Í liðinni viku, að loknu formannskjöri í Samfylkingunni, mátti vart opna Fésbók öðruvísi en að sjá vini, samherja og kunningja komna í hár saman. Útaf einu atkvæði. Hann var svo hræðilegur og hún var svo hræðileg. Hvað var hún að vilja, hvað er hann að gera? Og von bráðar voru vinir okkar í VG líka komnir með í leik, alltaf þyrstir í innanhússerjur. Að venju þróaðist það svo út í deilur um Jón Bjarnason og allir fóru að geispa.
En á meðan hélt Borgunarstjórnin áfram að raða á garðann.
Við vorum vakin upp af vondum draug sem við héldum að hefði niðurkveðist með Alþýðubandalaginu. Þess vegna var svo sárt að sá þessi illindi og þessar deilur, hnútukast á milli flokkssystkina. Það er fátt verra en að sjá vinstrimenn kljúfa sig í herðar niður og síðan áfram niður í klof og kjúkur þar til aðeins hjörleifarnar eru eftir. Hvað er að okkur? Af hverju látum við svona? Þrátt fyrir að sagan sýni að eina leiðin til árangurs sé að standa sameinuð (sjá sögu R-listans) erum við rokin upp með hvelli útaf minnstu málum, útaf einu atkvæði.
Samfylkingin var tilraun til sameiningar sem mistókst á fyrsta degi þegar Steingrímur stakk af með sinn pólitíska frama og stofnaði um hann sinn eigin flokk. Samkvæmt nýjustu tölum eru „vinstrimenn“ nú í fjórum flokkum, við erum svo sundruð að við eigum okkar eigin fjórflokk. (Fyrir utan öll húsfélagsframboðin sem spretta upp fyrir hverjar kosningar og sjá um að drepa fyrir okkur heil 7% af atkvæðum í hvert sinn). Gummi Steingríms þurfti líka sinn flokk, undir sinn frama, eftir að hafa prófað tvo aðra, og svo þurfa óflokksbundnir vinstrimenn líka alltaf sinn eigin flokk, eitt sinn var það Besti, nú Píratar. Hver maður þarf nefnilega sinn eigin flokk. „Við skulum taka aftur flokkinn okkar,“ sagði stuðningsmaður Sigríðar Ingibjargar á Facebook kvöldið fyrir landsfund. Daginn eftir virtist eitt skitið atkvæði ætla að geta af sér tvo flokka. (Samfylking getur þó hrósað happi að Sigga hafi ekki unnið með einu atkvæði, þá fyrst hefði allt farið í loft upp.)
Við erum svo lúxuslegin og privilígeruð að við viljum helst geta átt „okkar flokk“ og „okkar formann“, átt „aðgang að honum“, hitt hann í boðum, helst geymt hann í eldhúskróknum og gefið honum kaffi. Ísland er nefnilega þannig land að stundum er þetta hægt, en þegar þetta er ekki hægt, þegar við náum aldrei símtalinu við formanninn til að geta gortað á kaffistofunni „ég heyrði í honum í morgun“, á meðan hann er bara (eins og tíðkast erlendis) pólitísk fígúra í pontu, þá finnst okkur einhver annar hafa tekið flokkinn frá okkur. Er ekki kominn tími til að hætta þessu rugli?
Líklegast er þetta djúpt í þjóðareðlinu. Í hversdagslífinu þurfa Íslendingar aldrei að standa saman, nema í fiskbúðinni á mánudögum og í bankanum eftir mánaðarmót. Aðrar þjóðir eyða heilu dögunum í að standa saman á lestarpöllum, í jarðlestarvögnum, á tónleikum og íþróttavöllum, en hér ekur hver maður og hver kona um sinn mikla dag í sínum einkabíl, með flokkinn sinn í farþegasætinu. Þess vegna vill hver maður eiga sinn eigin flokk.
Það er helst að íslenskir hægrimenn kunni þá list að þegja saman og kyngja erfiðum hlutum, sýna flokkshollustu og umbera leiðtogann. (Berum saman viðbrögð Sjálfstæðisflokks við framboði Hönnu Birnu gegn Bjarna Ben og viðbrögðin við formannskosningunum í Samfylkingunni). En hægrisamstaðan er auðvitað ekki komin til af hugsjón heldur hagsmunum. Hægrimenn rekast vel í flokki vegna peningalegra hagsmuna. Þeir vita sem er að það borgar sig, strax á morgun. Buddan er besti agastjórinn. Vinstrafólk sér hinsvegar enga peningalega hagsmuni af samstöðu og sýndum félagsþroska (jafnvel þótt öllum ætti að vera ljóst að betra samfélag næst fram með valdasetu vinstrafólks) og kýs fremur að eiga sinn persónulega flokk með formanni sem það „þekkir“, og stofna bara nýjan ef þarf. Hægrimenn hanga líka lengur á sínum hjónaböndum, kúra lengur inní skápnum og kunna að útvista kynlífsþörf sinni til fátækari landa. Vinstrafólkið kýs hinsvegar að hafa það allt uppá borðum, og virðist í eðli sínu mun meiri dramadrottningar. Ef okkur tekst ekki að kljúfa okkar eigin fjölskyldur þá má alltaf kljúfa flokkinn. Og kjamsa svo á illindunum sem af því verða í löngum gómsætum símtölum. Saga okkar er sjúk hvað þetta varðar.
Og þannig höldum við áfram að gleðja Hádegismóra og hans fólk, kvótaeigendur, ferðaforkólfa og Þröngsýnarmenn.
Saga vinstrisameiningar er líklega átakanlegust í dæmi Hjörleifs Guttormssonar. Átrúnaðargoð æsku minnar, maðurinn sem bauð álrisanum Alú-Sviss byrginn, nánast upp á sitt einsdæmi, tjáir sig nú ekki öðruvísi en af margvelktum koddanum í rúmi Davíðs Oddssonar. Þessi fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalags taldi sig of góðan fyrir Samfylkingu og hélt með Steingrími yfir í VG, en rakst illa í þeim flokki, sem ekki var nógu róttækur fyrir hans smekk, og sagði sig loks úr honum, gekk út um dyr sem óvænt vísuðu inni í svefnherbergi Bjarnabenanna hvar hann liggur nú í davíðri dyngju og spangólar annaðslagið um illuverk Evrópusambandsins. Á því fleti liggur einnig Sighvatur okkar og sömu leið fóru þeir Ragnar Arnalds og Jón Bjarnason og fleiri munu fylgja ef fram heldur sem horfir. Guðfeður vinstriflokkanna vísa veginn. Það má nefnilega alltaf finna sér ágreiningsefnin, og komast svo langt út á jaðarinn að maður detti yfir í hinn heiminn.
Á meðan við deilum um eitt atkvæði heldur svo Borgunarstjórnin áfram að gera vel við sína. n
Athugasemdir