Rétt eins og margir aðrir horfði ég á fréttir gærkvöldsins með hrylling og sorg í huga. París mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu enda bjó ég þar í rétt yfir þrjú ár sem barn. Það grípur fólk gjarnan mikill æsingur þegar hryðjuverkaárásir eiga sér stað og það á sérstaklega við þegar það gerist svona nálægt okkur á Íslandi. Íslendingar hafa sem betur fer ekki þurft að upplifa hvernig það er að búa í samfélagi þar sem hryðjuverkamenn ógna öryggi saklausra borgara.
Þegar ég var nýfluttur til Frakklands árið 1995 var hryðjuverkaalda nýbúin að fara yfir París. Hryðjuverkahópurinn GIA (Groupe Islamique Armé) var búin að koma fyrir sprengjum í neðanjarðarlestum og ruslatunnum víða um París. Mikill ótti greip um sig meðal Parísarbúa. Þettavar augljóslega furðulegt umhverfi fyrir 8 ára dreng. Allar ruslatunnur á almannafæri voru lokaðar og ruslið staflaðist upp í kringum þær. Herlögreglumenn með vélbyssur sáust út um allar götur sem vakti áhuga minn því ég hafði aldrei séð byssur sem ekki voru í sjónvarpi, hvað þá í höndum lögreglumanna. Ég man ennþá mjög greinilega eftir óttanum sem greip mig þegar ég fór í neðanjarðarlest í fyrsta skipti eftir þessar sprengjuárásir. Ég grátbað foreldra mína um að fara ekki með mig þangað niður, mig langaði ekki að deyja. Þeim tókst þó að róa mig og sannfæra mig um að ég þyrfti ekki að vera hræddur.
Ég nefndi þessa sögu í grein sem ég birti eftir Charlie Hebdo árásirnar og minnist á hana aftur hér. Ég geri það vegna þess að ég hef tekið eftir því að það eru ekki allir Íslendingar nógu meðvitaðir um sögu hryðjuverka og ástandsins í kringum þau í Frakklandi. Vera hermanna og herlögreglumanna á fjölförnum stöðum um París átti að verða tímabundin ráðstöfun til að glíma við óvenjulegar aðstæður. Þetta er hins vegar orðinn eðlilegur raunveruleiki fyrir Parísarbúa í dag.
„Í kjölfar þessara árása hafa sumir brugðist eins vel og hægt er að gera við svona hryllilegar aðstæður, á meðan aðrir láta óttann grípa sig svo gjörsamlega að rökhugsunin gleymist.“
Í kjölfar þessara árása hafa sumir brugðist eins vel og hægt er að gera við svona hryllilegar aðstæður, á meðan aðrir láta óttann grípa sig svo gjörsamlega að rökhugsunin gleymist. Það er svo sem alveg skiljanlegt enda kom það fyrir mig sem barn í París. Verst er þó þegar lögreglan sjálf tekur þátt í að dreifa þessum ótta. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna hélt því fram á Facbook síðu sinni í nótt að ástæðurnar á bakvið árásirnar væru Schengen samstarfið og „ömurlegar staðreyndir niðurfellinga landamæraeftirlits Evrópuríkja, eftirgjafar á öryggi almennra borgara, niðurskurðar til löggæslumála, skertra forvirkra rannsóknarheimilda lögreglu og almennrar linkindar og umburðarlyndis Evrópu allrar gagnvart innrás ósamrýmanlegra sjónarmiða vestrænna gilda lýð- og frjálsræðis!!“
Ástæður fyrir hryðjuverkum eru mjög flóknar og verða ekki útskýrðar með að benda á stakar ástæður á borð við Schengen, skort á forvirkum rannsónarheimildum eða flóttamenn. Jafnvel þær þjóðir sem eru með einna harðasta landamæraeftirlitið lenda í hryðjuverkaárásum. Frakkland samþykkti frumvarp í kjölfar Charlie Hebdo árásanna sem heimilaði meðal annars víðtækar forvirkar rannsóknarheimildir. Það var samt ekki nóg til að koma í veg fyrir árásirnar í gær.
„Það eru öfgahópar kristinna manna sem eru að ná völdum víða um Evrópu, ekki öfgahópar múslima.“
Flóttamannastreymið frá Sýrlandi undanfarið samanstendur einmitt af fólki sem hefur flúið aðstæður sem eru tiltölulega sambærilegar því sem átti sér stað í París í gær. Munurinn er sá að í Sýrlandi eru þessar aðstæður daglegt brauð. Enn og aftur þarf að minnast á að það dugar ekki að setja alla múslima undir sama hatt, hvað þá hér á Íslandi þar sem öfgafullir kristnir menn og kynþáttahatarar eru mun fleiri en íslenskirmúslimar samtals. Það eru öfgahópar kristinna manna sem eru að ná völdum víða um Evrópu, ekki öfgahópar múslima.
Það er mikilvægt að við fordæmum hryðjuverk og gerum allt sem lög heimila okkur til að sækja hryðjuverkamenn til saka, en gleymum ekki gildum okkar í leiðinni. Ef eitthvað er þá ættum við að taka okkur Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsetisráherra Noregs, til fyrirmyndar í þessum efnum. Bregðumst við hryðjuverkum með því að standa ennþá fastar á bakvið lýðræðislegu gildin okkar. Stöndum fastar á bak við tjáningarfrelsi og öll þau réttindi sem okkur þykir vænt um í okkar lýðræði. Stöndum á bakvið kjörorð Frakka; liberté, égalité, fraternité.
Athugasemdir