Hver er nú aftur munurinn á hægristefnu og vinstristefnu? Það er víst ekki oft sem þær gömlu systur klappa saman sverðum núorðið. Áslaug María Friðriksdóttir og Katrín Jakobsdóttir tókust á um grundvallaratriðin í Vikulokunum fyrir skemmstu. Sú fyrrnefnda fór með þekktar línur úr brauðmolafræðum: „Ef ég hækka í launum þá þýðir það ekki að þú þurfir að lækka“ og „Við eigum hætta að tala um ríka fólkið sem vonda kallinn sem alltaf er að græða, það er bara gott ef einhver græðir”, að ógleymdu tali um láglaunahópana sem „óheppna fólkið“. Maður þekkir þessa frasa, fyrir áratugum síðan fengu þær mann kannski til að hugsa, en eru nú orðnir gegnsæir af notkun. Katrín var ögn nær okkur í tíma, vitnaði í franska hagfræðinginn Piketty og nýjustu staðreyndir um stigvaxandi misskiptingu auðs í heiminum.
Eitt sinn virtust hægri- og vinstristefnur nánast jafnsterkar. En eftir fall kommúnismans töpuðu vinstrimenn sjálfstraustinu, misstu endanlega tengslin við verkalýðshreyfinguna, og verkalýðshreyfingin sjálf við sinn verkalýð (sem mælti nú allur pólsku, tælensku og filippseysku). Menn færðu sig til hægri og fengu þannig Blair í seglin, sum okkar hrifust jafnvel með ungum og hressum kapítalistum sem buðu gamla hægrinu byrginn, hörðustu kommarnir hurfu hinsvegar upp á hálendið og mökuðu sig með dýjamosa, komu algrænir til byggða en að öðru leyti af fjöllum. Davíður hægridansinn fékk að duna einn í áratug, það var sólósúludans á sviðinu. Sama þróun varð um allan heim. Bush gerðist almáttugur, og Blair hans hundur, lygin varð sannleikur, Írak land framtíðar en Ísland fjármála, og allir markaðir á uppleið. Án aðhalds frá vinstri fékk hægristefnan að valsa um heiminn í áratug.
Uns hún hægraði yfir sig.
Við skiljum þetta kannski betur með samanburði úr poppinu, því fjárgróðafyrirbæri sem fikraði sig alltaf lengra í átt að kláminu í leit að pening. Allt frá eggjandi saklausu rollingaupphafi lá því leið þess niður á við, um madonnulendar og flatmagadans. Það var 40 ára langur leiðangur sem náði loks niður í klof árið 1999 með hinum fræga Þvengsöng. Eftir það hélt poppið sig á klofsvæðinu í tíu ár, að því er virtist í von um inngöngu, en gafst loks upp á biðinni og færði sig aftur fyrir bak. Rann þá upp rassatíð og hefur geisað síðan. Rassagyðjur rugga sínum kinntitrandi bossum og nugga í allt sem fyrir verður, og syngja þeim lof og dýrð, sumar syngja jafnvel með rassi sínum og er þá ekki verið að tala um dúetta. Gekk svo til í fjögur ár uns fram kom rassaskassið mesta, Nicki Minaj, með tímamótamyndbandið Anaconda. Var þá almennt talið að poppið hefði „rassað yfir sig“ enda heyrðist nú ekki lagið lengur fyrir því sem fyllti skjáinn.
Á sömu leið fór hægristefnan. Hún rassaði yfir sig. Eftir áratuga flört við skattundanskot og eignatilfærslur, hefðbundið kennitöluflakk og almenna heilbrigða spillingu gekk hún loks alla leið og tók okkur öll í rass. Ekki bara með sínu fræga Hruni heldur áfram og alla leið til Lúx og Sviss og Cayman, í gegnum Kaupþing, HSBC & co. 1500 milljarðar af íslenskum krónum sofa nú fjarri fósturjörð og safna sólbrúnum vöxtum í Karabísku hafi, ránsfengur þriggja kynslóða íslenskra hægrimanna, allt frá Engeyingum til Oblátunga (þeir síðarnefndu voru eitt sinn Oflátungar en gengu til PR-altaris eftir Hrun og þvoðu þar allt sitt, nema peningana sem geymdir eru við væga vogunarsuðu í hótelsundlaugunum á Tortóla.)
Það er Kjarninn sem greinir frá þessu. Íslenskir yfirrassar geyma 1500 milljarða króna í skattaskjólum. Það eru vel tvöföld ríkisútgjöld ársins 2014.
Aðrar fréttir greina frá því að 10% landsmanna eigi 70% auðs okkar Íslendinga. Á heimsvísu á 1% jarðarbúa nærri helming auðsins. Stærsti banki Bretlands varð uppvís að því að leiðbeina þúsundum ofríkra í skattaskjól. Tveir billjónabræður í BNA hyggjast kaupa komandi forsetakosningar og færa flokknum sínum að gjöf. Og svo framvegis og svo framvegis…
Þess vegna á tal um „góða gróðafólkið“ og „óheppna láglaunafólkið“ ekki lengur við. Grægðin hefur löngu náð nýjum hæðum. Hægristefnan hefur fyrir löngu rassað yfir sig. Hún gekk út yfir allar öfgar og stefnir út af skalanum. Þess vegna er ekkert pláss eftir hægra megin við hægri (nema fyrir andmúslímska múslíið). Þess vegna er allur skalinn nú vinstra megin við hægri. Þess vegna er allt sem gerist eftir yfirrössun hægristefnunnar í raun vinstrisinnað. Þess vegna eru nú allar aðgerðir stjórnvalda sjálfkrafa “vinstripólitískar”, sbr. hina hálfkommúnísku skuldaleiðréttingu, alkommúnískan náttúrupassa, stalínískan styrk til álvers sem aldrei varð (Helguvík), ofursovéskt kvótafumvarp og byltingarkommúnísk kaup á leyniplöggum um skattsvikara.
Þetta veit Bjarni Ben og gerir þess vegna ekki neitt.
Hallgrímur er einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar, myndlistarmaður og samfélagsrýnir. Hann fékk íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Höfund Íslands og var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir 101 Reykjavík og Rokland.
Athugasemdir