Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn segjast stundum ætla að breyta kerfinu. Þeir eru iðulega kosnir út af einhverju slíku: Annaðhvort komast þeir langt innan flokkanna sem þeir tilheyra, eða leiða þá til sigurs vegna kerfisbreytinganna sem þeir lýsa og lofa. Í Bandaríkjunum er þetta þrástef stjórnmálanna, sérstaklega í forsetakosningum, þar sem ýmist er barist gegn kerfinu í Washington eða stefnt á að endurreisa Bandaríkin til meintrar fornar frægðar eins og sést á slagorði Donalds Trumps: „Make America Great Again“. Hillary Clinton á einmitt erfitt uppdráttar vegna þess að hún ætlar að styrkja og bæta frekar en að bylta og breyta. Obama var kosinn af því að hann átti að hafa grasrótina með sér í umfangsmiklum kerfisbreytingum. Yes We Can.
Kerfisbreytingarnar láta bíða eftir sér – og þá er eiginlega sama hvort þær eru til vinstri eða hægri og fyrir því er yfirleitt einföld ástæða. Tökum aftur dæmi af Bandaríkjunum: Til þess að vinna lagafrumvörpum stuðning og koma þeim í gegnum þingið þarf að beita nákvæmlega þeim aðferðum sem ætlunin er að breyta: Kerfisbreyting þarfnast kerfisins. Við núverandi aðstæður í bandarískum stjórnmálum þýðir þetta í raun að ef forsetinn ætlar ná árangri í stórum málaflokkum þarf hann að múta þingmönnum, sem fyrir sitt leyti þiggja einnig mútur af hagsmunaaðilum í málaflokkunum. Þetta kallast ekki mútur. Hagsmunaaðilar beina fé í kosningasjóði þingmanna eftir gildandi reglum og án leyndar, forsetinn felst á málamiðlanir sem þingmenn óska eftir. Hagsmunaaðilar þurfa á þingmönnum að halda og þeir (iðulega) á hagsmunaaðilum til að fjármagna stjórnmálaferil sinn. Follow the money, eins og kerlingin sagði.
Lýðveldið glataða
Lawrence Lessig dregur upp áhugaverða (en hörmulega) mynd af þessum veruleika bandarískra stjórnmála í bókinni Republic, Lost – How Money Corrupts Congress and a Plan to Stop it, sem kom út fyrir fimm árum. Þar lýsir hann því hvernig fulltrúadeild og öldungadeild þingsins er stýrt með fjármagni og er ekki fyrsti maðurinn til að gera það. Greining Lessigs sker sig úr að því leyti að hann bendir á að spillingin sem þannig þrífst í hjarta stjórnmálabaráttunnar er ekki tilkomin vegna þess að einstakir þingmenn séu eiginhagsmunaseggir sem í raun stendur á sama um velferð kjósenda sinna – hann er ekki að ráðast á „stjórnmálastéttina“ sem samansúrraðan hóp svikara (eins og stundum er gert hér á landi). Þvert á móti. Lessig bendir á að kerfið sé þannig úr garð gert að stjórnmálamönnum sé nauðugur sá kostur að elta peningana: Tryggja sjálfum sér fjármagn til að kosta kosningabaráttu og samskipti við styrktaraðila, og koma í veg fyrir að andstæðingarnir njóti styrkja sömu aðila.
Heilsugæsluumbætur Baracks Obama eru í senn dæmi um hvað honum hefur tekist og mistekist í valdatíð sinni. Heilsugæslufrumvarpið fór vissulega í gegnum þingið og það hefur staðist árásir andstæðinganna síðan – þar á meðal umfjöllun Hæstaréttar um einstök atriði þess. En niðurstaðan er fjarri því sem Obama lofaði í kosningabaráttunni. Tvö mikilvæg atriði eru fallin út: Í fyrsta lagi er ekki komið á neinu almenningstryggingakerfi. Einstaklingar verða eftir sem áður að semja við einkaaðila, sem þar með ráða lögum og lofum um verðlagningu trygginga. Í öðru lagi hafa lyfjafyrirtæki eftir sem áður forréttindastöðu gagnvart ríkisvaldinu um verðlagningu á lyfjum. Verulegar hömlur eru á svigrúmi ríkisins til að semja um verð við lyfjafyrirtækin, sem í raun geta ákveðið það upp á sitt einsdæmi – þó var þetta eitt af því sem Obama lýsti skýrt yfir að hann myndi breyta í kosningabaráttu sinni.
