Lygilegur vöxtur í ferðaþjónustu hér á liðnum árum á sér margar hliðar. Við njótum samskipta við ánægða gesti, viðskipti blómstra og mannlífið er líflegra en áður. Staðir sem áður voru nánast dauðir utan annatíma iða nú af lífi eins og miðbær Reykjavíkur og fjöldi annarra staða eru í mikilli uppsveiflu. Sumir býsnast yfir þessu „ástandi“ á meðan aðrir fagna. Ég tel mig í síðarnefnda hópnum.
Þeir bæir og sveitafélög sem ekki njóta þessa, reyna að finna leiðir til að laða til sín aukinn fjölda ferðamanna, vonandi með góðum árangri í nánustu framtíð.
Staðir sem voru dauðir níu mánuði á ári, iða nú af mannlífi næstum allt árið um kring og það jafnvel í verstu veðrum og staðir í jaðri byggðar eru nú krökkir af ferðamönnum alla daga, allt árið um kring.
Reynt að stytta sér leið
Tekjur ríkissjóðs aukast við þetta eins og tekjur fjölmargra innan greinarinnar og í greinina þyrpist nú fólk sem hefur starfað við annað árum saman en sér þarna kærkomið tækifæri til að skipta um starfsvettvang og vinna við ferðaþjónustuna í bland við önnur störf (þar með talinn greinarhöfundur). Megnið af innkomunni er löglega talin fram til skatts, en síðan eru aðilar sem aldrei gefa neitt upp og vinna allt sitt svart og einnig er til það sem við skulum kalla „eðlilegar svartar greiðslur“. Þá á ég til dæmis við þjórfé til starfsfólks í greininni, sem það fær fyrir framúrskarandi þjónustu og dugnað. Þær greiðslur geta skipt máli og einstaka aðilar eru í þeirri stöðu að geta tekið inn þó nokkrar upphæðir í því formi.
Vissulega spretta fram aðilar sem vilja taka þátt í velgengninni þegar markaðurinn þenst út, enda geta þau fyrirtæki sem fyrir voru vart náð því að vaxa í takt við vaxandi fjölda ferðamanna. Því er nægilegt rými fyrir nýja aðila til að koma inn á markaðinn á meðan þau fyrirtæki sem fyrir voru anna ekki eftirspurninni eða ná ekki að vaxa í takt við aukna eftirspurn. Flestir þeirra gera það af einstökum metnaði á allan hátt en aðrir reyna að stytta sér leið til að ná sem fyrst inn sem allra mestri veltu og um leið framlegð, sem leiðir af sér hagnað. Nú er því tími tækifæra sem metnaðarfullir og hugmyndaríkir aðilar vilja auðvitað nýta sér. Kaupendur þjónustunnar eru nægir og viljinn mikill, en getan eða kunnáttan kannski ekki í takt við það.
Ótal afþreyinga- og ferðafyrirtæki hafa verið stofnsett. Sum hver af ótrúlegri fagmennsku og metnaði, á meðan innan um eru aðilar sem reyna að mjólka kúna eins og hægt er.
Þeir sem reyna að mjólka kúna
Í þessari grein ætla ég meðal annars að fjalla um fyrirtæki í ferðaþjónustunni af því tagi.
Það eru ekki nema tvö ár síðan ég steig öðrum fæti inn í starfsgreinina með því að hefja störf hjá einu af eldri fjallaferðafyrirtækjunum. Fyrirtæki stofnað 1994, sem ekki þykir hár aldur fyrirtækis en er í dag það elsta á þessu sviði og með mesta umfangið. Sem dæmi um vöxtinn má nefna að á fyrsta ári þess þótti gott að fá 7 gesti á dag. Í dag geta farþegarnir verið hundruðir í stuttum jöklagöngum á góðum dögum og allt að 40 leiðsögumenn eru að störfum við að sinna þessum stóra hópi.
Um þetta er bara gott eitt að segja á meðan vel er haldið utan um málin og farþegarnir njóta góðrar þjónustu þess, eins og nokkurra annarra ámóta fyrirtækja á sama markaði.
Mörg fyrirtæki í greininni leggja einnig mikinn metnað í þjálfun starfsfólks, öryggisstaðla og viðbragðsáætlanir. Vakinn, sem er gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, er leiðarljós þessara fyrirtækja við skipulagningu um öryggisviðmið í ferðum þeirra. Flest metnaðarfyllstu fyrirtækin innan ferðaþjónustunnar eru þátttakendur í Vakanum og hópur fyrirtækja og félaga er í úttektarferli til að uppfylla skilyrði til þess að verða þar fullgild.
