Eyjan birtir í dag grein um að „nýir sænskir netmiðlar“ fari þvert gegn „þagnarstefnu hinna hefðbundnu fjölmiðla“ þar í landi þegar kemur að því að birta upplýsingar um uppruna og kynþátt fólks sem grunað er um glæpi. Í greininni er fjallað um morðin á tveimur einstaklingum í Ikea-verslun í Västerås fyrr í mánuðinum og hvernig „nýju sænsku netmiðlarnir“ höfðu úrslitaáhrif á að „hefðbundnu fjölmiðlarnir“ sögðu frá því á endanum að mennirnir tveir sem grunaðir væru um morðin væru hælisleitendur frá Erítreu. Eftir að þær upplýsingar komu fram greip um sig ótti um að aðrir hælisleitendur kynnu að verða fyrir ofbeldi í hefndarskyni.
Eyjan segir að netmiðlarnir sem um ræðir, Avpixlat, Fria Tider og Exponerat, séu „opinberlega óháðir stjórnmálaflokkum“ en „styðji Svíþjóðardemókratana leynt og ljóst“. Svíþjóðardemókratarnir eru þjóðernissinnaður stjórnmálaflokkur sem áður fyrr var andsemítískur nasistaflokkur en sem komið hefur sér upp mýkri ásýnd; stærsta baráttumál flokksins er að berjast gegn frekari innflutningi innflytjenda, hælisleitenda og flóttamanna til Svíþjóðar. Flokkurinn mælist nú með á milli 18 og 25 prósenta fylgi í skoðanakönnunum.
„Ég hvet þá til dáða en svo gera þeir það sem þeir vilja.“
Ansi langt er hins vegar síðan að sænskir fjölmiðlar sýndu fram á að Avpixlat er stýrt af Svíþjóðardemókrötunum á bak við tjöldin. Einn af þingmönnum Svíþjóðardemókrata, Kent Ekeroth, hefur meira að segja viðurkennt í samtali við sænska blaðið Dagens Nyheter að hann sé í reglulegu tölvupóstsambandi við ritstjórn Avpixlat og gauki að þeim hugmyndum um hvað þeir eigi að skrifa um þó hann neiti því að stýra innihaldinu. „Ég hvet þá til dáða en svo gera þeir það sem þeir vilja.“ Dagens Nyheter hafði þá komist yfir tölvupósta frá Ekeroth til Axpixlat þar sem hann skrifaði meðal annars til ritstjórnarinnar: „Svona nú áfram með þetta - gerið síðuna áhugaverða og lifandi“ og „Hlaðið þessu Youtube-myndbandi inn á síðuna“.
Dagens Nyheter greindi svo frá því síðar á árinu 2013 að Ekeroth stýrði bankareikningi sem fólk gat lagt inn á til að styðja Avpixlat. Ekeroth gekk svo sjálfur í þessa fjármuni. Sænski skatturinn komst að þeirri niðurstöðu að Ekeroth ætti sjálfur og persónulega að greiða skatt af þessum peningum. Ekeroth lenti svo aftur í vandræðum í byrjun árs 2015 eftir að hafa haldið áfram að taka peninga út úr fyrirtæki sem stofnað var utan um rekstur Avpixlat sem heitir „Stofnunin um sænska hagsmuni“ en sá lögaðili var meðal annars stofnaður til að Ekeroth lenti ekki í vandræðum út af skattgreiðslum af stuðningsfé Axpixlat. Þar að auki sótti Ekeroth í fyrra um einkaleyfi á vörumerkinu „Avpixlat“. Út frá öllum þessum upplýsingum er ljóst að minnsta kosti einn af þingmönnum Svíþjóðardemókratanna stýrir Avpixlat, bæði fjárhagslega og eins efnislega.
Taktíkin hjá Svíþjóðardemókrötum er ekkert sérstaklega flókin: Þeir nota síður eins og Avpixlat til að segja hluti um innflytjendur, múslima, fólk frá Austur-Evrópu sem betlar í Svíþjóð og tengd mál sem þeir sjálfir vilja ekki segja opinberlega af því flokkurinn veit að þeir munu glata miklu fylgi af þeir sýna sitt rétta rasíska andlit. Svíþjóðardemókratarnir munu eiga í meiri erfiðleikum með að fá til sína kjósendur frá öðrum flokkum eins og Kristilegum demókrötum, Moderatarna og Sósíaldemókrötum ef þeir taka formlega upp stefnu sem byggir á kynþáttahyggju og rasisma eða standa opinberlega fyrir sjónarmiðum sem byggja á slíkum hugmyndum. Rasisminn og áróðurinn sem síður eins og Avpixlat ýta undir þjónar hins vegar hagsmunum Svíþjóðardemókratanna og er vatn á myllu flokksins því þeir sem taka undir þau rasísku sjónarmið sem þar koma fram eru líklegri til að taka undir stefnu Svíþjóðardemókratanna í innflytjendamálum og þá kjósa flokkinn.
