Í umræðunni um listamannalaun hefur stærsti fjölmiðill landsins enga tilraun gert til þess að greina ástæður og áhrif á hlutlausan hátt – til dæmis með því að beina einnig ljósinu að hinum fjölmörgu jákvæðu áhrifum, afleiddum störfum eða gríðarlegri veltu fjármagns sem listamannalaun eru grunnurinn að. Í staðinn hefur kastljósinu einungis verið beint að botnlausri þvælu, þar sem meðal annars var ráðist í algjörlega ómarktæka rannsókn á útkomu launanna – að telja bækur!
Ef ætlunin væri að rannsaka jákvæð áhrif þess að borða mat með því að telja eingöngu hversu oft við færum á klósettið, en hunsa algjörlega allt annað sem líkaminn gerði, þá væri það líklega talin frekar óvísindaleg rannsókn með mjög takmarkaðri niðurstöðu.
Það að fúskarar hafi tækifæri til þess að móta opinbera umræðu með óheftum aðgangi að útbreiddasta áróðurspésa landsins, sem þeir nota óspart til að draga fram alla sína einföldustu skoðanabræður og hampa þeim, sýnir glöggt hversu illa er fyrir vitrænni umræðu komið. Heildstæðar rökræður sem leiða til yfirvegaðrar niðurstöðu virðast vera ómögulegar. Við erum öll virkir og óvirkir þátttakendur í öskurkeppni, ár eftir ár.
Með greiðu aðgengi að þessari fjölmiðlafroðuvél hefur annars ágætu fólki tekist að vekja athygli hættulegustu manneskju landsins, Vigdísi Hauksdóttur, á málaflokknum. Sem fyrr er hún nösk á að þefa uppi illa ígrundaðar og popúlískar skoðanir, sem hún tekur óþvegnar upp og klæðir sig í, rétt áður en hún ræðst með blóðugan niðurskurðarhnífinn á verkefni sem hún telur að muni auka persónulegt fylgi sitt og fasískra flokksfélaga sinna.
Ég hef haft mjög gott af því að hafa mjög rangt fyrir mér í gegnum tíðina. Það getur vel verið að skoðun mín á listamannalaunum, sem og öðru, haldi ekki vatni. Ef svo er mun ég hins vegar seint söðla um ef þeir sem eru á öndverðum meiði halda rakalausum málflutningi óbreyttum áfram. Við eigum betri rökræðu skilið. Látum ekki fúskarana ræna okkur listum og menningu líka. Það er auðvaldið og varðhundar þess sem eru að mergsjúga þjóðina, ekki listamennirnir sem gagnrýna það.
Athugasemdir