Mismunandi áherslur eru á hvaða búnaður sé nauðsynlegur, en viss grundvallarbúnaður er alltaf til staðar fyrir farþegana.
Að fyrirtæki sé fullgilt innan Vakans er viss gæðastimpill og vottun þess að fyrirtækið starfi samkvæmt öryggisstuðlum og setji velferð viðskiptavina sinna í öndvegi. Aðeins eitt fyrirtæki í jöklaferðum hefur verið vottað af Vakanum en þrjú önnur eru í ferli og munu vonandi hljóta sína vottun innan skamms. Einnig hefur Ferðamálastofa gefið út „Leiðbeinandi reglur um öryggismál ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa“.
Hér höfum við því næg viðmið til að öryggi okkar verðmætu farþega sé sem allra mest, sem auðvitað er sjálfsagt þar sem greinin er viðkvæm og má ekki við áföllum vegna nokkurs konar vanrækslu.
Því hafa ábyrg ferðaþjónstufyrirtæki sammælst um viðmið varðandi öryggi sem eiga að duga til að menn viti hvað óhætt sé að gera. Þá er skynsemi nauðsynleg viðbót til að hlutirnir séu í lagi.
Það hvorki þarf, né er hægt að lögfesta skynsemi, menn verða að finna hana hjá sér sjálfir ætli þeir sér að teljast hæfir og skapa sér traust innan greinarinnar.
Nú er ég þá að koma að kjarna málsins, en það eru þau fyrirtæki í ferðþjónustu sem hunsa allar sjálfsagðar öryggisráðstafnir í fjölda ferða þrátt fyrir að allt líti vel út á yfirborðinu. Þessi fyrirtæki eru yfirleitt með góða og vandaða bíla og veita góða þjónustu. Jafnvel eru góðir ökuleiðsögumenn í þjónustu þeirra og öruggir bílstjórar sjá um aksturinn.
Tilefni þess að ég ákvað að tjá mig um þessi mál er sú hætta sem allt of mörg þessara fyrirtækja eru að stefna viðskiptavinum sínum í með algjörlega óundirbúnum jöklaferðum.
Hvað þarf til að tryggja öryggið?
Á jöklunum starfa sérþjálfaðir jöklaleiðsögumenn. Röskur hópur fólks sem hefur farið í gegnum margháttaða þjálfun. Stór hluti þeirra á sinn uppruna úr björgunarsveitunum og hefur í framhaldi af því leitað í þetta starf.
Jöklaleiðsögumenn fara með misstóra hópa á jöklana og þurfa að hafa góða yfirsýn yfir hópinn, hegðun hans, getu og hvort fólk sé farið að þreytast.
Jöklaleiðsögumaðurinn ber með sér allan búnað til að bjarga gestum sem hugsanlega gætu fallið niður í sprungur, svelgi eða lægðir í jöklinum og verja þeir miklum tíma í þjálfun slíkra aðgerða.
Jöklaleiðsögumaðurinn þjálfar sig í leiðavali og að meta hvar óhætt er að fara með hópa óvans fólks. Síðast en ekki síst eru jöklaleiðsögumennirnir vel þjálfaðir í skyndihjálp og halda oft æfingar á jöklunum með miklum viðbúnaði til þess eins að vera til taks ef eitthvað færi úrskeiðs. Gæfa okkar er síðan sú að sjaldan fer eitthvað úrskeiðis vegna góðrar þjálfurnar þessa hóps. Stórum hluta ferða er meðal annars aflýst ef talið er að aðstæður séu ekki öruggar á jöklinum. Það gerist einna helst ef útlit er fyrir of mikinn vindstyrk eða úrkomu. Þar eru viðmið sem fylgt er eftir að festu. Allt að 30% jöklagönguferða var meðal annars aflýst af þessum ástæðum hörðustu mánuðina seinasta vetur.
Í fótspor ábyrgra fyrirtækja koma svo aðrir.
Á hættusvæði án búnaðar eða þjálfunar
Þegar ég hóf störf, tók ég fljótt eftir því að á jöklinum voru aðrir en starfsmenn og farþegar jöklaferðafyrirtækja. Einstaklingar sem halda á jöklana, eru rétt búnir og með þekkingu á fjallamennsku er hópur sem litlar áhyggjur þarf að hafa af. Það eru oftast fjalla- eða björgunarsveitamenn að æfa sig í þeim undraheimi sem jökullinn er og einstaka erlendir ferðamenn koma einnig rétt búnir. Daglega álpast samt vanbúnir ferðamenn upp á jökulinn. Eflaust muna sumir eftir dauðsfalli sem varð á Sólheimajökli haustið 2011 þegar vanbúinn sænskur ljósmyndari fór einn upp á jökulinn, festist þar í grunnri sprungu og fannst látinn á fjórða degi. Eitthvað þessu líkt viljum við ekki sjá henda aftur og reynum við því að fá fólk af þessu tagi til að snúa við með vinsamlegum ábendingum. Sjálfur segi ég söguna af Svíanum ef fólk hlustar ekki á fyrstu tilmæli, en nánast allir ákveða að fara niður eftir að hafa heyrt hana. Sumir hverjir koma svo næsta dag, búnir að kaupa sér ferð og eru bæði þakklátir og ánægðir, bæði með viðvörunina og ferðina. Þetta kallast ábyrgir ferðamenn.
