I. Lögmál heimsins
Hvað skyldi pakistönsk stelpa, sem þarf að búa á Englandi um ótiltekinn tíma, staðnæmast við þegar hún hringir í vinkonu sína suður í Swat-héraði í Pakistan til að segja henni frá lífinu á nýjum stað?
„Ég segi henni frá götunum með röðum af samskonar húsum, ólíkt því sem er heima þar sem allt er öðruvísi og á skakk og skjön, og hrúga af mold og grjóti getur verið við hliðina á húsi sem er á stærð við kastala. Ég segi henni hvernig þetta eru hugguleg og sterkbyggð hús sem geta staðist flóð og jarðskjálfta en hafa ekki flöt þök til að leika sér á. Ég segi henni að ég kunni vel við England vegna þess að fólk fer eftir reglum, það virðir lögreglumenn og allt gerist á tilsettum tíma. Ríkisstjórnin stjórnar og enginn þarf að þekkja nafnið á yfirmanni hersins.“
Þessi stelpa staðnæmist við hið breska skipulag sem birtist henni bæði í efnislegum hlutum og í stjórnmálunum. Í viðtali við bandarískan blaðamann, var þessi sama stelpa spurð að því hvað hafi komið henni mest á óvart þann tíma sem hún bjó fjarri Pakistan. Hún svaraði:
„Sko, það sem ég hugsa alltaf um er að í Bretlandi, en líklega ekki í öllum vestrænum ríkjum, þá fylgir fólk umferðarreglum og það er ekki alltaf að flauta! Það er rólegt og hljóðlátt. Þetta er mjög notalegt og það kemur á óvart að það skuli vera til land þar sem allir fara eftir umferðarreglum.“
Sú sem svona talar heitir Malala Yousafzai og er komin til Birmingham á Englandi vegna þess að hún hafði verið skotin í höfuðið fyrir að hvetja til þess að allir krakkar fengju að ganga í skóla og mennta sig, bæði strákar og stelpur.1 Það kann að koma manni á óvart að hún tali um umferðarreglurnar frekar en t.d. vegakerfið eða skólakerfið, sem hvort tveggja eru frumstæð suður í Swat-héraði en háþróuð á Bretlandi. En Malala hefur sérstakan áhuga á reglum; eðlisfræði er uppáhalds fagið hennar í skóla vegna þess að hún fjallar um það hvernig heimurinn lýtur lögmálum sem enginn getur ráðskast með, sniðgengið eða sveigt að eigin vilja og duttlungum, hversu máttugur eða ófyrirleitinn sem hann er. Fólk verður einfaldlega að taka tillit til þessara lögmála og haga lífi sínu í samræmi við þau.
Þetta einfalda atriði sem Malölu kom svo á óvart við Bretland, nefnilega að samlíf ókunnugra á götum Birmingham skuli lúta reglum sem enginn umgengst eftir eigin geðþótta, er vissulega undravert. Að hugsa sér að stór bíll, jafnvel strætisvagn, sem ferðast á miklum hraða skuli stöðvast af því að lítil og brothætt manneskja hefur numið staðar við gangstéttarbrún og gert sig líklega til að ganga yfir hvítstrikaða götu. Þannig er líka hugmyndin um mannréttindi; þau eru reglur sem settar eru svo að brothættar manneskjur geti haldið upp í ferð um lífið sjálft án þess að harka heimsins verði þeim að tjóni eða jafnvel bana.
II. Öruggt líf
Malala var skotin í höfuðið af því að hún var sínkt og heilagt að tala fyrir því að stúlkur ættu að fá leyfi til að ganga í skóla og mennta sig. Það orkaði ekki tvímælis að strákar væru í skóla þótt á því væri raunar víða misbrestur, en talíbanarnir, sem höfðu skotið rótum í Swat-héraði á bernskuárum Malölu, voru mjög andsnúnir því að stúlkur gengju í skóla. Árásin á Malölu var ekki fyrsta árás þeirra. Þeir höfðu farið með ofbeldi víða um héraðið og sprengt fjöldann allan af stelpnaskólum í loft upp. Faðir Malölu var kunnur fyrir baráttu sína fyrir menntun bæði drengja og stúlkna og oft gisti hann fjarri heimilinu til að stofna fjölskyldunni ekki í hættu. Hann var vanur að segja sem svo, að hann myndi vísast deyja einn daginn – hann vissi sem var að talíbanarnir hötuðust við hann – en þegar það myndi gerast þá skyldi hann deyja einn en ekki þannig að fjölskyldan félli með honum. En svo var ráðist á Malölu, ekki hann.
