heimalandi mínu gekk slík drusluskömmun svo langt að konur sem urðu ástfangnar af erlendum hermönnum í seinni heimsstyrjöldinni voru í sumum tilvikum ofsóttar, sviptar sjálfræðinu, lagðar inn á stofnanir og neyddar til þess að gefa frá sér börnin sem voru getin af þessum „röngu mönnum“. Við erum fyrst núna, sem þjóð, að gangast við þeirri ómannúðlegu meðferð sem viðkomandi konur sættu. Skömmin var aldrei þeirra, skömmin var samfélagsins sem hefur tilhneigingu til að láta konur gjalda dýrara verði fyrir kynferðisleg samskipti en karla, jafnvel þótt tvo þurfi til.
Í nýlegu viðtali nefndir þú að þú hefðir staðið ein á veraldarsviðinu þegar stormurinn geisaði í kringum þig. Enginn hafi stutt við bakið á þér, hvorki kvennasamtök, femínistar né aðrar hreyfingar. Ég fékk sting í hjartað yfir því að ég, sem femínisti en fyrst og fremst sem manneskja, hefði ekki tekið skýrari afstöðu gegn þeirri meðferð sem þú sættir. Það er af þeim sökum sem ég skrifa þessar línur. Þú varst aldrei ein. Um alla veröld voru konur sem þjáðust með þér, sem þekktu skömmina og hræsnina sem gekk yfir þig af eigin raun, þótt þær hafi ekki búið yfir rétta orðaforðanum eða kjarkinum til að hefja upp raust sína. Ég var ein þeirra. Og hér er raust mín, eins lítilfjörleg og hún er og eins seint sem hún kann að berast.
Takk, kæra Monica Lewinsky, fyrir hugrekkið að standa keik í dag. Styrkurinn sem þú sýnir með því að nota reynslu þína til að tala gegn neteinelti, drusluskömmun og opinberri niðurlægingu veitir fólki um alla jarðkringluna innblástur. Þú ert sönnun þess að á bakvið einhliða æsifréttir er raunverulegt fólk sem á betra skilið og að drusluskömmun er ógeðfelld birtingarmynd misréttis sem á ekki að líðast.
Takk fyrir að veita mér og öðrum konum styrk til að vera sögumenn í eigin lífi, jafnvel þegar við stöndum einar í storminum.
Fyrst þú gast það, þá getum við það líka.
Með aðdáun og þakklæti,
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir
Athugasemdir