En eitt það alvarlegasta við þessa hópa fólks sem ekki fara þar um af öryggi er þegar að jöklunum koma hópar frá íslenskum (eða erlendum) ferðafyrirtækjum og halda beint inn á hættusvæði jöklanna án nokkurs búnaðar eða þjálfunar fararstjóra. Fyrirtækin eru miskræf á þessu sviði en nokkrir skera sig úr. Sé reynt að ræða við þessa aðila bregðast þeir við af heift og hörku. Einn sem gerir út „töfrandi ferðir“ og fer reglulega með hópa á Sólheimajökul og íshella Breiðamerkurjökuls er orðinn orðlagður fyrir heiftina og þverskallast áfram við að gera út sínar ferðir með litlum sem engum búnaði. Ef búnaðurinn er með, er hann að miklu leyti rangur. Hér má til dæmis sjá mynd af heimasíðu fyrirtækisins sem sýnir á flestan hátt, allt rangt í jöklaferð. Þetta er aðeins einn þessar aðila. Jeppaferðafyrirtæki hafa keypt sk. „keðjubrodda“ sem eru algjörlega óviðunandi í jöklaferðum á sína farþega. Hópar frá þeim fyrirtækjum hafa sést með hjálma og á keðjubroddum, án ísaxa inni á varasömum svæðum jökla og leiðsögumaðurinn er auðvitað án alls öryggisbúnaðar.
Með ferðamenn á sprungusvæði
Eitt fyrirtæki sker sig þó úr og selur „ferðir með leiðsögn um Ísland“. Flott heimasíða, mikið ferðaúrval, fínir bílar. Reglulega hef ég fylgst með bílum þessa fyrirtækis koma að Sólheimajökli og út töltir roskinn leiðsögumaður og heldur með hópinn inn að jökli. Stansar þar í smá stund og síðan er gengið upp á jökulröndina. Mislangt farið eftir aðstæðum. Eftir fannfergi nýlega fór hann beint yfir svæði sem hæfir leiðsögumenn höfðu sneitt hjá, því þar undir voru nokkrir svelgir og sprungur sem þeir síður vildu kynnast betur. En viðvaningurinn fór yfir. Fylgst var með honum fara nokkur hundruð metra inn á jökulinn. Þetta er ekki eina fyrirtækið sem svona hegðar sér og stefnir farþegum sínum í bráða hættu um leið. Nokkrum dögum seinna var ég þarna á ferð og náði að mynda sama leiðsögumann þegar hann gekk upp jökulinn. Hann brást ókvæða við þar sem hann vissi upp á sig skömmina og æddi að mér með formælingum og skömmum.
Öryggi farþega hans jókst síður við það og álit fyrirtækisins hrundi endanlega í mínum huga. Farþegar mínir göptu af undrun og spurðu „hvort leiðsögumenn mættu vera ölvaðir í starfi?“. Hér gæti ég talið upp lista fyrirtækja sem stunda þetta. Glöggir og þeir sem til þekkja vita kannski hverja ég átti við hér að ofan. Nú á milli jóla og nýárs mætti aðili með tíu manna hóp á hálkubroddum á jökulinn. Í hópnum voru smábörn, en hjá fyrirtækjum sem starfa af fagmennsku er yngri en 10 ára börnum helst ekki hleypt með á jökul. Eitt það merkilega er að nánast öll þessi fyrirtæki sem þetta stunda eru ekki í Vakanum. Hvorki vottuð né í ferli til að fá þessa gæðavottun. Nokkuð sem segir kannski eitthvað til um metnaðinn þar?
Leiðsögumaður villtist á jöklinum
Einnig eru fyrirtæki með útgerð á jöklana sem eru í matsferli hjá Vakanum, en eru með vanþjálfaða leiðsögumenn og ófullnægjandi búnað. Í haust villtist leiðsögumaður eins slíks fyrirtækis á Sólheimajökli. Nokkuð sem á einfaldlega ekki að gerast og sýnir að eitthvað er að í þjálfun og öryggisreglum á þeim bæ.
