„Kvenfyrirlitning, niðurlæging, hlutgerving, karlar með völdin – konur ekki, karlar gera og konur þjóna.“ Þetta eru svör framhaldsskólanemenda við spurningunni: Hvað er í kláminu? Það vita allir hvað þar er að finna, ef ekki af því að þau horfa á það, þá vegna þess að klámvæðingin skilur engan eftir ósnertann. Flestir ef ekki allir verða fyrir áhrifum af þeim skilaboðum sem úr kláminu koma, með einum eða öðrum hætti.
Af hverju er það viðtekin veruleiki að iðnaður sem veltir verulegum fjárhæðum, þar sem konur eru kerfisbundið niðurlægðar og beittar ofbeldi, er viðurkenndur? Í þeim eina tilgangi að búa til efni til kynferðislegrar örvunar – markaðsett og að mestu notað af karlmönnum. Þarf efnið að innihalda niðurlægingu og ofbeldi til þess að vera örvandi eða eru önnur öfl að verki? Ef okkur er umhugað um neytendur, er ekki einkennilegt að útskúfa konum? Hvar er kynferðislega örvandi efni fyrir konur að finna? Þetta eru spurningar sem nemendum kynjafræði er umhugað um.
Af hverju er það viðtekin veruleiki að iðnaður sem veltir verulegum fjárhæðum, þar sem konur eru kerfisbundið niðurlægðar og beittar ofbeldi, er viðurkenndur?
Er kvenfyrirlitningin í kláminu ein birtingarmynd þess að við höfum ekki hrist af okkur rótgrónar hugmyndir „feðraveldisins“, því þar birtist svo skýrt kúgun karla á konum? Er klámið ein harðasta viðleitnin í að viðhalda völdum karla?
Valdaleysi er alið upp í stúlkum, þeim er ýtt í þjónustuhlutverk – sem eru svo kynlífsvædd í klámmenningunni. Konur og stúlkur eru skilgreindar eftir kynþokka frekar en nokkru öðru. Mörk þeirra eru ekki virt og suð karla eftir kynlífi með konum er alþekkt fyrirbæri og viðurkennt. Besta ráðið fyrir stúlku að koma sér undan viðreynslu á djamminu er að segja að hún sé á föstu. Stúlkur átta sig oft ekki á því að þær hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi fyrr en þær eiga gagnrýnið samtal í öruggu rými um eðli ofbeldis, misréttis og valdatengsla. Útlitsdýrkun og kynþokkavæðing dynur á stúlkum og pressan um að standa undir kröfum um tiltekið útlit er oft á tíðum ómanneskjuleg.
„Við vitum þetta, það er búið að segja okkur þetta oft. Við erum bara hættir að sjá þetta.“ Þannig eru viðbrögð nokkurra framhaldsskólastráka við fyrirlestri um klámvæðinguna. Ungmenni, og jafnvel við öll, erum orðin samdauna klámvæddri menningu, sem er orðin rótgróin í vitund okkar og hefur áhrif á skoðanir, hegðun, tilfinningar og sjálfsvitund okkar. Oftar en ekki gagnýnislaust.
Ungmenni eru ofurseld og varnarlaus gagnvart skaðlegri menningu sem umvefur þau. Rökræða, samræða, greining og þjálfun í gagnrýnni hugsun er lykillinn að því að uppræta innrætinguna. Kynja- og jafnréttisfræðsla er lögbundin á öllum skólastigum, en óvíða virt. Börn og ungmenni eiga rétt á að fá viðspyrnu við skaðlegri klámmenningu, og skólakerfið gegnir þar lykilhlutverki, með vandaðri, gagnrýnni og femínískri jafnréttisfræðslu og aðferðum samræðu, öryggis og valdeflingar.
Opin umræða um klám er það sem kynjafræðikennarar og aðrir femínistar hafa verið að kalla eftir með því meðal annars að þrýsta á um að kynja- og jafnréttisfræðsla verði stórefld í skólakerfinu.
Athugasemdir