Við karlmenn erum oftast nær líkamlega stærri og sterkari en konur og börn og verðum þess vegna að vanda okkur. Eða eins og segir í nýlegri herferð í New York-borg: „Dude, it’s a space issue“ sem mætti hráþýða „Gaur, þetta snýst um rými“. Allir sem hafa notað neðanjarðarlestina í New York skilja hvers vegna þetta ákall er mikilvægt. Nokkrir karlar sem breiða úr sér í síldartunnum Manhattan geta gert líf fjölda fólks að helvíti, fyrir nú utan að menn nota glenntar líkamsstöður til að ógna og ögra umhverfinu, ekki síst hinu kyninu.
Að þessu sögðu finnst mér alltaf jafn gaman að lesa vangaveltur um „manspreading“ eða „plássfrekjur“ á íslenskum samfélagsmiðlum vegna þess að ég get talið á fingrum annarrar handar þau skipti sem ég hef komið inn í strætó í Reykjavík og þurft að leita að sæti. Við Íslendingar notum nefnilega helst ekki almenningssamgöngur.
Samt gýs umræðan um plássfrekjur upp með jöfnu millibili á djöflaeyjunni, enda dæmigert dægurmál sem hægt er að snúa á ýmsa vegu og smjatta á í fermingarboðum.
Ég benti í því samhengi á að stórir menn verða að breiða úr sér því þeir eiga á hættu að fá blóðtappa. Sú röksemd er vissulega rétt að einhverju leyti en frekar hæpin við nánari skoðun þar sem besta leiðin til að forðast blóðtappa í fótlegg er að standa upp og ganga í stað þess að taka strætó.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það sem kaninn kallar „space issue“ varla til á Íslandi og fyrirbærið þýðist illa yfir á okkar tungu. Eða að minnsta kosti svo glænýtt að við erum ennþá að klóra okkur í hausnum. Við viljum samt vera með í umræðum stórþjóða, hvað sem það kostar, og alls ekki vera eftirbátar róttæklinga á amerískum kampusum. Skítt með að það er næstum enginn í strætó, skítt með að við ferðumst næstum öll á einkabílum; strákarnir geta alveg lært að halda saman á sér klofinu í einkajeppanum.
„Skítt með að það er næstum enginn í strætó, skítt með að við ferðumst næstum öll á einkabílum; strákarnir geta alveg lært að halda saman á sér klofinu í einkajeppanum.“
Við viljum vera með og ef strætó er tómur þá staðfærum við einfaldlega vandamálið eins og einhver sem talaði um freka karla sem koma of seint á fyrirlestra og teygja úr sér á fremsta bekk en ekki fylgdi sögunni hvort sætaröðin var þéttsetin eða auð eins og gerist gjarnan þegar bældir fræðimenn eru annars vegar.
Við Íslendingar erum með puttann á púlsinum eins og sýndi sig fyrir nokkrum mánuðum þegar sendinefnd íslenskra kvenna dýfði sér niður í neðanjarðarkerfi Lundúnaborgar og áreitti þar unga Breta sem breiddu úr sér þar, öllum til ama. Nú átti að kenna ungviðinu kurteisi. Menn tóku þessari íslensku innrás misjafnlega og einhverjir illa, eins og gengur.
Á sama tíma og þessar fræknu systur okkar gerðu garðinn frægan í Bretlandi tóku íslenskir frekjukarlar öll völd í íslenskri pólitík og plássfrekja varð forsætisráðherra eina ferðina enn. Að minnsta kosti er mér hulið hvaða gagn Bjarni Ben gerir íslenskri þjóð fyrir utan það að fylla vel út í jakkaföt og sjónvarpsskjá.
Í Berlín, þar sem ég bý þessa dagana, eru plássfrekjur þekkt vandamál eins og víða í þéttbýli. En Þjóðverjinn er lúmskur, í stað þess að opna klofið upp á gátt er hann meira í því að taka yfir heilu sætaraðirnar með innkaupapokum og töskum. Og þar sem Berlín er svolítið tvíkynhneigð í eðli sínu eru konur – og þá ekki síst eldri konur – körlum fremri í þessari athöfn sem er í raun afbrigði af manspreading, kannski mætti kalla hana „bagspreading„ eða „pokapot“ upp á íslensku.
Konan mín hefur oftar en ekki lent í stappi við sér eldri konur sem hafa plantað sér fremst á efri hæð strætó með allt sitt hafurtask, vilja eiga útsýnið yfir Berlín út af fyrir sig og taka yngri konum og börnum illa þegar þær eru beðnar um að færa til góssið. Frussa bara einhvern dónaskap þegar reynt er að stjaka við þeim. Þarna væri gott að fá sendinefnd vel upplýstra og menntaðra íslenskra kvenna í strætó. Þær færu létt með að þagga niður í þessum snafsmaríneruðu Berlínargrýlum!
Athugasemdir