Ég er búinn að klóra mér í höfðinu í rúman sólarhring yfir ummælum Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa um flóttamenn sem flýja til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Alveg sama hversu mikið ég hugsa um ummælin næ ég bara ekki að skilja þau. „Í hvert skipti sem einhverjum er bjargað sem fer yfir Miðjarðarhafið þá hvetjum við aðra til að fara þessa leið,“ sagði hann í umræðum um þá tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur þann 1. september að hefja viðræður við ríkisvaldið um að taka á móti fleiri flóttamönnum.
Orð Kjartans ein og sér fela í sér þá brengluðu hugmynd að maður eigi að taka yfirvegaða og kalkúleraða ákvörðun um að bjarga ekki manneskjum í bráðri lífshættu af því það geti haft slæmar afleiðingar. Af tvennu illu þá eiga Evrópuþjóðir því að leyfa flóttamönnunum að drukkna til að koma í veg fyrir afleiðingarnar af því sem eru frekari flóttamannafjöldi. Það eru bara þessir tveir kostir í stöðunni þegar kemur að því að bjarga einhverjum í lífsháska: Annað hvort er ákveðið að bjarga honum eða ekki. Kjartan virðist með einhverjum furðulegum hætti vera að færa rök fyrir seinni kostinum.
„Í hvert skipti sem einhverjum er bjargað sem fer yfir Miðjarðarhafið þá hvetjum við aðra til að fara þessa leið,“
Ef virkilega er reynt að skilja og túlka hvað Kjartan á við þá er það líklega - sama hversu röng og einkennileg þessi staðhæfing hans er - að lönd í Evrópu eigi að reyna að hjálpa fólkinu í sínum heimalöndum eins og Sýrlandi áður en það ákveður að leggja upp í hættuförina yfir Miðjarðarhafið. Þannig verði unnið að því að koma í veg fyrir rót þeirra hörmunga sem eiga sér stað á Miðjarðarhafi.
Auðvitað þarf að reyna að gera það líka en það liggur ljóst fyrir að ekki er hægt að gera nægilega mikið til að stöðva för flóttamanna yfir Miðjarðarhafið með því að bæta aðstæður þeirra heima fyrir. Þess vegna þarf að gera bæði á sama tíma: Reyna að bæta aðstæður þess fólks sem ekki hefur lagt af stað í hættuferðina og bjarga þeim sem hægt er að bjarga sem lenda í erfiðleikum. Hvernig Kjartan kemst að því að hið fyrrnefnda útiloki möguleikann á hinu síðarnefnda, að það að hætta að bjarga mannslífum á Miðjarðarhafinu sé einhver lausn, skil ég bara ekki.
„Það er ábyrgðarhluti að hvetja fólk til að leggja í þetta ferðalag.“
Kjartan talar eins og að yfirvöld í þeim löndum sem hafa bjargað flóttamönnum frá drukknun séu á einhvern hátt sek af því þau geri það. Þannig má segja að Kjartan vilji kenna Evrópuríkjum sem bjarga mannslífum flóttafólks um andlát annars flóttafólks sem á eftir því kemur af það beri með sér þá von að verða hugsanlega bjargað ef eitthvað fer úrskeiðis á hafi úti. Þessi túlkun á orðum Kjartans á sér meðal annars stoð i þeim orðum hans að það sé „ábyrgðarhluti“ að ýta undir að flóttafólk fari yfir Miðjarðarhafið. „Það er ábyrgðarhluti að hvetja fólk til að leggja í þetta ferðalag. Það eru margir sem drukkna á leiðinni og margir verða fórnarlömb glæpasamtaka.“
Þessi hugsun Kjartans er hugsunarvilla í sjálfu sér. Hann hugsar „einni hugsun of mikið“ með því að gera ráð fyrir því að fólk eigi að taka kalkúleraða ákvörðun að bjarga ekki fólki í bráðri lífshættu jafnvel þó það geti hæglega gert það án stórkostlegra fórna. Hver spyr sig að því þar sem viðkomandi stendur við tjörn og sér að smábarn er að drukkna í henni hvort að hann eigi eða eigi ekki að bjarga barninu frá drukknun? Viðkomandi ber að gera það og víða um heim er sú siðferðisskylda bundin í lög í svokölluðum „miskunnarlausu Samverja-lagaákvæðum“ þar sem refsivert er að bjarga ekki fólki í lífsháska.
Sem betur hugsa þeir sem bjarga mannslífum á Miðjarðarhafinu ekki eins og Kjartan Magnússon; sem betur fer hugsar Kjartan Magnússon sennilega í raun og veru ekki svona sjálfur þó hann hafi klaufast til að segja þetta; sem betur fara hugsa sjálfsagt afar fáar manneskjur svona.
Hvað vill Kjartan Magnússon í staðinn? Að Evrópulönd hætti tímabundið að bjarga mannslífum flóttamanna á Miðjarðarhafinu á meðan þau einbeita sér að því í staðinn að reyna að bæta stöðu fólks í þeirra heimalöndum? Að mannslífum fólks sé ekki bjargað yfirleitt vegna þess að það hafi slæmar afleiðingar? Getur verið að Kjartan hafi verið að meina þetta? Ég veit það ekki en þetta felst í því sem hann sagði.
Athugasemdir