Í dag er eitt ár og sextán dagar síðan líkið af Alan litla Kurdi rak á land við strendur Tyrklands. Myndin af líki Alans litla vakti heimsathygli og bar vitni um þann lífshættulega og ömurlega raunveruleika sem fólk á flótta til Evrópu býr við. Ráðamenn í Evrópu brugðust við með því að lofa að taka á móti fleira flóttafólki og almenningur öðlaðist aukna samúð með málstað þeirra.
En frá því að Alan Kurdi dó hafa hið minnsta 4.176 manneskjur látið lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið. Að meðaltali drukkna ellefu manneskjur á hverjum degi í Miðjarðarhafinu á flótta sínum frá stríði, örbyrgð og ofsóknum. Helsta lífsvon þeirra, björgunarvarðskipið Mare Nostrum var tekið úr umferð árið 2014 vegna þess að Evrópa var ekki reiðubúin að greiða fyrir áframhaldandi björgunarstörf. Fram að því hafði Mare Nostrum bjargað yfir 100 þúsund manneskjum úr lífsháska á sjó. Ellefu manneskjur deyja á hverjum degi vegna þess að Evrópa tímir ekki að bjarga þeim.
Loforð evrópskra ráðamanna um að taka við auknum fjölda flóttafólks frá Grikklandi og Ítalíu voru fljót að renna út í sandinn. Veruleikinn í dag er sá að hundruðir þúsunda flóttamanna búa við ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður í Grikklandi og á Ítalíu á meðan 2.4 milljónir flóttamanna draga fram lífið í Tyrklandi.
Á sama tíma dirfist Alþingi Íslendinga að samþykkja frumvarp að lögum hvers greinargerð lýsir því fjálglega yfir að hér ríki „ákveðið neyðarástand” þar sem útlit er fyrir að um þúsund manneskjur muni koma til landsins á árinu og sækja um alþjóðlega vernd.
Þúsund manneskjur á einu ári eru ekki neyðarástand. Þúsund manneskjur er ekki nema brotabrot af þeim hópi fólks sem við ættum með réttu að bjóða hér velkomið í öruggt skjól í stað þess að vísa þeim á dyr og kalla þau „neyðarástand.”
Það ríkir neyðarástand í Sýrlandi, Afganistan og Sómalíu og þaðan er fólk að flýja heimili sín. Sem vel stæður þáttakandi í samfélagi þjóðanna ber okkur að taka við eins mörgum manneskjum í neyð og við mögulega getum í stað þess að skýla okkur á bak við hrákasmíð eins og Dyflinnarreglugerðina eins og verið hefur hingað til.
„Dyflinnarreglugerðin er ekki heilög ritning sem okkur ber að fylgja í hvert sinn sem fólk leitar til okkar og biður um vernd“
Fólk á flótta hefur enga löglega leið til þess að koma til Íslands og sækja hér um vernd frá ofsóknum og stríði. Lögin okkar gera ráð fyrir því að flóttafólk geti aðeins sótt um hæli hérlendis en gera á engan hátt ráð fyrir því að það megi ferðast til Íslands. Takist þeim fyrir eitthvað kraftaverk að komast til Íslands má nánast alltaf senda þau aftur úr landi því Dyflinnarreglugerðin tryggir að hægt sé að senda fólk aftur til fyrsta Evrópulandsins sem það ferðaðist um.
Ísland er nánast aldrei fyrsti viðkomustaður flóttafólks í Evrópu og því þvoum við hendur okkar af þeim sem hingað leita sendum fólk til Ítalíu sem hefur enga burði til þess að sinna þeim tugþúsundum flóttamanna sem þangað leita ár hvert.
Þúsund manneskjur eru 0.1% af fjölda erlendra ferðamanna sem heimsóttu Ísland árið 2015. Samt þykir ráðamönnum hér við hæfi að kalla komu þeirra neyðarástand. Vegna þess að þau eru ekki með rétta vegabréfið. Vegna þess að þau koma ekki frá réttu landi.
Dyflinarreglugerðin er ekki heilög ritning sem okkur ber að fylgja í hvert sinn sem hingað kemur fólk í leit að vernd. Raunar er endursendingarákvæði reglugerðarinnar fjölda takmarkana sett sem útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og innanríkisráðuneytið kjósa ítrekað að hunsa.
Stöðvum brottvísanir!
Nýlegt dæmi um virðingarleysi þessara stofnanna fyrir alþjóðlegum skuldbindingum okkar Íslendinga gagnvart varnarlausu fólki er fyrirhuguð brottvísun Reginu Osaramaese og fjölskyldu hennar til Nígeríu. Regina er ólétt og mun þurfa á keisaraskurði að halda ellegar hætta lífi sínu og barnsins en útilokað má telja að Regina fái sæmilega læknisþjónustu í Nígeríu.
Ákvörðun útlendingastofnunar um að senda Reginu og fjölskyldu hennar úr landi fer þvert á fyrirmæli Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur ítrekað úrskurðað að aðildarríki Mannréttindasáttmála Evrópu megi ekki senda flóttafólk til landa þar sem verulegar líkur eru á broti á grundvallarmannréttindum þeirra. Brottvísunin brýtur einnig í bága við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um að hagsmunir barna skuli ávart vera í fyrirrúmi við ákvarðanir sem þessar.
Regina og fjölskyldan hennar eru manneskjur sem njóta réttinda og mannhelgi til jafns við allar aðrar manneskjur hér á Íslandi. Eins og flestum Íslendingum blöskrar mér hvað við komum illa fram við það fólk sem hingað kemur í leit að betra lífi og öruggu skjóli. Efnt hefur verið til samstöðufundar með Reginu og fjölskyldu hennar ásamt annarri fjölskyldu sem reka á úr landi á allra næstu dögum. Fundurinn verður haldinn næstkomandi fimmtudag kl. 16.30 við stjórnarráðið. Ég hvet alla sem láta sig mannréttindi og mannúð varða að fjölmenna á þennan mikilvæga fund og sýna samhug sinn í verki.
Höfundur er LL.M í International Law of Human Rights and Criminal Justice og skipar 2. sæti á framboðslista Pírata í Suðvesturkjördæmi.
Athugasemdir