Þegar ég var krakki bauð ég vinum mínum sem bjuggu lengst upp í Breiðholti að gista heima hjá okkur mömmu í miðbæ Reykjavíkur. Mamma lagði til dúnsængur á stóðið og eldaði ofan í okkur spagettí sem við átum upp úr stórum potti. Á eftir lokuðum við okkur inni í unglingaherbergi meðan gamla settið lokaði sig af með sígó og sjúss inni í eldhúsi. Hvor hópurinn fyrir sig dauðfeginn að vera laus við hinn. Á þessum árum var kynslóðabilið ennþá til í alvöru. Við yrtum helst aldrei á foreldrana af fyrra bragði og helst ekki á eldri systkini því þau voru prog-rokk hippar, vælandi eitthvað um Laxness og Fylkinguna meðan við vorum háheilagir pönkarar með Killing Joke-kassettur í vasanum.
Þetta kvöld höfðum við viðað að okkur áfengi með því að plata fullorðið fólk til að kaupa það fyrir okkur í Ríkinu. Þömbuðum Martini Dry, Valpolicella og Liebfraumilch af stút áður en við drösluðumst niður í bæ. Á þessum árum leit Reykjavík út eins og úthverfi í Austur-Berlín og Hallærisplanið var hjarta þess. Um hverja helgi dröttuðust þúsundir unglinga hringinn eftir Austurstræti, Pósthússtræti, Kirkjustræti og Aðalstræti. Krakkar í skærlitum púffúlpum sem létu þá líta út eins og Michelin-manninn í bland við einstaka pönkara og róna sem hafði verið hent út af Borginni.
Ég er ennþá með mynd pikkfasta í hausnum af félaga mínum þar sem hann ráfar um Ingólfstorg undir morgun að bjóða krökkum spagettítægjur sem hann hafði dregið upp úr ælupollum sem annar félagi okkar hafði gubbað upp úr sér. Spagettíið hennar mömmu var endurnýtt til hins ýtrasta.
Seinna fórum við að fikta við dóp. Framboðið var sem betur fer minna en í dag, mesta kikkið fólst í því að gera eitthvað sem var bannað og hlusta á „Waiting for the man“ með Velvet Underground meðan við biðum eftir okkar manni. Einu sinni beið ég í heilan dag eftir Sigga sýru á Mokka. Og mörg okkar vomuðum eftir Hödda feita á Lækjartorgi. Þegar Höddi feiti kom loks með vörurnar vorum við orðin svo gráðug að hann komst oft upp með að selja skósvertu, henna eða tímían fyrir hass.
Ég hef stundum velt fyrir mér hvort ég hefði farið verr út úr þessu fikti unglingsáranna ef framboðið hefði verið meira þegar ég var fjórtán eða fimmtán ára og veikastur fyrir. Kynslóðin á eftir fékk E-pillur, kynslóðin þar á eftir hreinræktað maríjúana beint frá býli.
Og nú er komið að því að sjá hvernig börnunum mínum reiðir af. Dóttir mín löngu kominn fyrir horn og orðin hálfþrítug meðan sonurinn er gott efni í vandræðaungling fimm ára gamall, álíka inspíreraður af Elvis eins og Megas var á sínum tíma.
„Eru pólitíkusarnir að vonast eftir því að börnin svissi aftur úr rítalíni og benzodiazepine yfir í Valpolicella og Martini Dry æsku minnar?“
Ég var svosem ekkert alvarlega að pæla í þessu fyrr en ég rakst á flotta fyrirsögn í Independent frá því núna í janúar: „Ísland veit hvernig á að stöðva vímuefnaneyslu unglinga en restin af heiminum er ekki að hlusta.“ Þarna var vitnað í glænýjar kannanir og rætt við herra Milkman (hljómar óneitanlega eins og nafn á dópsala) sem lýsti því hvernig íslenskir unglingar væru orðnir mesta bindindisfólk sem sögur fara af. Hlutfall fimmtán og sextán ára barna sem höfðu verið drukkin mánuðinn áður en þau tóku þátt í könnun hafði fallið úr 42 prósentum niður í 5 prósent á tæpum tuttugu árum, að sögn Milkman. Aðeins sjö prósent sögðust hafa prófað kannabis á móti 17 prósentum áður fyrr. Dagreykingamenn tóbaks á þessum aldri voru 3 prósent á móti 23 prósentum á árum áður. Ísland er eitt af fáum löndum Evrópu þar sem vímuefnaneysla ungmenna hefur farið minnkandi undanfarna áratugi á meðan hún eykst víðast hvar annars staðar.
Öðruvísi mér áður brá. Þessum árangri hafði verið náð með styrktum tengslum á milli foreldra og barna og svo hefur börnum verið bannað að vera úti ein eftir tíu á kvöldin, sagði Milkman.
Þetta leit svo sannarlega vel út. Á Íslandi voru unglingar á hlaupum milli íþróttaæfinga og sundlaugarbakka og enginn krakki sást lengur borða spagettí upp úr ælupollum undir morgun. Vímuefnalaus eyja á hjara veraldar virtist vera paradís til að ala upp unga manneskju.
En auðvitað þurfti ég, miðaldra meinhornið, að tortryggja þessa glansmynd. Ég var ekki lengi að gúgla upp skýrslu frá evrópsku vímuvarnarstofnuninni sem kom út síðasta haust. Stofnunin hafði gert könnun sem sýndi fram á að 14,5% íslenskra drengja og 12,7% íslenskra stúlkna höfðu reykt kannabis á síðustu tólf mánuðum. Þessar tölur stemmdu engan veginn við umfjöllun Independent. Hvað var í gangi? Ég gúglaði áfram og dró næst upp hryllingsfrétt úr Fréttatímanum frá því í nýliðnum janúar.
Þar stóð að íslenskar stúlkur á aldrinum 15 til 24 ára tækju ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra í Danmörku. Sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára væri hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi.
Þegar ég ræddi þessar misvísandi upplýsingar við íslenskan blaðamann þá benti hann mér á að drykkja og tóbaksneysla íslenskra unglinga hefði vissulega dregist saman en á sama tíma væru íslenskir unglingar og börn að graðga í sig þunglyndislyfjum, svefnlyfjum og lyfjum við ADHD – um 13% íslenskra drengja eru á örvandi lyfjum sem eiga að vinna gegn athyglisbresti.
Læknar dældu viðstöðulaust út lyfseðlum því það væri búið að sjúkdómsvæða tilfinningar barna okkar. Aumingjaskapur, viðkvæmni, skap, jafnvel karakter – allt þetta væri búið að skilgreina sem veikindi. Þeir sem þyrftu á aðstoð að halda fengju hana ekki, nema í pilluformi.
Auðvitað þurfa margir nauðsynlega á lyfjum að halda, en fyrr má nú rota en dauðrota. Og ef þetta er allt satt; ef við erum í tómu rugli eftir allt saman, þá er kannski spurning hver sé nákvæmlega tilgangurinn með því að auðvelda daglegt aðgengi að áfengi. Eru pólitíkusarnir að vonast eftir því að börnin svissi aftur úr rítalíni og benzodiazepine yfir í Valpolicella og Martini Dry æsku minnar?
Á meðan við pælum aðeins í þessu stendur gulhærður heilbrigðisráðherrann úti á miðju gólfi og klórar sér í hausnum með helvítis uppþvottahanskanum.
Athugasemdir