Fyrir um fjórum árum uppgötvaði ég nýjan möguleika á Facebook sem gerði fólki kleift að gerast fylgjendur mínir. Fyrstu viðbrögð mín voru undrun yfir að einhver vildi í alvöru fylgjast með mér. Næstu viðbrögð voru valdaleysi. Ég gat ekki valið þessa einstaklinga á sama hátt og ég gat valið mér fésbókarvini. Svo kom paranojan. Hvað vildi þetta fólk mér? Þegar fylgjendurnir voru farnir að skipta tugum róaði góð vinkona mín mig niður þegar hún benti mér á að líklega væru þetta einstaklingar sem hefðu fylgst með verkum mínum og fundist þau áhugaverð af einhverjum ástæðum. Kannski væru þeir heiftarlega ósammála einhverju í bókinni minni, kannski fíluðu þeir leikritin mín eða kannski hefðu þeir engan sérstakan áhuga á mér yfirhöfuð, heldur einhverju málefni sem ég fjasa reglulega um. Ég fór að anda rólegar og smám saman rétti ég úr bakinu. Því fylgdi undarleg tilfinning þegar fylgjendurnir rufu 100 manna múrinn, einskonar óttablandið stolt, en ég tók loforð af sjálfri mér að láta þetta ekki hafa áhrif á það sem ég birti. Hvað er maður í lífinu ef maður er ekki trúr sjálfum sér?
Þegar fylgjendurnir voru orðnir 200 talsins sagði ég sjálfri mér að það væri hrós að fólk hefði áhuga á því sem mér dettur í hug. Skrítið, en skemmtilegt. Við 300 manna markið var ég orðin nógu hugrökk til að skoða listann yfir fylgjendur mína og uppgötvaði mér til undrunar að þar er slatti af enskumælandi fólki, svo ég fór að þýða einstöku færslu. Við 400 manna markið var ég orðin meðvituð um þennan litla áhangendahóp minn sem óx jafnt og þétt, einna helst ef ég tjáði mig um eitthvað umdeilt eins og klám, hryðjuverk, stjórnmál, ofbeldi eða feminísma. Við 500 manna markið stóð ég mig að því að brosa með sjálfri mér, þótt ég hafi verið snögg að þurrka það af andlitinu. Bakvið blendnu tilfinningarnar var sú staðreynd að það er gott að líða eins og maður eigi sér hljómgrunn. Meira að segja í þessu undarlega ástar/haturssambandi sem ég átti við fylgjendafítus fésbókarinnar – og meira að segja þótt ég hafi fundið mann sem hryggbraut mig í ástarmálum meðal fylgjendanna. (Ef hann vill dvelja í fortíðinni, þá hann um það.)
„Við 500 manna markið stóð ég mig að því að brosa með sjálfri mér, þótt ég hafi verið snögg að þurrka það af andlitinu.“
Það var ekki fyrr en í september síðastliðnum að ég tók eftir því að fylgjendunum fækkaði í fyrsta sinn um fimm manneskjur. Ég yppti öxlum, þetta þyrfti ekki að þýða neitt sérstakt. En svo hurfu tíu í viðbót. Því næst fór fylgishrunið að skipta tugum einstaklinga, jafnt og þétt. Ég neyddist til að viðurkenna, mér til hatrammrar gremju, að þetta vakti spurningar hjá mér. Ég ætlaði fjandinn-hafi-það ekki að breyta skoðunum mínum en ég vildi samt vita hvað olli þessum skyndilegu umskiptum þegar ég hafði árum saman skrifað greinar á borð við „Hommaathvarf í miðbænum“, „Stelpupussulæti í þágu jafnréttis“ og „Má ég fyrirgefa nauðgaranum?“ án þess að fylgjendum fækkaði.
Svarið lá í augum uppi þegar ég renndi niður vegginn minn. Allar nýjustu færslur mínar snerust um sama málefnið, sem viðkomandi fylgjendum hafði greinlega mislíkað. Málefnið var ekki jafnrétti kynjanna, ekki flokkspólitík, ekki kynbundið ofbeldi (og fyrst ég minnist á það er Amnesty vonbrigði ársins fyrir afstöðu sína til vændis) heldur ítrekuð skoðun mín þess efnis að Íslendingar ættu að aðstoða við að leysa flóttamannavandann. Þar drógu sumir fylgjendur mörkin, greinilega. Nánar tiltekið fækkaði fylgjendum mínum í næstum nákvæmlega sama hlutfalli og sú prósenta þjóðarinnar sem vill ekki bjóða flóttamenn velkomna til landsins samkvæmt skoðanakönnun. Skýrara gæti það varla verið.
Ég sætti mig við þessa skýringu, þótt mér finnist óskiljanlegt að fimmti hver samlandi minn vilji ekki veita nauðstöddum lífsnauðsynlega aðstoð. Þessir sömu einstaklingar kæra sig ekki um skoðanir eins og mínar, heldur kjósa að slökkva á þeim. Horfa í hina áttina, þar sem enga yfirfulla flóttamannabáta er að finna. Þar sem engir örvæntingafullir foreldrar eru barðir með kylfum af landamæravörðum og engir landflótta ellilífeyrisþegar sofa í vegkantinum. Þeir hafa nefnilega val. Öfugt við flóttamennina, sem hafa enga valkosti aðra en að hrekjast á brott frá öllu sem þeir þekkja.
Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta ekki um mig eða smelli á Facebook. Þetta snýst um hvort við, sem mannkyn, horfumst í augu við þann stórfellda harmleik sem nú á sér stað í Sýrlandi og nærliggjandi löndum. Ég er í þeirri forréttindastöðu að búa við frið og allsnægtir, svo ég mun halda áfram að beita mér í þágu þeirra sem vita ekki hvort þeir munu lifa af næsta sólarhring. Egó mitt mun nefnilega lifa af fylgistapið á fésbókinni.
Athugasemdir