Sæl Arnþrúður.
Mig langar að segja þér sögu af útvarpsstöð. Hún var stofnuð sem andsvar við ríkisreknu útvarpsstöðinni, en stofnendur hennar vildu bjóða upp á gagnrýnni umfjöllun um samfélagsmál og stjórnmál. Útvarpsstöðin naut fljótlega mikilla vinsælda, en hún spilaði skemmtilega tónlist í bland við öðruvísi umræðuþætti en hlustendur áttu að venjast. Brátt fór hins vegar að bera á ákveðinni aðskilnaðarstefnu, fordæmalausu tali um „okkur“ og „hina“. „Þeir“ mættu ekki komast upp með þetta. „Við“ yrðum að stoppa „þá“. Þegar eitthvað gekk erfiðlega í samfélaginu var það „þeim“ að kenna. Ef hrottaverk voru unnin voru það pottþétt „þeir“ sem stæðu að baki. Í fyrstu skýldu þáttastjórnendur sér á bak við húmor og kæfðu þannig niður gagnrýnisraddir, en að lokum mátti öllum vera ljóst að hér var einungis um hatursáróður að ræða. Þáttastjórnendur voru meira að segja hættir að kalla „þá“ sínum réttu nöfnum, þeir voru ekkert annað en kakkalakkar sem „við“ þyrftum samstundis að losa okkur við.
Þessi útvarpsstöð átti eftir að eiga stóran þátt í að skapa andrúmsloftið sem varð til þess að þjóðarmorð var framið á hátt í milljón manns í Rúanda árið 1994 og saga hennar ætti að vera öllu fjölmiðlafólki um allan heim stöðug áminning um ábyrgð okkar og skyldur.
Arnþrúður, á fimmtudag notaðir þú útvarpsstöðina þína til þess að kalla eftir upplýsingum um mig. Orðrétt sagðir þú: „Þetta er svona illkvittni og það er þessi áferð sem maður sér á ákveðnum skríl. Það er í þessu tilfelli Áslaug Karen Jóhannsdóttir sem skrifar þetta, og ég veit ekki hvað þið vitið um hana en hún er á Stundinni. Ég þigg allar upplýsingar um hana ef þið getið sent mér þær á netfangið ak@utvarpsaga.is. Það er fínt að fá að vita hver hún er, og kannski svona, já, bara látið okkur vita.“
Mér leikur forvitni á að vita hvers konar upplýsingar þú ert að biðja um og í hvaða tilgangi. En hvað svo sem liggur að baki þá verða þetta að teljast athyglisverð viðbrögð við fréttaflutningi sem þér mislíkar. Tilefnið var nefnilega frétt sem ég skrifaði á miðvikudag um að Gunnar Waage, kennari og bloggari, hefði sagt frá því opinberlega að hann hyggðist leggja fram formlega kvörtun til lögreglu vegna hatursræðu á Útvarpi Sögu. Þegar ég leitaði viðbragða hjá þér vegna yfirlýsinga Gunnars þá kaust þú að tjá þig ekkert um málið.
Gunnar hélt því meðal annars fram að þáttastjórnendur Útvarps Sögu ættu það til að egna innhringjendur áfram í hatri og ótta í garð flóttamanna og hælisleitenda. Nefndi hann sem dæmi konu sem hringdi inn og sagðist hafa heyrt það frá þriðja aðila að hælisleitandi hefði nauðgað dreng í sundlauginni á Kjalarnesi, og hún fékk að halda þessu fram án þess að vera afdráttarlaust leiðrétt eða áminnt af þáttastjórnanda stöðvarinnar. Hér er auðvitað um grafalvarlega ásökun að ræða og fáránlegt að hún hafi fengið að hanga í loftinu.
Í þessum stutta hljóðbút sem ég hlustaði á í gær, þar sem þú meðal annars kallar eftir upplýsingum um mig, var að finna annað, þó ekki jafn alvarlegt, dæmi. Kona hringdi inn og lýsti meðal annars yfir áhyggjum af því að hælisleitendur hefðu tekið myndir af ungum stelpum á Kjalarnesi. Þessi saga hefur farið hátt frá því fréttir bárust af heitum íbúafundi á Kjalarnesi og vekur augljóslega ugg hjá mörgum. En í stað þess að spyrja gagnrýnna spurninga á móti ákvaðst þú að taka undir áhyggjur konunnar og talaðir í beinu framhaldi um „myndadólga“ sem seldu myndir sem þessar í stórum stíl eða kæmu þeim í umferð á netinu. Þessi ummæli eru einungis til þess fallin að vekja ótta og skilaboðin eru þau að þessum mönnum hafi augljóslega gengið eitthvað illt til. En þú hefðir til dæmis getað spurt á móti hvort þarna hefði getað verið um misskilning að ræða? Getur verið að þeir hafi alls ekki verið að taka myndir? (Mér finnst oft sem fólk sé að taka mynd af mér þegar það horfir einbeitt á snjallsímann fyrir framan sig.) Getur verið að þeir hafi verið að taka mynd af einhverju öðru? Til dæmis framandi landslagi sem þeir eiga ekki að venjast í sínu heimalandi? Getur verið að þeir hafi tekið mynd af ungum stúlkum, svo þeir gætu sent dætrum sínum sem urðu eftir í heimalandinu sannanir fyrir því að þær gætu víst eignast nýja vini á þessum nýju og framandi slóðum?
Ég verð að viðurkenna að mér þykir óþægilegra að vita til þess að fullorðin kona hafi kallað á eftir óljósum upplýsingum um mig í fjölmiðlum, heldur en að ókunnugur maður hafi smellt nokkrum myndum í leyfisleysi. En Arnþrúður, ef þú hefur enn áhuga á að komast yfir upplýsingar um mig þá bendi ég þér á að hafa bara samband. Ég er í símaskránni.
Athugasemdir