Var Katrín Jakobsdóttir eini stjórnmálaforinginn sem minntist á flóttamenn í eldhúsdagsumræðunum á dögunum? Mig minnir það. Sem verður kannski til þess að maður kjósi hana í kosningunum, þrátt fyrir að maður sé alltaf alltof hræddur við VG þegar kemur að búvöru- og kvótamálum. En flóttamannamálið er jú stærra en allur sá lúxusvarningur.
Flóttamenn ættu að vera aðal kosningamálið.
Já. Alltaf þegar einhver segir flóttamenn ættum við að segja HÚH!
Nú er ár liðið frá því að við Íslendingar urðum alþjóðahetjur fyrir ekkert, þegar það spurðist um heiminn að ALLIR ÍSLENDINGAR hefðu opnað faðm sinn og hús fyrir flóttamönnum, og hér svæfi stríðshrjáð sýrlensk fjölskylda í hverjum (tæmdum) heitum potti, hverju garðhýsi, hverjum bílskúr, hverju gestaherbergi, undir íslensku alullarteppi frá Álafossi eða dúnsæng úr Breiðafirðinum, og yfir þeim stæðum við pc-lega ooo-andi með heitan kakóbolla og Frónkex. Þvílík þvílík blekking!
Íslendingar: meistarar í mýtugerð. Ef við erum ekki heimsins mesta „bókaþjóð“ (hér eru allir hættir að lesa), þá erum við mestu hrunuppgjörsmenn veraldar (við endurkusum hrunflokkana) eða náttúruunnandi norðurljósameistarar (við sem nennum ekki einu sinni út í garð fyrir Aurora Borealis), og þarna í fyrrahaust vorum við allt í einu orðin „besta þjóð í heimi“, í merkingunni: Hjartagóð, betri, best.
Flóttamenn! HÚH!
Það var sama hvert maður fór þann vetur, alls staðar varð maður að leiðrétta skakka ímynd. Sárast var að þurfa að viðurkenna það í sjálfri Búdapest að Ungverjar hefðu tekið við fleiri flóttamönnum en Íslendingar.
Flóttamenn? Húh!
„Kæra Eygló“ átakið var sannarlega stórkostlegt, svo langt sem það náði. Það náði bara ekki mjög langt. Það komu engir flóttamenn. Við sem vorum orðin heimsfræg fyrir velvild okkar, náungakærleik og gestrisni, við bara fórum ekki til dyra þegar heimurinn hringdi bjöllunni. Það var ekki fyrr en eftir áramót, eftir að 60 manns voru búin að deyja daglega í hundrað daga, sem við dröttuðumst loks til dyra.
90 flóttamenn! HÚH!
Við björguðum einum og hálfum degi upp úr Miðjarðarhafinu. Æðislegt, Eygló!
„Hvað segirðu? Eruði annars að fara að drukkna?“ – „Jæja, ókei þá, komiði inn.“
Og samt var þetta í fréttum á hverjum degi. Samt sáum við í hverri viku yfirfulla báta sökkva í sæ. Samt sáum við stuttbuxnastrákinn á ströndinni, Aylan sáluga Kurdi, með nefið á kafi í sandinum. Og pabbann sem hljóp inn í Evrópu með barnið sitt í fanginu þegar ungversk sjónvarpskona brá fyrir hann fæti. Og hinn pabbann sem kom alblóðugur upp úr sjónum, á svipinn eins og eini maður sögunnar sem farið hafði til heljar og tekist að snúa þaðan aftur. Þá sömu hel höfum við svo séð þúsund sinnum síðan: Aleppó í loftárásum, Aleppó í sprengjutilræðum, Aleppó í andarslitrunum.
Hvert myndum við sigla ef Ísland yrði óbyggilegt á einni nóttu? Ja, allavega ekki til eyjar eins og þeirrar sem Ísland er nú. Við kæmum að lokuðum dyrum. Strandgæslubát sem stöðvaði för. Útlendingastofnun með útlendingaóþol. Einhverjir fengju kannski inni á Fit Hostel en aðrir yrðu sendir beint í sjóinn aftur, kaffærðir fljótt og vel af fulltrúum lands og þjóðar.
Flóttamenn? HÚH!
Fjarlægðin er engin afsökun. Heimurinn er ekki lengur langt í burtu. Aleppó er jafn oft í stofuglugganum okkar og Esjan sjálf. Ef við tækjum nú bara við jafn mörgu neyðarfólki og nemur öllu því gönguóða velmegunarhyski sem streymir niður af því eðla fjalli hvern dag, fólki sem er til í að fórna tveimur tímum daglega í baráttuna fyrir sléttum maga en má ekki vera að því að lyfta litla fingri til samstöðu með flóttafólki.
Gagnvart flóttamannavandanum er Ísland ársins 2016 upphitað einbýlishús úr steini í móðuharðindunum miðjum, þar sem við sitjum södd og sjúk, og leið og löt, og frek og feit, og slöfrum í okkur stofubráðinn ís eftir kjötmatinn á meðan úti frýs og blæs öskusvört ísmóðan, og þjóðin okkar skríður sitt lokaskrið úti á stæði og deyr sínum hungurdauða úti á tröppum, loppin af kulda og hóstandi lungum. Í haganum liggja hræ af hrossum og handan árinnar dynur máttleysislega í illa ryðguðum líkaböngum. Eitt sinn var Aleppó hér. Við erum bara löngu búin að gleyma því, yfir fréttunum öllum af móðuharðindunum í Mið-Austurlöndum.
Afhverju gerðum við ekki neitt? Afhverju gerum við ekki neitt? Afhverju gerði ég ekkert sjálfur? Afhverju gerði ég ekki eins og Þórunn Ólafsdóttir? Sem gerði eitthvað raunverulegt í málunum. Sem vann mánuðum saman í flóttamannabúðum á Lesbos og víðar. Afhverju erum við svona miklir aumingjar? Afhverju erum við svona vond? Við gátum ekki einu sinni druslast til að kjósa Þórunni mann ársins 2015!
Flóttamenn? Húff!
Meira að segja þeim fáu sem hingað eru þó komnir, í skjól frá byssum og hungri, reynum við að bola burt úr landinu. Í stað þess að vera besta þjóð í heimi erum við með þeim verstu. Viljum við það? Erum við ekki líka að fara að kjósa um það í næstu kosningum? Þjóðverjar tóku við milljón flóttamönnum frá Sýrlandi, Svíar við hundrað þúsund. Fyrrnefnda þjóðin telur 80 milljónir, sú síðarnefnda 10 milljónir. Í samanburðinum hefðum við átt að taka við 3.000–4.000 flóttamönnum. Við höfum ekki einu sinni tekið við 200 manns. Og við sem eigum tuttugu tóma firði sem enginn vill búa í, sem enginn trúir á …
Hafa ekki örugglega allir séð myndbandið af sýrlenska stráknum syngja „Brúnn og bleikur banani / appelsína talandi“? Hann kom hingað í janúar og var farinn að syngja í september. Fallegasta tónlist sem heyrst hefur á Íslandi. Hugsið ykkur að í staðinn fyrir einn syngjandi dreng hefðum við eignast hundrað … fimm hundruð … eitt þúsund? Og eftir tuttugu ár myndum við kannski eignast fjölmenningarlegt landslið í fótbolta …
Flóttamenn? HÚH!
Öfugt við þá sem gala gegn þeim hafa „útlendingar“ ekki gert annað en lyfta undir Íslandið. Samviskan er betri, þjóðin flottari, genin öll í usla, menningarflóran önnur, matarkúltúrinn ríkari. Þetta fólk færir okkur heiminn, sama hvort það stendur og mótmælir stríðinu í Sýrlandi á Ráðhústorginu á Akureyri eða afgreiðir okkur í bankanum. Með þeirra hjálp skiljum við heiminn betur, heimsóttinn hverfur og heimóttarskapurinn með. Landsbyggðin væri auk þess nánast hrunin ef ekki væru Pólverjarnir allir í sjávarplássunum umhverfis landið. Og samt gerum við okkar besta til að láta eins og þetta fólk sé ekki til. Það á sér enga talsmenn, enga fulltrúa, engan flokk. Það heyrist aldrei í því í fjölmiðlum, ja, nema í þýsku gaurunum sem lesa stundum veðurfréttirnar.
Pawel Bartoszek tókst reyndar á dögunum að draga hálfa Viðreisn með sér niður á Austurvöll til að standa þar með pólskum konum og mótmæla kvenfjandsamlegri lagasetningu í heimalandinu. Íslenska yfirstéttin tók sér örlitla stund til að standa með konunum sem þrífa heima hjá henni, konunum sem hún hefur annars aldrei hitt, því það er alltaf best að fara bara í sund á meðan þær þrífa, þessar elskur, og allt greitt í svörtu … „Guð, ég er svo heppin með mína“.
Flóttamenn? Húh.
Í alvöru, Íslendingar. Okkar vandamál eru svo smotterísleg í samanburðinum við það sem dynur á flóttamönnum heimsins: Á flótta, í flóttamannabúðum, biðjandi um hæli, takandi séns á bátsfari, bílfari, flugfari … með börnin og lífið í lúkunum. Minnum okkur á þetta í kosningabaráttunni. Kjósum líka um þetta. Segjum í alvörunni:
Flóttamenn! HÚH!
Sýrland er sár á íslensku þjóðarsálinni. Sátt en ekki salt er málið. Segjum aftur kæra Eygló og meinum það. Segjum líka Kæra Katrín, kæra Oddný, kæri Smári, Kæri Óttarr, kæri Bjarni, kæri Sigurður Ingi og kæri Benedikt. Segjum:
Flóttamenn! HÚH!
Athugasemdir