Í nóvember 2014 fékk hinn eins árs gamli Fox Whitten salmonellu með tilheyrandi hita, uppköstum og niðurgangi. Foreldrar hans fóru að endingu með hann á spítala þar sem hann fékk læknishjálp og náði sér að fullu, en fram að því brugðu þau á það ráð að skiptast á að fara með hann í sturtu til að reyna að stemma stigu við hitanum. Það var líka fljótlegasta leiðin til að skola burtu það sem gekk upp úr og niður úr barninu. Móðirin, Heather Whitten, verandi ljósmyndari, greip til myndavélarinnar. Ljósmyndin sýnir baksvipinn á örmagna barni í fangi umhyggjusams föður, en sjónarhornið skýlir nekt þeirra beggja.
Eftir að Heather deildi myndinni á Facebook uppgötvaði hún að samfélagsmiðlarisinn eyddi myndinni á þeim forsendum að hún væri óviðurkvæmileg. Heather tók það ekki í mál og setti myndina aftur inn með þeim rökum að það væri ekkert dónalegt við ljósmynd af ástríkum föður að annast veikt barn sitt. Facebook skellti skollaeyrum við þeim rökum og eyddi myndinni aftur, en Heather fékk einnig skammir í hattinn frá fólki sem þótti myndin „ógeðsleg“, „pervertísk“ og „barnaníðingsleg“.
Vanmáttur gegn vágesti
Höfum eitt á hreinu: Kynferðisofbeldi er grafalvarlegt samfélagsmein sem er alltof algengt og alltof lítið er gert til að uppræta. Rannsóknir hafa leitt í ljós að mikill meirihluti þeirra sem misnota börn eru karlar, sem oftast tengjast brotaþolunum nánum böndum. Sú staðreynd undirstrikar hversu varnarlaus börn eru gagnvart gerendum, sem þau eru jafnvel háð um lífsafkomu sína. Þótt langþráð vitundarvakning hafi átt sér stað á síðustu áratugum ríkir enn fáfræði og vangeta til að takast á við kynferðisofbeldi. Þolendur mæta oft skilningsleysi og ásökun, meirihluti kærðra mála eru felld niður, sönnunarbyrðin er þung og refsiramminn vannýttur, þá sjaldan að mál leiði til sakfellingar. Þetta hefur svo alið á vanmáttarkennd og reiði hjá hinum almenna borgara. Leiðin til að sigrast á vanmætti er oft sú að grípa til aðgerða, til dæmis að banna karlkyns leikskólastarfsmönnum að skipta á bleium, banna feðrum að gista á íþróttamótum barna og tortryggja karlmenn sem sýna börnum alúð.
„Leiðin til að sigrast á vanmætti er oft sú að grípa til aðgerða, til dæmis að banna karlkyns leikskólastarfsmönnum að skipta á bleium. “
Þannig uppgötvaði vinur minn, sem á tvær vinmargar dætur á grunnskólaaldri, að vinkonur þeirra máttu ekki lengur gista hjá þeim eftir að hann skildi við eiginkonu sína. Annar vinur minn, stoltur fjögurra barna faðir, lýsti því fyrir mér hvernig dóttir hans fékk sveppasýkingu með tilheyrandi útbrotum á bleiusvæðinu (sem er tiltölulega algengt meðal ungbarna). Læknir leysti hann og konu hans út með kremi sem bera átti á barnið nokkrum sinnum á dag. Enda þótt vinur minn treysti sjálfum sér fullkomlega til að annast þarfir dóttur sinnar, þá treysti hann ekki dómi samfélagsins, sem gæti fundist athæfið tortryggilegt á einhvern hátt. Tilfinningaflækjan sem þessu fylgdi var óþolandi, sagði hann mér.
Kynbundin mismunun
Ég þekki ekki tilfinninguna sem feður í kringum mig lýsa; þessum nagandi efa um hvort þeir megi taka fullan þátt í lífi barna sinna án þess að vera sakaðir um óeðli. Líffræðilegt kyn mitt virðist veita mér forskot að þessu leyti. Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir og enda þótt kynferðisofbeldi sé oftar beitt af körlum er líkamlegt ofbeldi gegn börnum og ungbarnamorð oftar framið af konum, á heimsvísu. Samt virðast ljósmyndir af mæðrum að annast börn sín sjaldan framkalla tortryggni á borð við „hún rassskellir pottþétt son sinn“ eða „ætli hún eigi eftir að drepa þetta ungbarn?“
Börnunum fyrir bestu
Fátt er mikilvægara en velferð barna og þar eru foreldrar í lykilstöðu. Samfélag sem setur vellíðan barna í forgrunn hlýtur því að hvetja umhyggjusama foreldra til dáða – óháð kyni.
Hvað upprætingu kynferðisofbeldis varðar eigum við ennþá langt í land og óttinn er því skiljanlegur. En lausnin er ekki fólgin í því að sjá skrattann í hverju horni og draga úr sjálfstrausti foreldra til að sinna hlutverki sínu af alúð. Föðurást má ekki verða fórnarkostnaður í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hvað velferð barna snertir er þeim fyrir bestu að eiga aðstandendur sem elska þau óhikað. Meirihluti foreldra hvorki misnotar börn sín né beitir þau líkamlegu ofbeldi og því ættu bæði konur og karlar að fá að spreyta sig á foreldrahlutverkinu án þess að liggja undir ásökun fyrir jafn sjálfsagðan hlut og að annast barn sitt. Til dæmis með því að húka á sturtubotninum og klappa unganum á meðan hann ælir og drullar yfir mann í einu. Því það er sönn ást.
Athugasemdir