Við gætum vissulega sagt að talíbanarnir hafi ekki virt mannréttindi Malölu, rétt eins og maður getur sagt það um hvaða ofbeldismann sem er, að hann virði ekki rétt fórnarlambsins til friðsamlegs lífs. En það hljómar samt dálítið skringilega, eins og ef maður segði að freki kallinn, sem Jón Gnarr hefur stundum talað um, hafi gleymt að vera kurteis. Freki kallinn gleymir ekki að vera kurteis, því hann hefur yfirleitt engan áhuga á að vera kurteis. Talíbanarnir gleyma ekki að virða mannréttindi, því þeir hafa engan áhuga á að fylgja reglum sem takmarka athafnafrelsi þeirra. Fyrir þeim eru mannréttindi dauður bókstafur. Þeir staðsetja sig utan við lög og rétt, og viðurkenna ekki neitt samborgaralegt yfirvald. Eða, öllu heldur, eina yfirvaldið sem þeir viðurkenna er eigin máttur og í krafti hans gerast þeir sjálfir valdhafar og taka til sín réttinn til að beita ofbeldi. Einhver kynni að gera athugasemd við þessa lýsingu mína á stöðu talíbananna á þeim forsendum að þeir virði guðlegt yfirvald eða guðlega köllun. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér, aðeins að lýsa þeirri skoðun minni að framferði þeirra sé svo fjarri nokkurri vitrænni túlkun á boðskap kóransins að vísanir þeirra í íslam geta ekki verið annað en yfirvarp og kápa til að klæða í guðlausan hrottaskap.
Í Swat-héraði í Pakistan höfðu talíbanarnir í raun sagt sig úr lögum við ríkið og í krafti eigin máttar lagt undir sig heilt samfélag. Mannréttindi Malölu, t.d. rétturinn til lífs en líka rétturinn til menntunar og þátttöku í samfélaginu, var fyrir borð borinn í þessum aðstæðum. Malala sótti að vísu skóla – hún var á leiðinni heim þegar hún var skotin. En hún, og skólasystur hennar, þurftu að fara leynt með þá staðreynd; þær klæddust ekki skólabúningum, sem þó var venja, og skólabækurnar földu þær innan klæða á leið sinni á milli heimilis og skóla. Þótt talíbanarnir hafi virt allan rétt Malölu að vettugi, þá var hún samt ekki réttlaus manneskja. Síður en svo. Hún hafði vissulega rétt til lífs, frelsis og menntunar, eins og aðrar manneskjur, og þessi réttur fól m.a. í sér að Malala átti kröfu á hendur yfirvöldum í Pakistan að þau tryggðu öryggi hennar og gerðu henni fært að ganga í skóla.
„Ætlum við að segja að sumir eigi tilkall til þess að fá tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi en aðrir ekki?“
Þegar mannréttindi eru fyrir borð borin er það til marks um að stjórnvöld tiltekins ríkis hafa brugðist. Allur réttur felur í sér þrjú atriði. Í fyrsta lagi einhvern handhafa réttarins, í öðru lagi inntak hans, og í þriðja lagi þann eða það sem rétturinn beinist að.2 Réttur fólks til að búa við öryggi beinist ekki einungis að hugsanlegum árásarmönnum heldur einnig að þeim sem eiga að halda þeim í skefjum, þ.e. yfirvöldum sem hafa það hlutverk að tryggja öryggi borgaranna. Þegar Malala var skotin brugðust pakistönsk stjórnvöld þeirri skyldu sinni að tryggja rétt hennar til að búa við öryggi.
