Lífskjör á Íslandi, mæld með kaupmætti landsframleiðslu á mann, hafa verið svipuð og á hinum Norðurlöndunum undanfarna áratugi. Eina undantekningin er Noregur sem hefur haft talsvert forskot á hin Norðurlöndin á þennan mælikvarða síðan áhrifa olíuauðsins tók að gæta.
Þetta segir þó ekki alla söguna því að Íslendingar þurfa að vinna talsvert meira fyrir sinni landsframleiðslu. Atvinnuþátttaka er meiri hérlendis og bæði starfsævin og vinnuvikan lengri. Verg landsframleiðsla á vinnustund er t.d. um þriðjungi meiri í Danmörku en hérlendis. Það hefur vitaskuld áhrif á kaupmátt tímakaups sem er að sama skapi almennt lægri hérlendis. Með öðrum orðum, við öflum svipaðra tekna og Danir en það þurfa fleiri að vinna hérlendis og hver og einn lengur. Samanburður við evrusvæðið gefur svipaða niðurstöðu, kaupmáttur landsframleiðslu á vinnustund er nú um 17 prósent hærri þar að jafnaði en á Íslandi.
Þessar tölur endurspegla það að framleiðni á vinnustund er lægri hérlendis. Meðal Dani býr til meiri verðmæti á klukkustund en meðal Íslendingur. Þetta gerist þrátt fyrir að Íslendingar búi að og nýti umtalsvert meiri náttúruauðlindir en Danir, miðað við höfðatölu.
Akkilesarhæll íslenska hagkerfisins er fyrst og fremst ýmsar greinar sem búa til vörur og þjónustu fyrir innanlandsmarkað. Þar er samkeppni yfirleitt takmörkuð og ekki tekst að ná eðlilegri stærðarhagkvæmni, sem frekar er hægt á stærri mörkuðum. Flutningskostnaður skiptir líka máli.
„Vegna þess hve innlend verslun er óhagkvæm, býður takmarkað úrval á háu verði, finnst Íslendingum þeir geta gert mun betri kaup á ferðum sínum í útlöndum.“
Ein birtingarmynd þessa er verslunarferðir Íslendinga til útlanda. Vegna þess hve innlend verslun er óhagkvæm, býður takmarkað úrval á háu verði, finnst Íslendingum þeir geta gert mun betri kaup á ferðum sínum í útlöndum. Þetta er þó ekki algilt. Sumar vörur og sum þjónusta eru ódýrari hérlendis en á hinum Norðurlöndunum, jafnvel svo að miklu munar, til dæmis rafmagn og húshitun.
Það sakar ekki að hafa í huga að þegar Íslendingar bera sig saman við hin Norðurlöndin erum við að horfa til þeirra landa sem bjóða íbúum sínum ein allra bestu lífskjör í heimi. Lífskjör Íslendinga eru miklu betri en flestra annarra jarðarbúa og auðvitað líka mun betri en fyrri kynslóðir Íslendinga bjuggu við. Það er því lítil ástæða fyrir nútíma Íslendinga að kvarta.
Samanburðurinn er þó gagnlegur að einu leyti. Hin Norðurlöndin geta verið ágætar fyrirmyndir fyrir Ísland. Ef við viljum bæta lífskjör á Íslandi þá er eðlilegt að horfa til þess sem þær gera sérstaklega vel og reyna að leika sama leik hérlendis.
Pistill Gylfa Magnússonar er innlegg í umfjöllun um flóttann frá Íslandi sem birtist í septemberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir