Ég vildi óska að ég gæti sagt að ég væri dugleg að borða alls konar fræ og faðma mína nánustu. Sannleikurinn er sá að ég er ekki viss um að það geti gert mig hamingjusamari en ég varð í morgun þegar ég fékk mér Lion bar í morgunmat.
Allir þessir nýju bjórbarir í Reykjavík eins og Skúli fógeti, Mikkeller og Bjórgarðurinn gera mig mjög hamingjusama. Mér líður vel á þessum stöðum. Bjórinn er allt of dýr til að allt leysist upp í fyllerí og nördastemningin í sambandi við bjórana finnst mér heillandi. Samt finnst mér bjór með miklu bragði ekki góður. Minn uppáhaldsbjór er Bud Ice en hann er hvergi til. Ég panta alltaf bara bjór númer sjö og vona að hann sé ekki súr bjór því þannig bjór er eins og að láta kýla sig í magann rétt áður en manni er hrint niður tröppur. Ef ég lendi á ljósum bjór með litlu bragði verð ég mjög hamingjusöm.
Að fara út að hlaupa gerir mig hamingjusama, en það að mér þyki það gaman veldur mér líka sálarangist því ég hef verið svo mikill antisportisti allt mitt líf að ég er lent í smá sjálfsmyndarkrísu. Ég ligg núna stundum andvaka yfir því að kannski sé ég eftir allt saman fáviti sem hafi gaman af matreiðslu og löberum sem tóna fallega við gardínurnar. Það hleypir öllum framtíðaráformum mínum í uppnám.
„Ég hef verið svo mikill antisportisti allt mitt líf að ég er lent í smá sjálfsmyndarkrísu.“
Ég hef talað um það í nokkur ár að fjallgöngur geri mig hamingjusama. En það sagði ég bara því ég hafði aldrei farið í eina slíka. Systir mín hringdi í mig í sumar og spurði hvort við ættum ekki að fara í eina fjallgöngu og ég sló til og við bókuðum okkur í næstu mögulegu ferð. Það reyndist vera ferð upp á eitthvað fjall sem heitir Stóra Jarlhetta. Mér fannst það ekki hljóma neitt tyrfið.
Allir í rútunni, sem lagði af stað eldsnemma um morgun frá BSÍ, voru gráhærðir og svona 20-30 árum eldri en ég. Ég glotti og hugsaði með mér að þetta yrði bæði létt og löðurmannlegt. Þegar rútan henti okkur út á einhverju stórgrýttu berangri fóru allir að setja saman stafina sína og stilla böndin á bakpokunum sínum svo vatnsdunkurinn sem þau báru félli rétt að baki þeirra. Ég reimdi bara upp á nýtt skóna sem ég hafði fengið lánaða og fékk mér einn gúllara af Aquarius flöskunni sem ég hafði fyrir tilviljun fundið inni ísskáp. Eitthvað sem ég hafði gleymt að drekka í síðustu þynnku.
Hitt fólkið fór að bera saman bækur sínar um öll hin fjöllin sem það hefði labbað þetta sumarið. Ég þagði bara um það að ég hef aldrei einu sinni labbað upp Esjuna.
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var komin upp einn fjórða af fjallinu að ég er ekki bara kyrrsetumanneskja í ofþyngd, ég er líka logandi lofthrædd og ætti undir engum kringumstæðum að vera að hanga heilan dag með fólki sem hefur stundað fjallgöngur í 40 ár og hefur allt látið grafa nafnið sitt í fallegar ísaxir einhvern tímann á ævinni.
Það getur vel verið að það veiti manni ánægju að fara út fyrir þægindahringinn, en ég veit núna að mín mörk liggja við Elliðaárnar og ég held ég fari ekkert austur fyrir þær í bráð nema fyrir einhvern rosalega góðan bar.
Athugasemdir