Réttur eins felur í sér skyldu annars. Réttur hverrar manneskju til að vera ekki misþyrmt felur í sér skyldur annarra – líka talíbana – til að hafa taumhald á gjörðum sínum, hversu misboðið sem þeim kann að vera. Mannréttindi eru einmitt oft með þessu móti; réttur sem felur í sér að aðrir hafi taumhald á gjörðum sínum. Þau fela í sér taumhaldsskyldur annarra, bæði einstaklinga og valdhafa. En rétturinn til að vera laus undan ofbeldi felur einnig í sér skyldu stjórnvalda til að tryggja öryggi. Við segjum að rétturinn feli í sér verknaðarskyldur vegna þess að hann felur í sér skyldu til margvíslegra verka. Öryggi verður ekki tryggt með aðgerðarleysi.
III. Menntun sem mannréttindi
Mannréttindi varða skilyrði þess að fólk geti lifað innihaldsríku lífi með tvennskonar hætti. Annars vegar fela þau í sér taumhaldsskyldur annarra – þ.e. öðrum ber að hafa taumhald á gjörðum sínum þannig að maður hafi tiltekið rými til að lifa í friði. Hins vegar fela þau í sér verknaðarskyldur annarra, þ.e. skyldur annarra til að styðja mann í því að lifa vel, hvort sem sá stuðningur birtist í því að ofbeldismönnum er haldið í skefjum eða skólar eru byggðir og mannaðir hæfum kennurum. Hér er um að ræða bæði rétt til að vera laus undan hverskyns kúgun og ofbeldi en einnig rétt til að fá tækifæri til að þroska getu sína og mannkosti.
Líklega geta flestir verið sammála um að menntun, hvort sem hún er fengin í skóla eða annars staðar, sé nauðsynleg til að lifa innihaldsríku lífi sem borgari – þ.e. frjáls og sjálfráða þátttakandi – í flóknum samfélögum samtímans. Vissulega eru skoðanir á því skiptar hvað geri líf manns innihaldsríkt og hvenær maður er frjáls og sjálfráða, en það breytir því ekki að um mikilvægi menntunar í þessu efni verður tæplega efast. Þess vegna hefur íslenskt samfélag, eins og önnur samfélög á Vesturlöndum og miklu víðar, lagt þá skyldu á ungar herðar að ganga í skóla og verja þar löngum stundum – á Íslandi frá 6 ára aldri til 16 ára. Á börn og ungmenni eru ekki lagðar neinar aðrar viðlíka skyldur.
Spurningin um innihaldsríkt líf er ekki bara spurning um hvers konar líf sé innihaldsríkt, heldur líka hverjir eigi tilkall til að fá tækifæri til að lifa slíku lífi. Seinni spurningin er svolítið groddaleg. Ætlum við að segja að sumir eigi tilkall til þess að fá tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi en aðrir ekki? Varla. Sómasamlega réttlátt samfélag tryggir öllum tiltekna lágmarksgetu til að lifa innihaldsríku lífi.3 Þetta þýðir vitaskuld ekki að allir lifi innihaldsríku líf, en það felur í sér að grunnstofnanir samfélagsins séu skipulagðar með þeim hætti að allt fólk hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og fái auk þess stuðning til þess að nota þessa hæfileika til að lifa lífi sem það hefur ástæðu til að meta að verðleikum.
Menntun sem mannréttindi felur augljóslega í sér verknaðarskyldu ríkisvaldsins, en það er ekki alltaf ljóst hvað ríkisvaldið þarf að gera til að uppfylla þessa skyldu. Eitt mögulegt svar er að skyldunni sé fullnægt með því einfaldlega að veita aðgang að skólum, þ.e. að gera fólki kleift að sækja sér skilgreinda menntun. Þótt það sé mjög mikilvægt að hafa aðgang að skóla, eins og t.d. Malala hefur ítrekað, þá er það samt ekki nóg. Skólakerfi, sem hefur almenna menntun að viðfangsefni, sinnir því hlutverki ekki með því einu að veita þeim sem þangað koma afmarkaða þjálfun, t.d. þjálfun sem gerir fólk gjaldgengt á vinnumarkaði. Hvort skóli sinni menntunarhlutverki sínu verður í raun að meta með hliðsjón af þroskamöguleikum hverrar manneskju og áskorunum daglegs lífs. Þess vegna er réttinum til menntunar ekki fullnægt með því að opna skólana fyrir öllum, heldur verður skólagangan einnig að hafa það gildi í lífi manneskjunnar sem henni er ætlað. Staður þar sem lítil sem engin menntun á sér stað er ekki skóli, hvaða nafni sem hann annars nefnist.