„Held að móðirin og sonur hennar sem myrt voru í Ikea myndu ekki taka undir með fyrrum forsætisráðherranum“
Raunar missa sumir þingmenn og aðstandendur flokksins sig stundum í umræðunni og segja hluti sem þeir ættu kannski ekki að segja flokksins vegna. Þannig tvítaði einn af þingmönnum flokksins og fyrrverandi ritari hans, Björn Söder, um morðin í Ikea. „Held að móðirin og sonur hennar sem myrt voru í Ikea myndu ekki taka undir með fyrrum forsætisráðherranum ...“. Með ummælunum vísaði Söder til þekktra orða Fredricks Reinfeldts, fyrrverandi forsætirsráðherra Svíþjóðar, sem sagði í aðdraganda þingkosninganna í fyrra að Svíar ættu að „opna hjörtu sín“ og halda áfram sömu stefnu í innflytjendamálum og gefa heldur í. Þannig kenndi Söder innflytjendastefnu sænskra yfirvalda að hluta til um morðin. Á slíkum stundum má segja að rétt andlit Svíþjóðardemókratanna komi fram þó öfgafyllstu sjónarmiðin séu yfirleitt birt á síðum eins og Avpixlat.
Að stilla Avpixlat upp sem einhverjum póltískt óháðum fjölmiðli í sannleiksleit er því vægast sagt villandi. Þetta er bara áróðursmiðill sem öfgasinnaður stjórnmálaflokkur í Svíþjóð notar í pólitískum tilgangi til að snúa umræðunni sér í hag með því að láta birtast þar upplýsingar sem flokkurinn sjálfur þorir ekki standa fyrir af ótta við að tapa kjósendum. Markmiðið er að ýta undir rasisma og fordóma í sænsku samfélagi með því að koma áróðri sem þjónar Svíþjóðardemókrötum út í samfélagsumræðuna.
„Af hverju Eyjan kýs að stilla þessu svona upp veit ég ekki“
Sú spurning sem Eyjan veltir upp - hvænær eigi að greina frá uppruna og kynþætti fólks sem grunað er um glæpi - verður að skoða í því samhengi sem greinin er skrifuð í. Skilja má inntak greinarinnar þannig að þessir „pólitísku óháðu nýju miðlar“ séu að breyta fjölmiðlalandslaginu í Svíþjóð til hins betra á forsendum sannleikans eða einhverra grunngilda í blaðamennsku frekar en að ýta undir fordóma og kynþátttahyggju beint eða óbeint fyrir hönd tiltekins stjórnmálaafls.
Sjálfur held ég að óþarfi sé og rangt í flestum tilfellum að tilgreina uppruna og kynþátt fólks sem grunað er um meinta glæpi nema að það hafi einhverja þýðingu fyrir inntaks þess máls sem um ræðir. Sú meginregla hefur verið við lýði í sænskri blaðamennsku í áratugi og er henni yfirleitt fylgt á Íslandi líka. Uppruni hælisleitandans sem framdi morðin í Ikea skipti máli efnislega á endanum í ljósi samhengisins þegar í ljós kom að hann hafði fengið þau tíðindi fyrr um daginn að hann þyrfti að yfirgefa Svíþjóð og fengi því ekki að búa í landinu. Sú staðreynd hefur hins vegar ekkert með Avpixlat eða innflytjendastefnuna í Svíþjóð að gera heldur er bara hún bara eitt púsl í upplýsingum um harmleik. Avpixlat og Svíþjóðardemókratarnir - samanber orð Björn Söder - vilja hins vegar að Svíar dragi aðrar ályktanir.
Af hverju Eyjan kýs að stilla þessu svona upp veit ég ekki því mjög auðvelt er að finna upplýsingar um tengsl Avpixlat og Svíþjóðardemókrata á netinu.
Kannski munum við á Íslandi sjá þjóðernissinnaðri stjórnmálaflokka landsins reyna að höfða til fordóma, útlendingahaturs og annarra lágra hvata kjósenda fyrir næstu þingkosningar með sams konar „krókaleiðum“ og Svíþjóðardemókratarnir gera: Í gegnum „ópólitíska“ áróðursmiðla sem þó er stýrt af aðstandendum viðkomandi flokks, eða jafnvel þingmönnum þeirra, og sem jafnvel eru fjármagnaðir af sömu aðilum.
Athugasemdir