Skammast hefur verið út í dönsku lögin undanfarna daga og vikur. Megi Danir líka skammast sín. Lögin, sem mæla fyrir um heimild til að gera verðmætar eigur flóttamanna upptækar við komu til Danmerkur, voru samþykkt með miklum meirihluta á danska þinginu. Það er óskandi að þetta verði ekki til eftirbreytni fyrir önnur ríki, nú þegar fjöldi þeirra sem hafa þurft að flýja stríð hefur ekki verið meiri frá því í seinni heimsstyrjöldinni.
Óþægilega staðreyndin í þessu öllu saman er hins vegar sú að Danir eru ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Við Íslendingar eigum nefnilega okkar eigið eignaupptökuákvæði í útlendingalögum. Ákvæðið er að finna í 56. gr. útlendingalaga og hefur það staðið óbreytt allt frá árinu 2004. Það hefur hins vegar farið nokkuð ljúft og leynt bæði hér heima og í alþjóðasamfélaginu. Við megum líklega vera þakklát fyrir það miðað við alvarlega gagnrýni um víða veröld í garð Dana undanfarin misseri, meðal annars frá aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
Nánar tiltekið kveður íslenska ákvæðið á um að haldleggja megi fjármuni í vörslum útlendings upp í kostnað við að flytja viðkomandi, sem þá hefur verið synjað um stöðu flóttamanns, úr landi og gæslu sem kann að þurfa vegna þess.
Hér staldra ég við, enda þykir mér ólíklegt að útlendingar sem flúið hafa bágar aðstæður, alla leið norður til Íslands, hafi mikið á milli handanna. Mér liði hið minnsta betur að vita af því að útlendingar, sem leitað hafa á náðir íslenska ríkisins um vernd en eru gerðir brottrækir héðan af landi, eigi hið minnsta aur fyrir mat og jafnvel húsaskjóli við komu á nýjum stað. Maður skyldi því ætla að ákvæði af þessum toga skuli beitt af ítrustu varfærni og aðeins í algjörum undantekningartilvikum.
Danir eru allavega með þak á sinni upptökuheimild.
En er það svo?
Nei, ekki endilega. Þessi íslenska haldlagningarheimild er nefnilega afar opin og býður upp á að brottrækur hælisleitandi sé fluttur úr landi án þess svo mikið sem að fá að halda eftir nestispening. Í frumvarpi til laga sem bættu þessari íslensku haldlagningarheimild við útlendingalögin segir orðrétt: „Eðlilegt þykir að lögreglu verði […] heimilt að leggja hald á fjármuni til greiðslu fyrrnefndrar kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu. Í þessu felst að ekki er heimilt að leggja hald á alla fjármuni sem finnast í fórum útlendings, fari fjárhæð þeirra fram úr fjárhæð kröfunnar.“
Semsagt, íslenska lagaheimildin kveður á um að lögreglan megi taka bókstaflega alla peninga af hælisleitanda sem hann hefur á sér í aðdraganda brottflutnings. Eigi hann meira af peningum en fyrir farinu og gæslunni, þá má hann náðarsamlegast halda þeim eftir. Hér virðumst við því danskari en Danir, ef svo má að orði komast. Danir eru allavega með þak á sinni upptökuheimild. Finnst okkur þetta kannski mannúðlegri aðferð, að leyfa okkur að taka fjármuni af útlendingum þegar við vísum þeim úr landi fremur en við komu þeirra?
Ég vil leyfa mér að efa að eignaupptökuheimild 56. gr. útlendingalaga sé beitt á þann hátt sem hún býður upp á í dag. Við hljótum hins vegar að vilja fá svör um það hvort og þá hvernig henni sé beitt. Eins, sé litið til framtíðar, tel ég vert að að við gerum það upp við okkur hvort við viljum við hafa möguleika á því að beita þessu ákvæði með jafn víðtækum hætti og það heimilar. Það þarf í raun ekki annað en stefnubreytingu hjá stjórnvöldum í málefnum útlendinga til þess að sá verði raunveruleikinn.
Mér þykir vert að benda á þessa heimild, hvernig svo sem henni er beytt í framkvæmd. Ástæða þess er sú að frumvarp hinnar þverpólitísku þingmannanefndar til nýrra útlendingalaga, sem nú er til umsagnar eftir því sem ég fremst veit, inniheldur íslenska haldlagningarákvæðið óbreytt. Er það virkilega það sem við viljum?
Athugasemdir