Í þessu sambandi verður að taka með í reikninginn að sú menntun sem formlega er skilgreind sem viðfangsefni skóla er ekki nema hluti af þeirri menntun sem máli skiptir. Snædís Rán Hjartardóttir, menntaskólanemi og baráttukona fyrir réttindum fatlaðra, hefur orðað fyrra atriðið með einkar skýrum hætti. Hún segir:
„Aðgengi í skóla getur verið á mismunandi stigi og fer eftir ýmsu hvað telst ásættanlegt. Stundum mætti halda að það fælist eingöngu í því að einstaklingar með sérþarfir ættu kost á lágmarks menntun en ekki endilega fullri eins og öðrum einstaklingum stendur til boða. Einnig vill stundum verða sá misskilningur að skóli sé til þess að læra og því ekki á ábyrgð neins að gera félagslífið aðgengilegt. Sannleikurinn er hins vegar sá að það er menntun í því fólgin að gerast virkur þátttakandi, hvort sem er í hinni eiginlegu menntun eða þeirri reynsluöflun sem félagsstarfið hefur upp á að bjóða. Þar af leiðir að fullur þátttakandi hefur aðgengi að öllu því sem til boða stendur en aðgengi að skóla ræðst af þeim hugmyndum sem ráðamenn hafa um nauðsyn þess að uppfylla mismunandi þarfir ólíkra nemenda.“ 4
Það sem Snædís Rán bendir á hér er að það að menntast í skóla felur í sér þátttöku í samfélagi en ekki bara að hafa aðgang að kennurum og þekkingu.
IV. Menntun og innihaldsríkt líf
Menntun sem mannréttindi er ekki bara réttur til að sækja sér menntun heldur verður að fylgja með að fólk hafi tækifæri til að nýta menntun sína og njóta hennar; menntunin verður að hafa það gildi sem ræður því að menntun varði mannréttindi. Seinna atriðið – að fólk fái notið menntunar sinnar – varðar ekki bara skólana og þeirra starf, heldur samfélagið allt og þann stuðning sem fólk hefur utan skóla.
„Ef menntun er mannréttindi, þá felur það líka í sér brot á mannréttindum að fólk sem hefur sótt sér menntun fái ekki tækifæri til að njóta hennar.“
Menntun hefur bæði gildi í sjálfri sér og gildi vegna þess sem af henni hlýst. Vegna þess að menntun hefur gildi í sjálfri sér þá felast ákveðin lífsgæði í því að afla sér menntunar og að því leyti verður ekki gerður greinarmunur á því að afla sér menntunar og njóta hennar. En menntun hefur líka tækisgildi, þ.e. gildi vegna þess sem af henni hlýst, hvort sem það er frekari menntun, vinna, samfélagsþátttaka eða hvað annað. Þau gæði sem hafa gildi vegna þess sem af þeim hlýst verður að meta eftir því hvaða möguleika fólk hefur á að umbreyta slíkum gæðum í raunveruleg lífsgæði. Þetta þýðir að taka verður með í reikninginn að fólk á mjög misjafnlega auðvelt með að umbreyta gæðum sem það ræður yfir í raunveruleg lífsgæði.
Manneskja sem þarf að nota túlk til að eiga samskipti við annað fólk á erfiðara með að njóta menntunar sinnar með því að eiga í merkingarbærum samskiptum við annað fólk heldur en manneskja sem getur tjáð sig óhikað í flestum daglegum kringumstæðum með venjulegu tali á sínu eigin móðurmáli.
