Hvað liggur mér á hjarta? spyr Facebook. Og svarið í dag er: Fylgisleysi Samfylkingarinnar. Það er erfitt að sjá gamla flokkinn sinn veslast upp í beinni. Og maður spyr sig í sífellu: Hvað veldur?
Og því miður er stutt í samviskubitið, því undanfarið hef ég ekki verið duglegastur að setja X við S. Fyrir 7 árum síðan kynntist ég nefnilega þessari líka yndislegu konu sem var starfandi í VG og meira að segja í framboði þar á bæ. Af þeim hjartans sökum hef ég því kosið það (nú Ragga kúl Kjartans) partý síðan þá. Þau vistaskipti gerðust reyndar með nokkuð fallegum hætti, þegar ég ásamt syninum, þá 10 ára, var á leiðinni á kjörstað í Laugardalnum og hann fann á mér hikið og spurði: „Pabbi, en er ekki Agla í framboði?“ - „Jú.“ - „Þá verður þú að kjósa hana.“
En burtséð frá persónulegum högum, þá skilur maður ekki alveg þetta flokkshrun og má ekki til þess hugsa að Samfylkingin skreppi svona mikið saman, hún er jú flokksmóðirin mikla, móðir stefnu og strauma. Hún er eins og einstæða móðirin sem glímt hefur við stóru málin allt sitt líf, unnið sigra en lent í mótlæti, og nú síðustu árin glímt við talsverð innanmein, á meðan „börnin“ hennar, hin pönkaða Björt og hin ráðsetta Viðreisn, ásamt svitalyktandi nörda-skábarninu Pírata, blómstra með móðurarfinn og áhrifin frá henni í vasanum.
Kannski þola vinstriflokkar ekki að vera í stjórn? Vinstrimenn eru jú gagnrýnastir á eigin flokka og alltaf svo stutt í sjálfseyðingarhvötina sem hrópar: „Frekar þann versta en þann næstbesta!“
Kannski á það fyrir XS að liggja að verða nýr Alþýðuflokkur, fámennur hópur menntamanna sem eru frjóir og fá hugmyndir, marka og móta stefnu, og hafa áhrif langt umfram fylgi? En margar af hugmyndunum sem nú eru á lofti eru jú ættaðar úr krataranni, eins og möguleg innganga í ESB, ný stjórnarskrá, nýr gjaldmiðill, uppstokkun landbúnaðarins, kynjakvótar, markaðslausnir í kvótamálum, samfélag fyrir alla, baráttan eilífa gegn spillingunni, sanngjarnar leikreglur í viðskiptalífinu, frítt heilbriðgiskerfi, norræna velferðin öll… Allt góð mál, og allt mál Samfylkingar. Vandi flokksins virðist vera umbúðavandi fremur en innihalds.
Það hefur verið sárt að horfa upp á þetta, eftir afrekin öll sem flokksmenn unnu í Jóhönnustjórninni, þegar Ísland var endurreist úr hrunarústum, manni finnst þetta ekki sanngjarnt, og skilur þetta ekki alveg. Kannski er þetta allt bara spurning um persónur og leiðtoga. Jóhanna var vinsæl, fékk 30%, Dagur er vinsæll í borginni, fékk 30%, án Ingibjargar Sólrúnar hefði R-listinn aldrei orðið til, og nú virðist segullinn vera Katrín Jakobsdóttir, hin óumdeildi leiðtogi Vinstri-grænna.
Kannski er þetta bara skýringin?
En samt, þegar flokkur er kominn niður í 6-7% er eitthvað annað og meira að. Kannski var hann of lokaður klúbbur? Afhverju stóðu dyrnar ekki opnar fyrir Óttarr Proppe, Evu Einars og þá kynslóð alla? Og afhverju ekki fyrir Viðreisnarfólkið líka? Væntanlega af því gamla „unga“ settið sat sem fastast. Í framboði nú er t.d. þingmaður sem sat í stjórn með Davíð Oddssyni… Kannski er þetta málið? En kannski var flokkurinn bara allt í einu ekki „kúl“? — samtíminn er grimmur andskoti. Og þegar ein beljan fer fara allar á eftir…
En þrátt fyrir allar slíkar hugsanlegar skýringar og aðfinnslur þá finnst mér flokkurinn ekki eiga þetta skilið. Jóhanna leiddi endurreisn Íslands, ekki lítið það! Og er eini forsætisráðherrann sem kvaddur var með rósum. Dagur er líklega besti borgarstjóri allra tíma. Þá tókst þessum flokki, ólíkt öðrum, að skipta friðsamlega um formann fyrr á árinu. Og hugmyndirnar skortir ekki fremur en fyrri daginn, hugmyndir sem valda titringi meðal íhaldsins. Framkvæmdastjóri Kynnisferða (a BB company) óttast nú fátt meir en hugmyndir XS um aukinn virðisauka af ferðaþjónustu og þá hafa kvótakerfiskarlar út um landið hent í heilu myndböndin gegn færeysku uppboðsleiðinni. Formaðurinn Oddný hefur líka staðið sig mjög vel í kosningabaráttunni, sýndi til dæmis fádæma yfirvegun og málafestu gegn ruddalegum spyrli Sprengisands Bylgjunnar á dögunum, og hefur í hvívetna sýnt hversu ábyrg og traust hún er. „Hin íslenska Angela Merkel“ eins og sumir samherjar hennar kalla hana.
