Ímyndum okkur mann með ríka sköpunargáfu og enn ríkari ástríðu fyrir því sem stendur hjarta hans næst. Ímyndum okkur að hann gefi út ljóðabók sem slær í gegn. Skyndilega er nafn hans á allra vörum og umsókn hans um ritlaun hlýtur náð fyrir augum úthlutunarnefndar. Hann heldur áfram að láta hjartað ráða för í skrifum sínum sem elur af sér barnabók og síðar meir vísindaskáldsögu, en hvorugt eru hestar sem markaðsöflin veðja venjulega á þegar spáð er fyrir um skjótfenginn gróða.*
Næsta viðfangsefni þessa manns í ritlistinni myndu margir eflaust álíta heiðarlega tilraun til félagslegs sjálfsmorðs, að minnsta kosti í andrúmsloftinu sem þá ríkti í tilteknum þjóðfélagshópi, en söguhetja okkar ákvað að nota vettvang sinn til að taka opinbera afstöðu með íslenskri náttúru. Hversu forneskjulúðalegt er að standa með stokkum og steinum á tímum „grænnar orku“ á alþjóðlegum samkeppnismarkaði? Hversu fífldjarfur þarf maður að vera til að skrifa heila bók sem syndir á móti gullbrydduðu, ríkisstyrktu powerpoint-showi um glæsta framtíð Íslands í stóriðju – og það í miðju góðæri? En viti menn! Þrátt fyrir vonlaust hagvaxtargildi eru unnendur fegurðar og tilfinningagildis íslenskrar náttúru nógu margir til að bókin góða slær í gegn, fangar athygli landsmanna, sankar að sér verðlaunum og selst í bílförmum.
Söguhetja okkar er skyndilega miðdepill íslenskrar þjóðfélagsumræðu. Hann gerir sér grein fyrir því að þetta er sjaldgæft tækifæri, jafnvel eitthvað sem gefst bara einu sinni á lífsleiðinni, að öll þjóðin leggi við hlustir á málefni sem hjarta hans slær í takt við. Upp sprettur fólk sem vill gera bókinni skil á öðrum (leik)sviðum, halda málþing, stofna hreyfingar og beiðnirnar um að hann heimsæki vinnustaði/málþing/félagasamtök/áhugahópa/elliheimili/ráðstefnur/skóla/kirkjur/saumaklúbba verða óteljandi. Í stað þess að raða orðum á blað í einrúmi er hann úti á meðal fólks að segja sömu orðin upphátt og fylgja eftir bylgjunni sem hann kom af stað – í margfaldri dagvinnu. Samhliða þessu vinnur hann að nýjum verkum og leggur öll spilin samviskusamlega á borðið í reglulegum framvinduskýrslum til úthlutunarnefndarinnar, sem ræður hvort hann fái laun sem samsvara 175 þús.kr í vasann mánaðarlega og kollegar hans kalla stundum „hungurlaunin“ í góðlátlegri kaldhæðni.
„Hversu fífldjarfur þarf maður að vera til að skrifa heila bók sem syndir á móti gullbrydduðu, ríkisstyrktu powerpoint-showi um glæsta framtíð Íslands í stóriðju – og það í miðju góðæri?“
Eldmóður hans, skarpskyggni og staðfesta er slík að hann verður mótandi afl í íslenskri þjóðfélagsumræðu og áður en langt um líður er hann orðinn sá karlmaður sem flestir aðspurðra vilja sjá á forsetastóli. Um sama leyti, hvort sem það ræðst af tilviljun eður ei, hefst fréttaflutningur sem virðist hafa þann tilgang að gera rithöfundinn tortryggilegan þrátt fyrir að hann hafi skilað yfirlitum um framvindu sína athugasemdalaust til úthlutunarnefndar sem skipti út öllum nefndarmönnum sínum á tímabilinu, og það oftar en einu sinni. Víðlesnasti fjölmiðill landsins tekur söguhetju okkar útfyrir sviga og þegar umræður skapast um fréttirnar á samfélagsmiðlum fá einstöku starfsmenn fjölmiðilsins leyfi til að beita honum af fullum þunga og skapa slagsíðu sem engum einstakling er fært að standa jafnfætis gagnvart, hvað þá heldur verja sig gegn.
Ímyndum okkur landið sem þetta gæti gerst – þar sem einstaklingur fær að tilefnislausu yfir sig heilan fjölmiðil með tilheyrandi hatursmönnum sem hafa líklega aldrei fyrirgefið skýlausa afstöðu hans með einhverjum helvítis þúfum og hrauni. Að ótöldum hvínandi kommentakerfiskverúlöntum sem hafa aldrei nokkurntíma þurft að skila framvinduskýrslu um eigin afköst, hvaðan af síður árlega. Það væri seint hægt að kalla þetta Draumalandið.
Og fyrst framvinduskýrslur eru til umræðu áttu fjölmiðlar landsins sögulegt stjörnuhrap í alþjóðlegri skýrslu um stöðu fjölmiðla og standa nú að baki Namibíu, Jamaíku og Eistlandi á heimslistanum. Um þá grafalvarlegu staðreynd fóru fjölmiðlar okkar fáum orðum – og megi hver og einn nú gera upp við sig hvert tortryggni okkar ætti raunverulega að beinast.
*Hlutverk opinberra styrkja er að styðja við sköpun afurða sem ólíklegt eða óljóst er hvort verði fjárhagslega sjálfbærar en hafa engu að síður samfélagslegt gildi, eins og barnamenning, ljóðlist, byggðasöfn, menningarstarf minnihlutahópa o.s.frv.
Athugasemdir