Stuttu fyrir síðasta hrun fékk ég far með leigubílstjóra dauðans frá Austurbrú út á Kastrup-flugvöll í Kaupmannahöfn. Með í för var Auður konan mín sem sat aftur í ásamt íslenskri konu sem ég man ekki lengur hver var en hún var samferða okkur í flug til Íslands.
Sjálfur sat ég fram í ásamt leigubílstjóra dauðans. Við vorum hálfnuð út á völl þegar ég tók eftir því að maðurinn keyrði á ógnarhraða miðað við aðstæður.
Þegar ég bað hann vinsamlegast um að hægja á sér svaraði hann ekki beint heldur tautaði í barm sér að fólk væri almennt ókurteist, það byði ekki einu sinni góðan dag lengur, og nú væri hann búinn að fá nóg, þetta yrði hans hinsta ferð. Svo steig hann aðeins fastar á pinnann. Ég hafði varla virt þennan fölleita dökkhærða Dana viðlits þegar hann tók okkur upp í. Bara skutlað töskunum í skottið, hlammað mér í framsætið við hlið hans og gelt stutta skipun um „Lufthavnen“.
Nú var of seint að gera eitthvað í málunum, ég hafði augljóslega sært tilfinningar leigubílstjóra dauðans og við öll lent í sjálfsmorðsleiðangri á hundrað og fjörutíu kílómetra hraða á dönskum hraðvegi á Amager. Ég fann hvernig andardrátturinn varð hraðari og kaldur sviti spratt fram á ennið. Konurnar í aftursætinu kvörtuðu yfir aksturslaginu en virtust að öðru leyti blessunarlega ómeðvitaðar um andlegt ástand bílstjórans. Ég lét ekki á neinu bera og talaði rólega til hans; hjalaði eitthvað um að hann hefði alveg rétt fyrir sér um illsku mannkyns. Svo allt í einu renndi kagginn í hlað fyrir utan Terminal A. Auðvitað hefði ég átt að kæra manninn og forða öðrum farþegum frá því sama. En ég var kominn með bullandi Stokkhólmsheilkenni og stökk því glaðhlakkalegur út úr bílnum, affermdi og kvaddi eins og ekkert hefði í skorist. Eftir þessa reynslu hef ég alltaf lagt mig fram við að vera kursteis við leigubílstjóra, að minnsta kosti svona rétt á meðan ég er að átta mig á þeim.
„Skaðinn var skeður og eftir þetta hef ég aldrei getað litið íslenska leigubílstjóra réttum augum“
Þessi helför út í Kastrup rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar íslenskir leigubílstjórar gagnrýndu Facebook-síðu skutlara sem telur hátt í þrjátíu þúsund meðlimi. Nú er ég enginn sérfræðingur í þessum málum en geri ráð fyrir að skutlarabransinn vaxi jafn hratt og raun ber vitni vegna þess að íslenskir leigubílstjórar dansa ekki fullkomlega í takt við tæknielskan íslenskan almenning og að önnur viðskiptamódel gætu hentað strjálbýlinu á Íslandi betur, þá eitthvað í stíl við Uber eða Lyft.
Hvernig sem á því stendur hef ég yfirleitt meiri ánægju af því að taka leigubíl á öðrum stöðum en í Reykjavík. Landar mínir eru yfirleitt lengi að koma sér á staðinn og dýrari en víðast hvar annars staðar. Og þegar þeir loksins mæta þá eru þetta oft brúnaþungir þumbar. Ég man eftir einum sem tók mig í gíslingu fyrir nokkrum árum síðan. Þá var ég nýbakaður faðir og vann myrkranna á milli við að mála bíóskilti á vinnustofu sem ég rak í hrauninu uppi í Hafnarfirði. Einhverju sinni þurfti ég að panta bíl heim vegna þess að bíllinn sem ég var á hafði gefið sig. Skipti þá engum togum að bílstjórinn keyrði mig beint niður á lögreglustöðina við Hlemm og ætlaði að láta handtaka mig því lýsingin á mér passaði við síbrotamann sem var með sams konar málningarslettur á buxnaskálmunum. Löggan var ekki lengi að leiðrétta misskilninginn og bílstjórinn baðst innilega afsökunar. En skaðinn var skeður og eftir þetta hef ég aldrei getað litið íslenska leigubílstjóra réttum augum, enda aðeins örfá ár síðan að ég greip einn glóðvolgan sem ætlaði að tvírukka þegar við deildum nokkur saman bíl á leiðinni heim úr stórafmæli.
Í þessu samhengi er gaman að velta fyrir sér hvort það er munur á leigubílstjórum á milli landa og leyfa sér að alhæfa svolítið um þjóðir.
Leigubílstjórar á Spáni og Ítalíu eru til dæmis ekkert sérstaklega hátt skrifaðir hjá mér. Miðjarðarhafsbúarnir keyra yfirleitt allt of hratt og Ítalirnir sérstaklega slæmir með að vilja vera á Facebook við stýrið. Freki karlinn er áberandi á Spáni, stinkandi af hvítlauki og flautandi á allt sem fyrir verður, og einu sinni þurfti ég að grípa í leigubílstjóra í hitabylgju í Barcelona sem ætlaði að rjúka út úr bílnum á ljósum til að berja unglingsstrák á vespu.
Að taka leigubíl í New York er svo ævintýri út af fyrir sig. Ég var búinn að vera tvo daga á Manhattan þegar ég var farinn að rata miklu betur en bílstjórarnir, enda með Google maps í lófanum. Algeng setning var: „keyrðu bara áfram, ég skal segja þér hvenær þú átt að beygja“. Þetta voru menn úr öllum heimshlutum en nokkrir sem ég ræddi við voru uggandi um sinn hag, starfið væri ekki eins vel borgað og áður, enda samkeppnin miklu meiri og þá ekki bara frá Uber. Það var einhver blús í þeim sem minnti á leigubílstjóra í Reykjavík.
Vinninginn eiga svo leigubílstjórar Berlínarborgar. Löngu búnir að reka Uber úr landi og tæknivæddari en amerískar herflugvélar. Ef ég panta bíl í appi eða á vefsíðu í Berlín þarf ég sjaldnast að bíða lengur en þrjár til fimm mínútur. Bílstjórinn er oftast í góðu andlegu jafnvægi, oftar en ekki sæmilega viðræðuhæfur.
Oftast eru þetta ungir Tyrkir sem gantast við son minn en líka alls kyns karakterar úr öllum heimshornum; íranskir flóttamenn, fyrrverandi amerískir hermenn og einstæðar þýskar mæður á miðjum aldri. Flest á þetta fólk sammerkt að kunna sæmilega við sig í sínu starfi.
Sem segir mér að við verðum að reyna að halda starfsumhverfi leigubílstjóra í sem bestu ástandi þessi tíu ár sem eru eftir þangað til að sjálfkeyrandi leigubílar taka yfir, talandi við okkur á tíu tungumálum.
Athugasemdir