Oddný er Mamma Samfó holdi klædd.
En segja má að Samfylkingin hafi verið í hálfgerðu einelti þessa kosningabaráttu, fólk er leiðinlega þórðarglatt í dugnaði sínum við að analísera fylgisleysið, það er svo voða gaman að sjá fólki ganga illa, og nú er orðið alveg sama hversu rétt Samfylkingin hagar sér, alltaf er það stimplað sem veikt og rangt. Meira að segja snjöll kosningamyndbönd eru sögð slæm, og þá þótti opinn og fús vilji hennar til að taka fund með Pírötum sýna hversu flokkurinn væri bjánalegur! Kommon, segi ég nú bara. Enda kom annað á daginn.
Þetta er orðið eins og að fylgjast með einelti úr vinstri-grænum fjarska. Á þeim bænum eru allir auðvitað hressari og það er svosem aldrei leiðinlegt í VG. Þar er greindarvísitalan há, einkum meðal kvenna, og góður andi í hópnum (já, betri en í XS), gleði og húmor við völd, í bland við eldheitar hugsjónir. Og ekkert bölvað foringjavesen. Hin góðu mál VG-liða eru auðvitað líka þau sem vaða uppi í dag sem aldrei fyrr, hlýnun jarðar, flóttamenn, kvenfrelsi (beitti femínisminn) og raunveruleg ástin á menningu og listum. Ýmislegt annað reynir maður svo að umbera, eins og þjóðlega íhaldið í landsbyggðarmálum og hina furðulegu þolinmæði gagnvart framsóknarforinni, sem gamall kratabelgur á erfitt með, en orðið „krati“ nota VG-liðar einmitt stundum sem skammaryrði (og finnst manni þá stutt í stríðsárin). Sagnfræðiminnið brestur hinsvegar alveg þegar kemur að orðinu „kommúnisti“. Það hefur nánast yfir sér rómantískan blæ, enda veigra VG-stúlkur sér ekki við að skreyta kökur sínar með svastiku Stalíns.
Það besta við VG er samt góðmennskan. Því er nefnilega ekki upp á þetta fólk logið, það er í alvörunni betra, fórnfúsara, hjálpsamara og heiðarlegra en við hin, eins og konan mín er gott dæmi um. Þau líka búa eins og þau boða, formaðurinn í blokk, og á gömlum bíl… á leið út í Sorpu með ruslið sitt vandlega flokkað.
Maður á sér því auðvitað þann draum að þessir tveir flokkar, XS og VG, geti sameinast svo maður geti kosið með öllum skrokknum, tám og heila, en ekki bara hjartanu. En vinstrimenn verða víst ekki sameinaðir á mínu æviskeiði, það finnast víst alltaf nýjar leiðir til að kljúfa þá. En á móti kemur að þarna er stutt á milli, og varla fara þau í stjórn í sitthvoru lagi. Við eigum samt að reyna (eins og ég er að gera hér) að vera góð hvort við annað og passa uppá hvort annað. Því þessir flokkar báðir eru svo mikið VIÐ.
VG er kannski Íslendingurinn eins og hann vildi vera, eins og hann er á tyllidögum, með áhuga á ljóðum og umhverfisvænn og til í heila flugvél af flóttamönnum, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er Íslendingurinn í sínu versta ástandi, blindfullur og uppfullur af sjálfum sér, hávær egóisti blótandi Evrópu og skattinum, en lofandi Thorsil og Tortólu, og á leið upp í munninn á næstu manneskju, „hvað er ekki kossfrelsi hérna?“. En Samfylkingin fangar hinsvegar kjarnann í hverjum Íslendingi; hún er eins og við erum klukkan fimm, að baslast áfram með kerruna í Krónunni og Bónus: Þreyttur en drífandi einstaklingur sem vill samt að öllum gangi líka vel. Samfylkingin er VIÐ í hversdeginum. „Við erum náttúrlega öll kratar, þannig séð.“
Við ættum því að gefa Samfylkingunni séns, hún hefur svo margt gott til málanna að leggja, og í umbótastjórn Katrínar og Birgittu þætti manni nú ekki verra að vita af Oddnýju G. Harðardóttur í stóli fjármálaráðherra. Einhver þarf að vera með budduvöldin, einhver þarf að vera mamman, og Samfylkingin er og verður móðir jafnaðarstefnunnar. Þegar stuðið fer að stirðna í því ungflokkafjöri sem nú geysar verður kannski gott að geta farið heim til mömmu. En þá má hún heldur ekki vera dauð.
Athugasemdir