Skriffinnur er kynntur til sögunnar á síðum Þjóðólfs árið 1871. Greinin er þýdd upp úr sænsku tímariti og er um yfirgang Danmerkurstjórnar gagnvart Íslendingum. Stjórnin hafði afráðið að latína skyldi enn vera höfuðatriði í allri kennslu, þvert á óskir landsmanna.
„Vitlausara hefur víst sjaldan heyrst,“ segir þýðandi greinarinnar. „Þetta er eitt skriffinnsku-bragð (Bureaukratismus) og hindurvitni, sem vart á sinn líka. Hafi Danmerkur-stjórn í hyggju að hnýta nánar hin losnuðu böndin við Ísland, þá hefur henni illa misreiknast.“
Skriffinni bregður fyrir næstu áratugina innan gæsalappa og það er vísbending um að orðið hafi ekki verið í almennri notkun; blaðamönnum hefur ekki þótt rétt að nota það án varnagla. Við getum því gefið okkur að „skriffinnur“ sé tiltölulega nýkominn til landsins um þær mundir sem Þjóðólfur skrifar um hann.
En hver var eiginlega þessi Skrif-Finnur? Ég sé hann fyrir mér með hringlaga gleraugu og vatnsgreitt hárið. Hann heldur á stórri bókhaldsmöppu og segir „það stemmir“ oftar en gengur og gerist.
Getur verið að hér sé á ferðinni Finnur Magnússon, prófessor og yfirmaður Leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn (182 –1847)? Starfið fól í sér skjalagerð og skjalavörslu og í grúski mínu fann ég embættisfærslu þar sem hann biður um „nákvæmari skírslur frá Reikjavík“.
Eða er verið að vísa til finnsku þjóðarinnar? Þar í landi er 18. öldin kennd við frelsi, en alfræðiorðabókin Brittanica segir að því hafi fylgt mikið skrifræði og eins mætti tala um „öld búreókratíunnar“. Eru hér komnir fyrstu skrif-Finnarnir?
Æ ... varla.
Á þessum nótum leiddi ég hugann að öðrum fígúrum tungumálsins. Hver var Þórður í Þórðargleðinni? Eða Gvendur sem grunaði? Og hver var þessi Jónas sem stærðfræðijafnan er kennd við? Listinn var langur og skemmtilegur og mér var byrjað að líða svolítið eins og pokémon-þjálfara. Gotta catch‘em all!
Úr gömlu bókunum
Margar af persónum tungumálsins hafa lifað lengi á vörum þjóðarinnar. Ég hugsa að flestir kannist við þær – en sá kunningsskapur er þó mjög á yfirborðinu. Sláum nú á þráðinn og bjóðum nokkrum þeirra í heimsókn. Það er löngu tímabært.
Njála er merkilegust bóka og þar má finna margar af skrautlegustu söguhetjum íslenskra bókmennta. Þeirra á meðal eru kaupahéðinn, svikahrappur og lygamörður.
Gunnar á Hlíðarenda bregður sér í dulargervi Kaupa-Héðins eftir að hann flækist í skilnaðarmál frænku sinnar. Ekki fylgir sögunni hvort hann hafi breytt röddinni líka – en ég ætla að ímynda mér að svo hafi verið; hefur vafalaust gert sig skrækan og talað hratt. Með þessu móti tekst Gunnari að leika á fyrrverandi eiginmann frænkunnar og hlýtur af því mikla sæmd.
Hrappur Örgumleiðason Geirólfssonar gerpis er kenndur við bæði víg og svik. Uppi var orðrómur um að hann hafi fíflað Hallgerði langbrók og Njálssynir komust í bobba hans vegna. Hann féll síðan fyrir hendi Njálssona í mögnuðum bardaga á ísilögðu Markarfljótinu og voru það makleg málagjöld.
Mörður Valgarðsson tekur þátt í aðförinni að Gunnari og ber út róginn sem leiðir til brennunnar að Bergþórshvoli. Hann er ein af fyrirlitlegustu söguhetjum Íslendingasagnanna og ber nafn með rentu.
Göngu-Hrólfur var gerður útlægur af Noregi eftir að hafa fallið í ónáð hjá Haraldi hárfagra. Hrólfur var svo stór að hestar gátu ekki borið hann. Því varð hann að fara um allt fótgangandi. Hann fór fyrir miklum her sem tók undir sig ýmis héruð í norðvestur-hluta Frakklands. Þaðan kemur nafn Normandí, af norrænu innrásarmönnunum.
Þrándur í Götu kemur úr Færeyingasögu. Hann drepur skattheimtumenn konungs og beitir sér gegn kristniboðinu. Því má með sanni segja að hann hafi verið Noregskonungi þrándur í götu.
Kvennabósi er söguhetja Bósa sögu. Þar segir af Bögu-Bósa og viðskiptum hans við bændadæturnar. Hann kemur víða við og notar pikköpp-línur með góðum árangri: Ek vil herða jarlinn hjá þér ... ek vil brynna fola mínum í vínkeldu þinni ... ek vil sponsa traus þína ...
