„I don´t want to wait for our lives to be over“ - með þessum texta hefst hin víðfræga næntís klassík Dawson’s Creek. Sjónvarpsþáttur sem á sér stað í smábæ í Norður-Karólínu og byggir á flóknum og heimspekilegum samskiptum og samböndum ungmenna. Strax í fyrsta þætti birtist áhorfendum þrástef sem virðist gegnumgangandi í ófáum sjónvarpsseríum þar sem markaðshópurinn er ungt fólk. Þar segir frá Pacey, 15 ára óhörnuðum unglingi og hvernig hann verður ástfanginn af enskukennaranum sínum, konu á fertugsaldri. Með þeim takast „ástir“ og þau eiga í kynferðissambandi.
„Ástarsambönd“ milli kennara og nemenda birtist í aragrúa af sjónvarpsþáttum. Þáttum eins og Pretty Little Liars, One Tree Hill, Gossip Girl, Friends, The O.C. og Life Unexpected. Þar er forboðin ást gerð eftirsóknarverð, ást sem er oftast ógagnrýnd og afleiðingar slíkra sambanda oft litlar sem engar. Þessi sambönd eru sett fram sem hluti af þroskaferli ungmennisins. Í þáttunum eru það oftar en ekki ungmennin sem eltast við kennara sína sem að lokum gefa undan og eiga þau í framhaldi í ástar- og kynferðissambandi.
Þættir sem þessir eru hluti af menningu ungmenna, þeir eru liður í félagsmótun þeirra og geta því haft áhrif á viðhorf þeirra og hugmyndir. Flest okkar myndu setja spurningarmerki við samband milli einstaklinga þar sem annar er fimmtán og hinn fertugur. En í þáttunum eru samböndin gerð eðlileg, um er að ræða lostafulla ást þar sem ungmenninu er kennt að elska.
Nemendur eiga oft einstakt samband við kennara sinn. Kennarinn er fyrirmynd nemanda og hefur það hlutverk að leiðbeina nemandanum áfram og miðla til hans þekkingu, hvetja og veita innblástur. Kennarar eru í ákveðinni valdastöðu gagnvart nemendum, þessi valdastaða er hluti af menningu skólaumhverfisins, sem kennarar stíga beint inn í þegar þeir taka upp störf innan skóla. Með valdi geta kennarar haft mótandi áhrif á líf einstaklinga með því að miðla til þeirra þekkingu og vera þeim fyrirmynd. Kennari þarf að setja kýr fagleg mörk og tryggja að þau séu aldrei rofin. Kennarastarfið er mikilvægt og vandasamt, skýrt siðferði og kennslufræði eru þar lykilatriði.
Þegar fjölmiðlar normalisera ástarsambönd kennara og nemenda gefa þeir rými þar sem slíkt er gert eðlilegt, hluti af þroska og ekki efni til gagnrýni. Þetta endurspeglast í okkar menningu. Nýverið birti DV viðtal við geðþekkan stjörnufræðing þar sem sagt er frá hvernig hann hóf samband við nemanda sinn, enginn gerði við það athugasemd innan skólans. Unga stúlkan á að hafa „náð í hann”. Þarna birtist okkur nemandi sem leitast eftir að eiga í óformlegu sambandi við kennara sinn. Nemandinn áttar sig ekki á mörkum sambands þeirra og kennarinn gerir þau ekki skýr. Þó aldursmunurinn hafi ekki verið mikill eins og hjá Pacey og Tamöru þá er þetta vissulega gagnrýnisvert. Að skólastjórnendur hafi ekki sett spurningarmerki við þetta samband, tekið til greina hvernig áhrif þetta hafði á nemendahópinn, skólabraginn, aðra kennara, foreldra eða ásýnd skólans er með eindæmum einkennilegt. Burtséð frá þeirra persónu, þá er einkennilegt að fréttamiðill slái fram þessum upplýsingum sem hversdagslegum hluta af tilverunni. Þetta hlýtur að vera gott dæmi þess að fjölmiðlar hafa blindað okkur sýn og gert samband af þessu tagi eðlilegt.
Fjúka allar siðareglur út þegar ást er annars vegar? Þegar siðareglur kennara eru skoðaðar má sjá að ástarsambönd eru ekki með beinum orðum fordæmd. Siðareglur kennara eru almennar, en þó mætti auðveldlega finna samhljóm í siðareglunum um að slík hegðun stríði gegn almennu velsæmi kennara og sé þar af leiðandi brot. Kennari sem á í sambandi sem þessu með nemanda sínum, glatar fagsýn sinni. Kennarinn gætir ekki heiðurs stéttar sinnar (sbr. 12. siðareglu kennara) og færir sig inn á svið sem við getum flest verið sammála um að sé ósiðlegt og varhugavert. Hann missir sjónar af valdastöðu sinni, hlutverki sínu sem uppeldisaðili, fyrirmynd og fagmaður/kona. Kennari á ekki að skapa neins staðar rými þar sem ást getur blómstrað milli hans og nemanda, heldur ofar öllu að sinna starfi sínu af umhyggju og nærgætni, meðvitaður um valdastöðu sína og hlutverk sitt.
„Will it be yes, or will it be sorry” - með þessum orðum endar stefið í Dawson’s Creek, með það að leiðarljósi má spyrja sig hvort við ætlum að taka afstöðu með ástarsamböndum milli kennara og nemenda, segja já eða afsaka þau. Viljum við ekki frekar taka skýra afstöðu, fordæma slík sambönd og segja afgerandi nei, þú mátt ekki „deita“ kennarann þinn? Siðareglur kennara þurfa að vera skýrari hvað þetta varðar og skólarnir þurfa að setja sér skýra verkferla og reglur til að tryggja að hagsmunir nemenda séu hafðir ofar öllu.
Athugasemdir