Vinur minn varð fyrst skotinn í stúlku þegar hann var tíu ára gamall. Hún var ellefu ára, með svört augu og sítt dökkt hár sem sveiflaðist til þar sem þau léku sér á rólóvelli í steikjandi hitanum sem einkennir sumrin í heimalandi hans. Skyndilega fylltist loftið af drunum í herflugvélum og móðir hans birtist á rólóvellinum, móð og másandi og reif hann upp á handleggnum. Þau æptu á vinkonuna að koma með en hún skildi ekki alvöru málsins og vildi leika sér lengur. Augnabliki síðar sat hann í hnipri ásamt foreldrum sínum og nágrönnum í stigagangi nærliggjandi blokkar og reyndi að einbeita sér að lágværu bænasöngli móður sinnar á meðan sprengjurnar tættu í sundur mannvirkin í kring. Eftir að drunurnar hljóðnuðu fóru karlmennirnir út og könnuðu aðstæður. Þeir komu heim og hristu höfuðið. Móðir vinar míns tók þétt um axlir hans og lét hann lofa sér að fara ekki út á róló, fyrst þyrfti fullorðna fólkið að taka til þar. Á leiðinni heim úr skólanum nokkrum dögum síðar fann hann blóði drifinn skó af stúlkunni sem hann var skotinn í.
„Á leiðinni heim úr skólanum nokkrum dögum síðar fann hann blóði drifinn skó af stúlkunni sem hann var skotinn í.“
Örlögin skoluðu þessum vini mínum upp á strendur Íslands. Honum þykir land og þjóð heillandi og er sérstaklega ánægður með kyrrðina sem fylgir snjónum á veturna. Gamlárskvöld eru honum þó þungbær. Hvellirnir og sprengingarnar rifja upp átakanlegar minningar sem verða skyndilega ljóslifandi. Líkamsminnið virkjar vöðva sem spennast, tárakirtla sem hrökkva í gang og svitakirtla sem dæla út köldum ótta, sama hvað rökhugsunin segir.
Í ár eru sjötíu ár liðin síðan stærsta sprenging veraldarsögunnar gereyðilagði 60% allra bygginga í Hiroshima og olli dauða 140.000 manns, ýmist samstundis eða á næstu mánuðum. Sjötíu þúsund í viðbót létust í Nagasaki þremur dögum síðar af völdum annarrar bandarískrar kjarnorkusprengju. Sem betur fer hafa slík gereyðingarvopn ekki verið notuð gegn almennum borgurum síðan í seinni heimsstyrjöldinni, en sprengjurnar sem rigndi yfir hverfi vinar míns í bernsku voru engu að síður banvænar. Sprengjur eru dauðans alvara í samfélögum þar sem eyðileggingarmáttur þeirra er átakanlega þekkt staðreynd í hugum íbúanna.
En ekki á Íslandi. Vissulega kemur orðið „sprengja“ reglulega fyrir í máli okkar, raunar er það eitt algengasta orðið á síðum dagblaðanna, en sjaldnast í raunverulegum skilningi. Íslendingar nota nefnilega orðið „sprengja“ óspart til að lýsa saklausu fyrirbæri sem flestir nýta sér og reiða sig jafnvel á til að heimilisbókhaldið gangi upp. Nefnilega útsölur. Orðið „verðsprengja“ skilar þúsundum niðurstaða á Google og birtist reglulega á síðum blaðanna. Ein þeirra auglýsti útsölu á barnafötum með orðinu KA-BÚMM! Reglulega eru auglýstar sprengjur í Kringlunni, nokkuð sem myndi koma öðrum þjóðum afskaplega undarlega fyrir sjónir enda eru verslunarmiðstöðvar oft skotmark þeirra sem vilja raunverulega sprengja óbreytta borgara í loft upp.
„Reglulega eru auglýstar sprengjur í Kringlunni, nokkuð sem myndi koma öðrum þjóðum afskaplega undarlega fyrir sjónir.“
Árið 2001 reyndi Richard Reid að sprengja bandaríska farþegaflugvél í loft upp með sprengiefni sem hann faldi í skóm sínum. Eftirmálann þekkjum við flest, enda eru flugfarþegar nú látnir afklæðast skóm við öryggisleit því skósprengjur þykja raunveruleg ógn við flugöryggi. En ekki á Íslandi. Hér er orðið SKÓSPRENGJA notað um – já, þú giskaðir rétt – skóútsölur.
Skósprengjur voru auglýstar bæði í Spúutnik og Toppskónum nýverið, svo dæmi séu nefnd. Þótt fæstir Íslendingar samtímans þekki sprengjuógn af eigin raun er ekki þar með sagt að þjóðin þekki ekki hörmungar. Sjóslys hafa drekkt mörgum sjómanninum og skilið fjölskyldur eftir í sárum. Jarðskjálftar hafa valdið stórfelldu tjóni í seinni tíð, að ótöldum snjóflóðum sem hafa hrifsað með sér heilu byggðarlögin og valdið þjóðarsorg. Af þeim sökum er ólíklegt að orðið VERÐSNJÓFLÓÐ festi sig nokkurn tíma í sessi hérlendis.
Ekki misskilja mig, ég fatta alveg myndlíkinguna. Eftir hressilega útsölu er engu líkara en sprengju hafi verið varpað inn í verslanir, allt á rúi og stúi, gott og vel. Hér má benda á að jarðhræringar hafa sambærileg áhrif, en líklega þætti landanum ósmekklegt að auglýsa SKÓJARÐSKJÁLFTA. Kalt mat.
Áðurnefndur vinur minn var í kaffi hjá mér um daginn þegar Byko auglýsti enn eina VERÐSPRENGJUNA. Auglýsinguna prýddi mynd af sprengju með glóandi kveik. Vinur minn hnyklaði brýrnar og spurði hvað þetta þýddi. Ég útskýrði að þetta væri auglýsing frá verslun í höfuðborginni. „Sem selur sprengjur?“ spurði hann áhyggjufullur.
Orð þarf ekki alltaf að túlka bókstaflega. Raunar er einn af kostum tungumálsins sá að nota má orð í ýmsum tilgangi, snúa upp á þau, snúa út úr þeim og afbaka. En kannski mætti minnast sjötíu áranna sem liðin eru frá hörmungunum í Hiroshima með því að stækka orðaforðann sem lýtur að útsölum á Íslandi. Þegar öllu er á botninn hvolft er undarlegt að auglýsa sprengjur í Kringlunni, að minnsta kosti í augum fólks sem þekkir eyðileggingarmátt þeirra af eigin raun.
Athugasemdir