Í jólafríinu á Íslandi tók ég eftir því að Reykjavík hefur minnkað talsvert. Því er stundum haldið fram að ferðamönnum hafi fjölgað en það er auðvitað algjör vitleysa því heiti potturinn í Vesturbæjarlauginni hefur minnkað um að minnsta kosti þriðjung, Lækjargata hefur styst um helming, Tjörnin í Kvosinni er orðin á stærð við meðal körfuboltavöll og svo framvegis. Allt minnkar og enginn virðist kippa sér upp við það. Á Þorláksmessu vafraði múgurinn niður Laugaveg að kaupa jólagjafir þótt gatan væri nánast ófær, því þessi aðalverslunargata landsmanna hafði styst um helming og var ekki breiðari en svo að þegar ég baðaði út handleggjum gat ég snert húsin báðum megin við hana með fingurgómunum.
Eftir jól fór ég á frumsýningu í leikhúsi sem hafði líka minnkað mjög mikið og því stutt á milli sætisraðanna. Ég sá einhverja leikgerð af frægu íslensku skáldverki. Það var varla í frásögur færandi nema að því leyti að ég tók eftir því að leikhópurinn var nokkuð einsleitur. Þetta var voða mikið hvítt fólk um þrítugt. Og nú kunna menn að halda að Tótinn sé algjörlega farinn yfir um í múltíkúltíinu en trúið mér. Á Íslandi er þetta alveg sérstaklega áberandi. Sagan segir að hér á árum áður hafi leikhússtjóri nokkur haft fyrir sið að ráða til sín leikara og leikkonur sem svipuðu að einhverju leyti til hans sjálfs og konu hans í útliti og þess vegna lítur íslensk leikarastétt að miklu leyti út eins og klónuð börn Hitlers í sci-fi-mynd.
Miðpunkturinn í þessari sýningu var Jón Jónsson, reffilegur hvítur náungi á miðjum aldri, dökkhærður, einn og áttatíu á hæð. Erkitýpan af íslenska menningarflytjandanum. Jón Jónsson er hreint frábær leikari. Þessi pistill snýst ekki um leiklist, Jón Viðar er ekki hér. En Jón Jónsson var líka í áramótaskaupinu. Jón Jónsson var líka í nýrri sjónsvarpsþáttaröð á RUV. Jón Jónsson var í einhverri gosdrykkjaauglýsingu. Jón Jónsson er mikið tekinn. Það var svo þegar ég rakst á Jón Jónsson í sundi – á þessum tímapunkti var ég farinn að tala um „helvítið hann þarna Jón Jónsson“ – að ég fékk innilokunarkennd. Annaðhvort var ég orðinn geðveikur eða þessi borg að minnka of hratt. Þetta lagaðist þó aðeins þegar ég slysaðist í leikhús að sjá Njálu, þá sprakk heimurinn aftur út eins og brjálað blóm fyrir mér – en það er önnur saga og alveg óþægilega jákvæð.
Við þekkjumst öll og heilsumst. Að minnsta kosti við latte-liðið í 101-elítunni. Því svona er það. Fimm eða sex ár í menningarflórunni, segjum ein eða tvær tilnefningar til einhverra verðlauna og þú ert dæmdur til að heilsa ÖLLUM sem einhvern tímann hafa drepið niður penna, skvett lituðu vatni á striga eða glamrað á ukulele uppi á sviði. You are in the army now, hluti af fjölskyldu. Og vei þér ef þú stígur á tærnar á einhverjum því þá færðu það í bakið fyrr eða síðar.
Útlendingum finnst svolítið skrítið þegar ég segi þeim að ég hafi setið í anddyri banka á Hagatorgi síðasta vor og spjallað þar við sagnfræðing með reiðhjólahjálm en um sumarið hafi sami maður allt í einu orðið forseti.
Og nú er einn gamall kunningi minn orðinn ráðherra.
Fyrir tæpum þrjátíu árum síðan vaknaði ég eftir kenderí ásamt Óttari Proppé í hreysi sem ég leigði við hliðina á Alþingishúsinu. Á þessum gráa sunnudagsmorgni held ég að hvorugum okkar hafi dottið í hug að þessi fínlegi ungi maður yrði einhvern tímann ráðherra í lýðveldinu Íslandi en kannski hefur undirmeðvitundin átt hlut að máli þegar Óttarr baðst gistingar svona nálægt Alþingishúsinu. Ég man ekki mikið frá þessum morgunfundi okkar en kannski hef ég rétt honum kaffibolla, skjálfandi af þynnku og tautað: „Vaknaður?“
Mörgum árum síðar fór ég svo á þorrablót upp á Skaga með Óttari Proppé í nokkur skipti. Þessi þorrablót höfðu einkennst af miklu fylleríi á árum áður sem höfðu náð hámarki í svokallaðri graðgöngu. Graðgangan gekk þannig fyrir sig að maður stillti sér upp á gólfinu og annar kom aftan að honum. Sá tók með vinstri hendinni um magann á honum og greip með hægri hendinni um punginn á honum. Síðan kom sá þriðji og tók utan um mittið á þeim númer tvö – og þannig koll af kolli, þangað til strollan var orðin eins löng og hún gat orðið; þá fór hún af stað og maður númer tvö kreisti punginn á manni númer eitt, þeim fremsta, og svo var bara marsérað áfram þar til maður númer eitt þoldi ekki meira og æpti upp yfir sig af sársauka – sem sagt: gaf frá sér graðgönguhljóð.
En þegar árin færðust yfir hættu flestir í þessum tiltekna vinahóp að drekka áfengi eða stilltu því mjög í hóf. Því varð sífellt erfiðara að klára blótin með graðgöngu því edrú maður þolir afar illa að gripið sé fast um punginn aftanfrá, það er svo ofsalega vont. Þannig að þessi blót í annars prýðilegum félagsskap fóru að verða mjög undarleg; menn að humma fram af sér gönguna, víkja sér undan, jafnvel láta sig hverfa snemma úr partíinu.
Og þá er spurning hvernig Óttari vini mínum vegnar í næsta partíi. Graðganga hans með Benedikt Búálfi og Teflón Bjarna gæti orðið æði sársaukafull þegar líður á kjörtímabilið. Ég ætla þó að leyfa Óttari Proppé að njóta vafans sem allra lengst.
PS. Bragi Ólafsson lýsir graðgöngum prentnema í skáldsögunni Samkvæmisleikjum og ég styðst hér við þá frásögn að miklu leyti með leyfi höfundar.
Athugasemdir