Hvernig drepur maður dagblað? Maður gerir það hægt og rólega, á þremur til fjórum mánuðum og bindur endahnútinn á hárréttum tíma. Þú byrjar á því að senda vafasaman vaxtaræktarmann með sólgleraugu á hluthafafund. Hann mætir þangað sólbrúnn að hausti og brosir í myndavélarnar en segist ósáttur við umfjöllun um sig og vilja kaupa hlut í blaðinu, vill nota sínar afskriftir til að losna undan umfjöllun um þær. Flestir brosa að þessu, hér er bara stórtækur smásvindlari að hefna sín, og átta sig ekki á því að hér er boðað morð. Langdregið og leiðinlegt morð.
Næstur inn er stjörnulögmaður sem einnig er ósáttur við fréttir blaðsins af skjólstæðingum sínum, gömlum útrásarhetjum sem ekki vilja borga reikningana fyrir liðin partý, og hefur í nafni þeirra lögsótt aðalblaðamann blaðsins. En einhver stærri fiskur býr á bakvið, á bakvið plottið leynist einhver „Ghostface Killah“, því áður en fundur er úti hefur litla vaxtaræktarmanninum og stóra lögfræðingnum tekist að ná völdum á hlutafénu. Eftir helgina er svo ritstjórinn rekinn og flestir blaðamenn eiga líka von á reisupassa, en nei…
Hér er er allt sýnt hægt, hér er gengið fram með köldu blóði. Ráðinn er óumdeildur ritstjóri, einn besti blaðamaður landsins, til að gefa plottinu faglegt yfirbragð, til að lengja soldið í því. Nýkrýndir verðlaunablaðamenn blaðsins fá einnig að starfa áfram, þótt starf þeirra sé á góðri leið með að kosta ríkisstjórnina eitt stykki ráðherra. Því verður ekki reddað með þessari aðgerð, en hún ætti að koma í veg fyrir að fleiri fari sömu leið.
Mánuði fyrir jól segir svo ráðherrann loks af sér. Dagblaðið góða hefur kippt einum stól undan ríkisstjórn sem átti að vera styrk. Nú hriktir í þolinmæði stóra fisks. Og í bráðræði afhjúpar hann sig: Ghostface Killah heitir Björn Ingi Hrafnsson og hann á fyrirtæki sem heitir Vefpressan og það kaupir DV sama daginn og Hanna Birna segir af sér. Sama daginn.
„Ghostface Killah heitir Björn Ingi Hrafnsson og hann á fyrirtæki sem heitir Vefpressan og það kaupir DV sama daginn og Hanna Birna segir af sér. Sama daginn.“
En hann er ekki rúinn allri kænsku, hann gengur ekki alla leið. Eða hver er annars kjörtími illra verka ef ekki hátíð ljóss og friðar?
Á dauðasta fréttadegi ársins, daginn fyrir gamlársdag, er tilkynnt um dauða DV, hins „frjálsa og óháða“ miðils, sem á sér svo glæsta en jafnframt skrautlega sögu. Faglegi ritstjórinn góði er látinn fara og ráðinn inn Eggert nokkur Skúlason, ríkisstjórnarflokkshestur af lummulegasta tagi, einn uppþembdur ignoramus af íslenska skólanum, sem þegar í stað verður nægilega mikill brandari á ritstjórastóli til að enginn blaðamaður með sjálfsvirðingu getur setið eftir. Hægri rasskinn forsætisráðherrans er sest í ritstjórnarstól blaðsins sem hefur verið hvað skeinuhættast ríkisstjórninni. (Rússland? Nei, Ísland…) Planið gengur enda eftir: Nýi ritstjórinn virkar eins og besta hæfileikafæla, á nokkrum dögum er allt blóð úr blaðinu, allir bestu blaðamennirnir farnir, það þurfti ekki einu sinni að segja þeim upp.
Litlu skiptir þótt við hlið hans sé ráðin á ritstjórastól ein ástsælasta fjölmiðlakona landsins og henni fylgi nokkrir virtustu rithöfundar þjóðarinnar.
Á fyrsta degi í nýja djobbinu er nýi ritstjórinn, Eggert Skúlason, svo staðinn að því að ljúga upp í opið geðið á þjóð sinni. Hann þvertekur fyrir tengsl við ríkisstjórnina og segir kokhraustur í sjónvarpsvélarnar: „Ég er ekki framsóknarmaður!“ um leið og hann horfir beint í vélina með clintonísku augnaráði, en er þó einungis (þetta tekur hann fram) að horfast í augu við sjálfan Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það vantaði bara að hann blikkaði. Daginn eftir var Fésbókin full af myndböndum, ljósmyndum og gömlum greinum sem sýndu störf Eggerts Skúlasonar fyrir Framsóknarflokkinn, meðal annars hafði hann verið kosningastjóri sjálfs stóra fisks, Björns Inga Hrafnssonar, í borgarstjórnarkosningum árið 2006. Íslendingar eru reyndar vanir því að lygarar ritstýri dagblöðunum þeirra en þetta var kannski einum of brútalt. En kannski heyrðum við þetta ekki rétt, kannski var nýi ritstjórinn að segja „Ég er Eggi framsóknarmaður“?
En verkið er fullunnið, fjölmiðill hefur verið myrtur, og það í fullri dagsbirtu, en reyndar á birtuminnsta tíma ársins. Fáir taka þó eftir því og enn færri hafa orð á því, nema nokkrir brjálaðir blaðamenn. Það tókst að teygja glæpinn yfir svo langan tíma að þjóðin náði „að lifa með honum“, og nánast verða leið á honum, og svo voru hlutirnir bara „orðnir eins og þeir eru“. DV hélt áfram að koma út en birti ekki lengur gagnrýnar fréttir, grófst ekki fyrir um neitt og fann ekki upp á neinu sjálft, nema að birta það sem viljandi lak úr stjórnarráðinu sem liður í einhverri innanstjórnarbaráttu. Og Sandkornsdálkarnir fylltust af norður-kóresku skjalli um ráðamenn. Dagblaðið Vísir var orðið djók sem náði svo hámarki um helgina þegar leiðtoginn var settur á forsíðu helgarblaðsins og því síðan stungið inn um allar lúgur landsins.
Í kjölfar furðumáls hafði síðan kviknað umræða um það hvernig dagblaðsmorðið var fjármagnað: Með láni eða yfirdrætti frá MP-banka? Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri Pressunnar, eiganda Vefpressunnar, er greinilega ekki jafn kaldur lygari og Eggi framsóknarmaður því í viðtölum við fjölmiðla sagðist hann „ekki muna nákvæmlega hvernig lánið sé til komið“. (Nei, hver man eftir 60 aukamilljónum í bókhaldinu?) „Ég er bara ekki með þetta fyrir framan mig, því miður,“ sagði Arnar aðspurður og kvittaði þar með undir illan grun. Hér lá sem sagt stóri fiskur undir steini. Hið karllæga karlasamfélag klíkubræðra afhjúpaði sig enn einn ganginn, og það rétt fyrir hundrað ára kvennahátíð.
„Hið karllæga karlasamfélag klíkubræðra afhjúpaði sig enn einn ganginn, og það rétt fyrir hundrað ára kvennahátíð.“
Flokksbróðir forsætisráðherra yfirtekur dagblað sem forsætisráðherra þolir ekki og setur yfir það flokkshest forsætisráðherra með því að fá lán hjá uppáhaldsbanka forsætisráðherra sem stýrt er af mági forsætisráðherra, hvar yfirmenn eru helstu efnhagsráðgjafar forsætisráðherra.
„If it walks like a duck and quacks like a duck, it most probably is a duck,“ segir Kaninn.
Á Þjóðhátíðardaginn skrifaði síðan stóri fiskur á Facebook: „Mér finnst dapurlegt að forseti Íslands geti ekki lagt blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, forsætisráðherra, flutt hátíðarávarp, fjallkonan farið með ljóð og tónlistarfólk flutt þjóðsönginn á sjálfan 17. júní án þess að fámennur hópur skemmi fyrir með því að púa, berja í bumbur og búa til annan hávaða.“
Okkur finnst dapurlegt að fremstu blaðamenn Íslands geti ekki sinnt störfum sínum á gagnrýnu dagblaði án þess að fámennur hópur skemmi fyrir með því að væla í síma, herja út lán og búa til úr því allt annan miðil.
Af mörgu vondu sem gerst hefur á kjörtímabilinu er þetta verst: Morðið á DV.
Athugasemdir