Manneskja sem þarf stuðning til að eiga samskipti við annað fólk fær ekki notið menntunar sinnar þegar slíks stuðnings nýtur ekki við. Ef menntun er mannréttindi, þá felur það líka í sér brot á mannréttindum að fólk sem hefur sótt sér menntun fái ekki tækifæri til að njóta hennar. Starfhæfur túlkasjóður, sem er opinber sjóður til að standa straum af margvíslegri túlkaþjónustu fyrir þá sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir, er því ekki bara þjónusta sem æskilegt er að veita þeim sem á þurfa að halda, heldur er það hluti af verknaðarskyldu ríkisvalds að tryggja að slíkur sjóður sé til staðar – og ekki tómur – af því að það eru mannréttindi allra að hafa tækifæri til að menntast og njóta menntunar sinnar.
Haustið 2014 þvarr sjóðurinn eins og um var rætt á sínum tíma í blöðum og ljósvakamiðlum. Í kjölfarið stefndi Snædísi Rán íslenska ríkinu fyrir að veita henni ekki þá þjónustu sem hún taldi sig eiga rétt á. Í umræðu um málið var gjarnan vísað í 76. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a.: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“ Það er vissulega viðeigandi að vísa í þessa grein, en ef við tökum það yfirleitt alvarlega að menntun sé mannréttindi, þá ber einnig að líta svo á að starfhæfur túlkasjóður – eins og ýmis önnur þjónusta við fatlað fólk – sé beinlínis hluti af réttinum til menntunar. Mér virðist einmitt að Snædís Rán hafi verið að hugsa á þessum nótum þegar hún gagnrýndi menntamálaráðherra í umræðunni um túlkasjóðinn í nóvember 2014, en á Facebook-síðu sína skrifaði hún m.a.:
„... tal um forgangsröðun [vegna framlaga í túlkasjóð er] mjög vafasamt þar sem bakkabræður einir myndu panta sér túlka til þess eins að fá túlka (ekki til að láta túlka fyrir sig, bara hafa þá hjá sér). Það er ekki neins að ákveða hverjir eiga rétt á túlkun umfram aðra, það má aðeins skipuleggja þjónustuna þannig að allir sem þurfa fái sinn sanngjarna skerf. Hvað fjármunina varðar þá er spurningin frekar hvernig við skiptum samfélagslegum gæðum milli okkar, hvort vegur meira þjónusta sem stuðlar að eðlilegri og sjálfsagðri þáttöku í samfélaginu eða munaður sem hugsanlega á rétt á sér en er kannski ekki nauðsynlegur. Ég segi bara fyrir mig að ég er ekki tilbúin að lifa í búri þar sem allar pantanir til Samskiptamiðstöðvar lenda í einhverri forgangsröð sem á víst eftir að valda því að ég eigi bara rétt á sumum útgáfum af samskiptum við annað fólk!“ 5
Þegar Snædís Rán segir að hún sé ekki tilbúin til að lifa í búri þar sem það velti á einhverri forgangsröðun hvaða útgáfur af samskiptum henni standi til boða, er hún að draga fram kjarnann í hugmyndinni um mannréttindi – sama kjarnann og Malala talaði um og tengdi við umferðarreglurnar á Bretlandi og lögmál eðlisfræðinnar. Kjarninn er þessi: Það er óþolandi að duttlungar annarra ráði möguleikum manns á því að lifa innihaldsríku líf; sérhver manneskja á rétt á að fá tækifæri til að búa við öryggi og þroska hæfileika sína og sækjast eftir því sem hún sjálf telur eftirsóknarvert og mikilvægt í lífinu, svo fremi að hún virði rétt annarra til hins sama.
Ólafur Páll Jónsson er dósent í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Heimildir
1 Malala Yousafzai, I am Malala: The Girl Who Stood up for Education and was Shot by the Taliban. London: Phoenix 2013, bls. 260 og 279.
2 Kaflinn „Réttindi, mannréttindi og réttindi barna“ í bók minni, Lýðræði, réttlæti og menntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2011. Sjá einnig kafla Þorsteins Gylfasonar, „Líknardráp“ í bókinni Réttlæti og ranglæti. Reykjavík: Heimskringla 1998.
3 Bók Mörthu Nussbaum, Frontiers of Justice: Disability, Nationality, Species Membership. Cambridge Ma.: Harvard University Press 2006.
4 Snædís Rán Hjartardóttir, samtal 8.3.2015.
5 Snædís Rán Hjartardóttir, stöðuuppfærsla á Facebook 18.11.2014.
Athugasemdir