„Þannig þurfti Obama að beita nákvæmlega þeim aðferðum sem hann fordæmdi til að ná árangri“
Ástæðan fyrir því að þessi mikilvægu atriði hafa horfið úr umbótaáætlun forsetans er einfaldlega sú að í þeim samningaviðræðum sem nauðsynlegar voru til að tryggja nægan stuðning á þingi við frumvarpið um heilsugæsluumbætur hafði heilsutrygginga- og lyfjaiðnaðurinn nógu sterka stöðu til að geta komið þeim út. Þannig þurfti Obama að beita nákvæmlega þeim aðferðum sem hann fordæmdi til að ná árangri í þessum málaflokki og niðurstaðan ber keim af því, hagsmunir stórfyrirtækjanna eru tryggðir – á kostnað hins almenna borgara að sjálfsögðu.
Niðurstaða Lessigs er því sú að útilokað sé að vænta grundvallarkerfisbreytinga af stofnunum ríkisins einum – þingi og forseta. Bandaríkin eru dæmd til að snúast í kringum stórfyrirtækin sem leggja línurnar í þeim leik sem stundaður er í Washington. Þetta hefur auðvitað sína kosti: Margir hafa bent á að kerfið muni takmarka möguleika Donalds Trump til að beita valdi embættisins ef hann vinnur forsetakosningarnar í nóvember. Hann mun líka þurfa að læra leikreglurnar og beygja sig undir þær. En á hinn bóginn er spilling kerfisins orðin svo djúp og rótgróin að sjálfu lýðræðinu stendur ógn af því.
Spilling einstaklinga og spilling stofnana
Lessig hefur reynt að skýra spillinguna með því að gera greinarmun á einstaklingsbundinni spillingu og stofnanavæddri: Vandamál bandarískra stjórnmála er ekki fyrst og fremst að einstaklingar séu spilltir, heldur að spilling er byggð inn í það hvernig stofnanirnar starfa. Allt umhverfi stjórnmálanna stuðlar að því að kjörnir fulltrúar sveigi ákvarðanir sínar að sjónarmiðum sem allir vita að eru ekki í þágu almennings. Ef spillingu er best lýst þannig að einstaklingar og stofnanir bregðist trausti almennings eða misnot það, þá er kerfi sem í raun felur í sér stöðug svik við almenning spillt í rótina.
Sú leið sem hann telur að sé vænlegust til að hafa áhrif á kerfið til lengri tíma er að byggja upp borgarahreyfingu sem blandar sér í starf flokkanna og beitir sér fyrir því málefni einu að stuðla að grundvallarbreytingum á því hvernig stjórnmálastarf er fjármagnað. Hann hefur bent á forkosningar flokkanna sem rétta vettvanginn til að koma þessum skilaboðum á framfæri og sjálfur bauð hann sig fram í forkosningum Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar nú, í þeim tilgangi að afla nægilegs stuðnings til þess að vera gjaldgengur í umræðuþáttum frambjóðenda í forvalinu. Það munaði ekki miklu að það tækist, en vegna breytinga á reglum flokksins um þetta var hægt að útiloka hann frá þátttöku og því dró hann sig út úr forvalinu. Grasrótarsamtökum sem sprottið hafa upp úr starfi hans og fleiri síðustu ár hefur hins vegar stöðugt vaxið ásmegin þannig að það er of snemmt að afskrifa leiðirnar sem hann lýsir í bókinni, þar sem nokkur hundruð manns geta gert verulegan óskunda í kerfinu, ef svo má að orði komast með því að bjóða sig fram í þeim tilgangi einum að koma baráttu við spillingu kerfisins á dagskrá – kosningalög í Bandaríkjunum koma ekki í veg fyrir að sami einstaklingur bjóði sig fram í mörgum kjördæmum.
