Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, skrifaði grein í Kjarnann í síðustu viku undir yfirskriftinni 527 milljarðar til 10% Íslendinga. Greinin er örstutt kynning á stefnu Samfylkingarinnar í húsnæðismálum, en í því samhengi ræðir Oddný misskiptingu auðs á Íslandi. En helstu staðhæfingar hennar um misskiptingu eru þó beinlínis rangar, auk þess að vera mjög villandi. Í greininni segir:
„Ef umfangið á misskiptingunni er skoðað kemur í ljós að af hreinni eign, sem orðið hefur til frá árinu 2010 [til ársloka 2015], hafa 527 milljarðar króna runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga sem eiga mest, alls 20.251 einstaklinga. Það eru 26 milljónir á hvern einstakling.“
Í fyrsta lagi er þetta ekki rétt reiknað. Samkvæmt þeim gögnum Hagstofunnar sem augljóslega er vísað til er aukning hreinnar eignar hjá hverjum aðila sem telst til þeirra tíu prósent ríkustu ekki 26 milljónir að meðaltali, heldur 20,5 milljónir. Hópurinn sem um ræðir stækkaði á tímabilinu og orsakast því hluti eignaaukningarinnar af öllum fjármunum þess fjölda sem bættist í hópinn á tímabilinu. Af þeim sökum er ekki hægt að deila einfaldlega eignaaukningunni með fjölda hópmeðlima, sem gefur ranglega 26 milljónir, heldur þarf að leiðrétta fyrir auknum fjölda. Það gefur að meðal-aukning eigna hjá aðila í þessum hópi eru 20,5 milljónir. (Útreikninga og útskýringar er að finna hér að neðan).
Í öðru lagi er þetta gríðarlega misvísandi. Á tímabilinu sem um ræðir hefur verið verðbólga, og hópurinn átti ótilgreint magn fjármuna í upphafi tímabilsins. Það er því ómögulegt að átta sig á því hve mikinn aukinn kaupmátt hópurinn hefur raunverulega grætt á tímabilinu. Þegar allar tölur eru núvirtar og rétt er reiknað sést að kaupmáttaraukningin á tímabilinu nam 7,9 milljónum að meðaltali í krónum okkar tíma. Þetta er aukningin á fimm ára tímabili, en í samanburði óx hrein eign allra annarra, níutíu prósentanna, að meðaltali um 4,5 milljónir á tímabilinu.
Í þriðja lagi taka gögnin alls ekki til einstaklinga líkt og Oddný heldur fram, heldur fjölskyldna, þar sem fjölskylda telst vera annað hvort einstaklingur eða hjón. Samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra er hlutfallið milli samskattaðra og einhleypinga meðal þeirra sem áttu mesta verga eign í árslok 2015 um fjórir á móti einum. Ef við gerum í smá stund ráð fyrir sama hlutfalli hjóna og einstaklinga í gögnunum sem hér um ræðir gefur það 4,4 milljónir að meðaltali á mann – en ekki 26 milljónir – yfir fimm ára tímabil. Oddnýju til varnar hafa þó aðrir aðilar kynnt gögnin á þennan hátt, en til dæmis hafa nýlega birst tvær fréttaskýringar í Kjarnanum og forsíðufrétt í Fréttablaðinu þar sem sami misskilningur var uppi (Kjarninn hefur líka básúnað 527 milljarða töluna í sama samhengi og Oddný nefnir, en án 26 milljóna tölunnar).
Gögn Hagstofunnar um skiptingu eigna og tekna eru takmörkuð. Til dæmis eru hlutabréf talin á nafnvirði (en ekki markaðsvirði), og erlendar leynieignir eru þar hvergi að finna. En ef við erum á annað borð að nota þau, þá ber að nota þau rétt og af sanngirni.
––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––
Útreikningar og heimildir:
Gögn frá skattstjóra má sjá hér í skjalinu sem sýnir eignir og skuldir eftir eignabilum. Þar sést að 15.520 samskattaðir aðilar eru í eignamestu tíundinni, en 3.700 einhleypingar. Það gerir um 4 samskattaða móti hverjum einhleypingi (15520÷3700 = 4,2), eða um 4/5 fleiri einstaklinga en annars. Meðal-eignaaukning fyrir hvern einstakling var því 4,4 milljónir (1913704÷(20251×9÷5)−1617585÷(18669×9÷5)).
Athugasemdir