Eina ráðgátu hef ég ekki leyst, en það er uppruni orðtaksins „að gruna ekki Gvend“. Ég er þó með kenningu sem verður látin duga að sinni.
Orðtakið kemur fyrst fyrir í Þjóðólfi árið 1874 og næstu áratugi er það iðulega ritað án gæsalappa. Það er mögulega vísbending um að orðtakið hafi verið öllum kunnugt; Gvend þurfti ekki að kynna fyrir neinum.
Böndin hljóta því að beinast að langfrægasta Gvendi Íslandssögunnar, Guðmundi góða Arasyni. Við hann eru Gvendarbrunnarnir kenndir og fjölmörg örnefni önnur. Hann var sagður forvitri og fjarskyggn. Skoðum það aðeins betur.
Guðmundur er ekki eins og aðrir forvitrar. Hann byggir spádómana hvorki á draumum né fær sýnir; það er aldrei neitt yfirnáttúrulegt í gangi. Guðmundur styðst fyrst og fremst við tilfinningu sína. Og hvað er það annað en grunur?
Úr poppkúltúr
Meðaljón kemur fyrst fyrir í íslensku dagblaði árið 1956. Þar segir í Þjóðviljanum að Magnús Jónsson prófessor „hefði getað rökrætt marxisma á kínversku við Maó af meiri orðkynngi en Meðaljón rabbar við nágranna sinn um veðrið“.
Nafnið Joseph var vinsælt í Bandaríkjunum á 19. öldinni og „Joe“ stundum notað yfir hinn dæmigerða mann á svipaðan hátt og við segjum Jón Jónsson. Bandaríkjamenn voru byrjaðir að kalla meðal-manninn „Average Joe“ um miðbik síðustu aldar og það er vafalaust undanfari meðaljónsins okkar.
Hér er við hæfi að skoða annað skemmtilegt dæmi frá útlöndum. Í enskumælandi löndum eru samlokurnar kenndar við uppfinningamann samlokunnar, John Montague, jarlinn af Sandwich. Hann var fyrstur allra til þess að finna kjötmeti sínu stað á milli tveggja brauðsneiða.
Matvæli hafa verið kennd við fleiri góða menn. Sagan segir að matarkexið hafi eitt sinn verið kennt við Sæmund Ólafsson (forstjóra kex-verksmiðjunnar). Seinna hóf hann að framleiða kremkex og það þótti fínna en matarkexið. Það lá því beinast við að kalla þessa nýju vöru Sæmund í sparifötunum.
Þórðargleði kemur fyrst fyrir í Ævisögu Árna prófasts. Þar segir frá manni sem var hoppandi kátur yfir uppskerubresti annarra.
Gefum Árna prófasti orðið: „Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir skadefrohed og skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa. En mikil fádæma hugarfarsspilling er nú þetta.“
Að lokum smá stærðfræði. Lausnarjafna 2. stigs margliðu gengur undir mörgum nöfnum, en algengast er þó að kenna hana við Jónas. Ég hef haft marga nemendur í gegnum tíðina og enginn þeirra hefur þekkt deili á þessum Jónasi. Hann hlaut þó að vera stærðfræðikennari. Svo mikið var víst.
Einn daginn tókst mér þó að ráða gátuna. Auðvitað! Nafn Jónasar er einfaldlega notað til þess að muna flóknasta hluta jöfnunnar:
J ó n a s = √ b2 4 a c.
Finnur fundinn
Ég var að verða gráhærður. Skriffinnur kemur inn í tungumálið árið 1871. Þetta orð var augljóslega ekki sletta. Og það var augljóslega tilvísun í eitthvað sniðugt og snjallt. En hvað?!
Ég fletti í gegnum timarit.is í hundraðasta skiptið. Skriffinnur: 3.814 niðurstöður; skriffinnska: 1.079 niðurstöður. Svarið hlaut að vera þarna einhvers staðar.
Rúmlega miðnætti rak ég augun í eftirfarandi setningu: „Skal skriffinnum blaða og skraffinnum útvarps vinsamlega bent á að taka sér ungu kynslóðina til fyrirmyndar um ábyrgðarfullan og umbúðalausan málflutning.“
Bíðum hæg ... Gat verið að skriffinnur ætti bróður?!
Ég rauk á fætur. Hvar er orðabókin? Hvar er orðabókin! Skraffinnur, skraffinnur, skraffinnur ... enginn skraffinnur? Jú, þarna var hann!
Skraffinnur: Masgefinn maður, málskrafsmaður. Ég fletti upp skriffinni til samanburðar. Skriffinnur: (niðrandi) Sá sem skrifar mikið, blekbullari.
Ég skreið aftur undir sængina og fann til værðar – ráðgátan var leyst! Skriffinnur var einfaldur snúningur á orðinu skraffinnur. Stórsnjallt.
En bíðum við ... Ég reis upp í rúminu og fann kvíðann dembast yfir mig. Hver var eiginlega þessi skraffinnur?!
Athugasemdir