Árið 2009 fékk ég sleipt og spriklandi smábarn í fangið. Við þögðum og skoðuðum hvort annað undrandi á meðan hann saug á sér hnefann og ég strauk honum um hárið. Þótt hann sé sonur minn á ég hann ekki, hann hefur átt sig sjálfur frá fyrstu stund. En ég er svo lánsöm að mega gæta hans á meðan hann vex úr grasi.
Sonur minn er með lengstu augnahár sem ég hef séð og fæðingarblett á tánni sem mér finnst merkilegri en hálf mannkynssagan. Hann segir mér brandara sem honum finnst sjálfum svo fyndnir að hann hlær þangað til hann verður máttlaus í fótunum. Hann erfði atorkusemi föður síns og finnst tímasóun að sitja kyrr heila kennslustund. Tilfinninganæmnina fékk hann frá mér og grætur með háværum ekkasogum yfir sorglegum bíómyndum. Hann hefur valdið ófáum hjartaáföllum með því að týnast á almannafæri og gleðikekki í hálsinum þegar hann hefur komið í leitirnar. Hann á greiðari leið að hjarta móðurafa síns en nokkur annar í heiminum og hann framkallar sérstakan prjónaákafa hjá kvenkyns ættingjum. Og þegar hann hlær. Guð minn góður, það er eins og að fá helíumsprautu í hjartað.
„Ég kann ekki að hlúa að plánetunni sem sonur minn, sem ég ann mest af öllu, fær í arf frá mér.“
Sonur minn hefur haft áhuga á náttúruvísindum síðan hann byrjaði að tala og drekkur þau í sig í gegnum bækur og sjónvarp. Hann veit að tré og þörungar framleiða súrefni. Hann hefur bylt sér á kvöldin yfir ógninni sem steðjar að regnskógunum og hinum ýmsu dýrategundum til sjós og lands. Á tímabili neitaði hann alfarið að leggja sér kjöt til munns. Hann er líka áhugamaður um flokkun rusls og nýverið hikaði hann við að henda ónýtri vatnsbyssu með orðunum: „Kanntu að henda henni rétt, mamma?“
Svarið er nei. Ég kann ekki að henda henni rétt. Ég kann ekki að hlúa að plánetunni sem sonur minn, sem ég ann mest af öllu, fær í arf frá mér. Ég er dýr í risastórri hjörð sem hefur aldrei veitt sína eigin bráð, aldrei framleitt sín eigin klæði, aldrei alið sín eigin húsdýr, aldrei ræktað sína eigin jörð. Hjörðin sem ég tilheyri fæddist með iðnbyltingunni, þar sem sérhæfingin skar á tengslin við náttúruna. Ég þarf ekki að veiða, rækta né ala. Ég þarf ekki að skilja þarfir náttúrunnar; umgengnina né jafnvægið sem hún kallar á. Ég þarf bara að kaupa. Veiða lítið plastspjald upp úr vasanum og stinga því í vél sem prentar út strimil og ég fæ í framhaldinu að fara heim með fenginn minn í plastpoka. Plastpoka sem var ekki fundinn upp fyrr en 1960. Sem tekur 500-1000 ár að brotna niður í náttúrunni. Sem er uppistaðan í plasteyjum á stærð við Egyptaland sem reka um úthöfin og ógna öllu vistkerfinu. Ég rétt náði að fletta blaðsíðunni áður en sonur minn sá dauða búrhvalinn í dagblaðinu sem reyndist vera með rúmlega 100 plastpoka innbyrðis. Það hefði orðið honum þungbært veganesti inn í daginn.
Það versta er að ég neyðist til að taka þátt í geðveikinni. Ég get svo sem farið með taupoka að versla, en ég get ekki keypt ost öðruvísi en að hann sé plastaður. Ekki heldur sjampó, klósettpappír, brauð, uppþvottalög. Listinn er ótæmandi. Plast rotnar hvorki né myglar, það sundrast einfaldlega í litlar einingar og leysir úr læðingi ýmis vafasöm efnasambönd. Sum eru talin valda ótímabærum kynþroska hjá börnum, en rannsóknir sýna að stúlkur vestanhafs fá brjóst tveimur árum fyrr en þær gerðu fyrir fjórum áratugum síðan. Sum efnanna eru talin hefta eitlastarfsemi og leiða til sjúkdóma á borð við sykursýki. Í rannsókn sem bandarísk yfirvöld gerðu reyndust 93% af jafnöldrum sonar míns vera með plastagnir í þvaginu.
Gleði sonar míns var stór þegar hann fékk páskaeggið sitt fyrir skemmstu. Gleðin dofnaði þegar eggið var opnað og í því leyndust átta aðrir plastpokar. Sumir vafðir utan um einn, einasta mola.
Ég tilheyri hjörð sem skilur ekki þarfir jarðarinnar, en keyrir samt áfram blinda neyslumenningu á kostnað allra jarðarbúa. Til að geta keypt mér plastaða, einnota tilveru. Þegar á hólminn er komið mun sonur minn borga brúsann. Ég á hann ekki, en ég er svo lánsöm að mega gæta hans. Við verðum að átta okkur á því að það sama gildir um jörðina sjálfa – áður en það er um seinan.
Athugasemdir