Það er löng hefð fyrir því að upprennandi íslenskir stjórnmálamenn hefji feril sinn með siðrofi.
Í nýlegum kosningum til stjórnar Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fór fram smölun meðal ungs fólks þar sem því var boðið að fá bjór í skiptum fyrir að kjósa ákveðna frambjóðendur. Þannig er hin lýðræðislega þátttaka frambjóðendanna og kjósendanna strax í upphafi mörkuð siðleysi í eiginlegum stjórnmálaskóla sem á að undirbúa þátttakendur fyrir lýðræðislega þátttöku.
Heilbrigð lýðræðisleg þátttaka er grunnurinn að farsælum ákvörðunum samfélags okkar og farsældar okkar til lengri tíma. Ekkert er mikilvægara en lýðræðislegu ákvarðanirnar sem við tökum.
Í ungliðahreyfingunum á sér stað lærdómur. Þar stíga margir fyrstu skref sín í stjórnmála- og lýðræðisþátttöku. Þar er hins vegar verið að kenna að lykillinn til áhrifa í stjórnmálum og lykillinn að því að kjósa sé að stjórnmálamaður múti kjósandanum með því að lofa að útdeila gæðum til hans fyrir atkvæðin. Svona smalaði einn frambjóðandinn menntaskólanemendum í höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins:
Hann bauð nemendunum í „frían hamborgara og bjór“: „Förum saman upp í Valhöll, kjósum listann hans Alberts og komum svo aftur upp í kosningamiðstöð og þá er MS kosningapartý með yfirdrifið nóg af fríum bjór eins lengi og við viljum. Fjölmennum saman og hjálpið okkur að sigla þessu inn. Við þurfum ALLA MS-inga.“
Þess ber að geta að Albert Guðmundsson vann kosningarnar með 6 atkvæða mun og mun leiða Heimdall með sömu dómgreind og leiddi hann til sigurs.
Frambjóðendurnir voru ekki bara að múta fólki með áfengi til að ganga í stjórnmálahreyfingu og kjósa óháð dómgreind, heldur er meginþorri menntaskólanema á aldrinum 16 til 20 ára og ekki með lagalegan aldur til að neyta mútanna.
Margir þeirra eru ekki einu sinni með bílpróf, en það er einnig leyst með því að frambjóðendurnir lofuðu bílfari gegn atkvæði.
Þetta er ekki nýtt. Þetta er bara meira áberandi núna þegar smölunin fer fram á Facebook.
Ungu fólki hefur lengi verið frumsýnd lýðræðislegur ferill með þeim hætti að hann snúist um mútur, vinagreiða og neyslu, frekar en hugmyndafræði og almannaheill. Ungir, upprennandi stjórnmálamenn hafa lengi stigið sín fyrstu lærdómsskref með því að ná árangri í lýðræðislegum kosningum með skipulegum mútum til kjósenda og útdeilingu efnislegra gæða. Farsæld þeirra fer ekki síst að snúast um hvaða aðgang þeir sjálfir ná að útvega að efnisgæðum til útdeilingar og svo hversu langt þeir eru tilbúnir að ganga frá heilbrigðri lýðræðisþátttöku. Þannig myndast oft farsæl sambönd frambjóðenda við hagsmunaöfl í samfélaginu sem lita síðan lýðræðislegar ákvarðanir.
Ólafur Páll Jónsson heimspekingur fjallar um mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku í grein sinni „Lýðræði, menntun og þátttaka“, þar sem hann vitnar í heimspekinginn John Dewey, sem er þekktur fyrir hugmyndir sínar um menntun og sálfræði.
„Lýðræðisleg þátttaka snýst ekki fyrst og fremst um þátttöku í ákvörðunum. Ef við lítum á lýðræði með svipuðum hætti og Dewey þá verður svarið við spurningunni um það hvers vegna lýðræðisleg þátttaka skipti máli fyrir þá sem í hlut eiga einfaldlega þetta: Lýðræðisleg þátttaka er menntandi og menntun er eitt af því sem veitir lífsfyllingu.“
Menntunin sem fólk er að fá út úr stjórnmálaskóla flokkanna er rotin og gerir meira slæmt en gott.
Það eina sem við uppskerum frá þessum fræjum eru fullorðnir stjórnmálamenn sem reyna að múta okkur fyrir kosningar með því að útdeila okkur efnislegum gæðum - sem þeir eiga ekki einu sinni sjálfir, sem við eigum sameiginlega - gegn því að þeir verði kosnir, drifnir áfram af nostalgíunni af því að vera vongóðir ungpólitíkusar sem reyndu að sneiða hjá dómgreind með því að lokka til sín fólk undir lögaldri með bjór.
Athugasemdir