Pólitískt máttleysi flokkanna
Þó að áhrif fjármagns í íslenskum stjórnmálum séu ólík því sem tíðkast í Bandaríkjunum, þá stöndum við að mörgu leyti frammi fyrir sama vanda. Stjórnmálamönnum reynist erfitt að sameinast um og ná fram mikilvægum breytingum á ýmsum sviðum. Fiskveiðistjórnunarkerfi er dæmi um þetta, einnig búvörusamningur, sömuleiðis stjórnarskrá og Evrópusambandið. Við búum við þá furðulegu mótsögn að stjórnmálamenn taka ákvarðanir sem eru í beinni andstöðu við vilja almennings, sem auðvelt er að mæla í stórum málum. Þó að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar, til dæmis, vilji að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um umsókn Íslands að Evrópusambandinu halda stjórnvöld því statt og stöðugt fram að slík atkvæðagreiðsla sé „pólitískur ómöguleiki“. Þó að tveir þriðju kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi lýst stuðningi við drög Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, þá telja stjórnvöld eigi að síður ókleift að bregðast við því með því að vinna áfram með þessi drög. Svona má halda áfram. Við búum í lýðræðisþjóðfélagi þar sem eitthvað annað en vilji og/eða hagsmunir almennings – kjósenda – ræður ferðinni. Hvernig stendur á þessu?
„Það er mjög erfitt á síðustu árum að skýra atferli stjórnvalda með hugmyndafræði eða stefnu“
Nærtækasta skýringin er áhrif stórra hagsmunaaðila á flokkana og einstaka þingmenn. Það er mjög erfitt á síðustu árum að skýra atferli stjórnvalda með hugmyndafræði eða stefnu. Vinstri stjórnin sem sat frá 2009 til 2013 hagaði sé að mörgu leyti eins og búast hefði mátt við af tiltölulega ábyrgri hægri stjórn. Hægri stjórnin sem nú situr hefur að mörgu leyti hagað sér eins og frekar óábyrg vinstri stjórn. Hægri stjórnin skattleggur bankana og dreifir fénu til almennings. Vinstri stjórnin spilar eftir leikreglum alþjóðakapítalsins í þágu trúverðugleika íslenska efnahgskerfisins.
Stóra spurningin er sú hvort hægt er að búast við því að eftir næstu kosningar muni eitthvað breytast? Hvað verður um ESB, stjórn fiskveiða, stjórnarskrá, bændur og öll hin stóru málin? (Það er rétt að taka fram að vissulega eru dæmi um hitt að einstök mál fái breiðan stuðning, en pattstaða hinna virðist óbreytanleg).
Ef maður ætti að svara spurningunni á svipaðan hátt og Lessig gerir er svarið sennilega nei. Til þess að búast mætti við raunverulegum breytingum þyrfti nýtt umbótaafl (og segjum að píratar séu það í dag) að ná hreinum meirihluta. Og það mun ekki gerast. Enn sem komið er, bendir ekkert til þess að einhverjir þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram geti eða ætli sér að mynda bandalag um tiltekin stór mál. Því í kerfi eins og okkar er eina leiðin til að ná fram breytingum: Að einhverskonar breiðfylking lofi því að gera tilteknar breytingar í tilteknum málum og standi og falli með þessum breytingum. Fylkingin þarf svo að ná meirihluta, en hún þarf ekkert endilega að vera öll saman í stjórn til þess að sameiginleg loforð hennar verði hermd upp á alla flokka sem að henni standa.
Það er nefnilega þannig að fjármagn stjórnar pólitíkinni á Íslandi líka – ekki síður en í Bandaríkjunum þótt með ólíkum hætti sé. En leiðirnar að breytingum ættu að vera einfaldari þar en hér. Því miður er það nú þannig að sama hverju einn flokkur lýsir yfir og lofar þá er nákvæmlega ekkert að marka það. Einu loforðin sem geta skipt máli eru loforð sem bandalag flokka gerir saman fyrir kosningar. Ég held að maður verði að vera svartsýnn á allar breytingar þangað til slíkt bandalag er komið fram á sjónarsviðið.
Athugasemdir