Það að fyrirtæki skuli bjóða farþegum sínum upp á ferðir sem þessar, finnst mér fyllilega jafnast á við að aka farþegum á óöruggum, ótryggðum bílum af próflausum bílstjórum. Því mega þau reikna með, að þar sem öryggisviðmið eru nú þegar til staðar, gætu þau fengið á sig óbærilegar skaðabótakröfur frá farþegum ef slys yrði. Tryggingafélög myndu að öllum líkindum vera laus við sína ábyrgð, þar sem fyrirtækið fór ekki eftir gildandi viðmiðum. Slíkar bótakröfur yrðu vel flestum fyritækjum um megn að standa undir. Eru menn virkilega svona grunnhyggnir að stunda svona ferðamennsku í einhverju stundarbrjálæði til að standast samkeppnina í greininni? Ég hef reynt að fá svör en ekki fengið.
Fyrirtæki dæmt vegna slyss í áhættuferð
Fyrir nokkrum árum féll dómur gegn fyrirtæki í ferðþjónustu eftir að starfsmaður þess slasaðist alvarlega í áhættuferð um árgljúfur. Þó svo að þarna hafi verið um skemmtiferð starfsmanna að ræða, var fyrirtækið engu að síður gert ábyrgt. Hér er því ákveðið dómafordæmi sem ég tel að skynsamir ferðaskipuleggjendur ættu að hafa í huga.
Hér tel ég að þessi metnaðarlitlu fyrirtæki séu á vissan hátt að gera út á vissu sína um að á jöklunum séu fagmenn sem bjarga málunum ef eitthvað ber út af. En á það má minna að jöklaleiðsögumenn þyrftu fyrst að koma sínum hópi niður af jöklinum, áður en þeir gætu sinnt einhverjum öðrum. Því gæti biðin í þröngri, ískaldri sprungunni orðið lengri en búist var við.
Sýna hve hættulegur jökullinn er
Algengt viðkvæði þeirra sem fara óbúnir á jökla er „að þeir ætli bara stutt“. En strax við jökuljaðrana eru hættusvæði. Jafnvel utan jaðarsins þar sem enn eru bráðnandi ísjakar og hvörf. Einn þessara leiðsögumanna sagði í umræðu að hann færi með farþegana upp á jökul „til að sýna þeim hve hættulegur jökullinn væri“. Ég spurði hann hvort hann færi þá ekki að synda í sjónum hjá Reynisfjöru til að sýna hve hættulegt það væri eða tæki hlaupaferðir eftir bjargbrúnum Dyrhólaeyjar? Það var lítið um svör.
Hætt er við að þessir aðilar, sem starfa við leiðsögn en fara vanbúnir á jökla eða aðra staði sem krefjast sérþekkingar og búnaðar, lokki óafvitandi aðra ferðamenn sem ferðast á eigin vegum á sömu staði. Ferðamenn sem fylgja þeim í bestu trú á a' þar sé óhætt að fara fyrst „fagmenn“ í ferðaþjónustu geri það. Ábyrgð þessara aðila sem gera út á slíka staði er enn meiri fyrir vikið.
Ferðamenn á hættulegum svæðum
Jöklaleiðsögumenn þurfa iðulega að biðja vanbúið fólk um að hætta að elta sína hópa. Ég efast um að ofangreindir leiðsögumenn hafi þá ábyrgðartilfinningu.
Margsinnis hef ég séð staka ferðamenn ganga yfir stórvarhugaverð svæði. Oftast utan kallfæris og það eina sem maður getur gert er að krossa fingur og vona það besta.
Vissulega eru jöklarnir töfraheimur, en um þá þarf að fara af fyllstu varúð og kunnáttu svo þeir megi teljast öruggir. Fagmaður í nánd, þýðir ekki að vanbúin ferð annarra sé örugg.
Túrisminn hefur breyst
Ferðaþjónusta er ung og viðkvæm starfsgrein hér á Íslandi. Starfsgrein sem má við fáum áföllum og við hljótum öll að gera okkur ljóst að eitt slys af völdum þessara aðila gæti kippt fótunum undan stórum hluta íslenskrar ferðaþjónustu. Allavega valdið miklum skaða á trausti, sem langan tíma tæki að byggja upp aftur. Fúsk og ábyrgðarleysi á ekki að viðgangast. Ef það spyrst að ferðamenn séu ekki öruggir hér vegna viðvaninga, held ég að slíkt væri ávísun á hrun. Starfsgrein sem þessi mætti ekki við slíku og því verða aðilar sem þessir að taka sér tak og fara að starfa af þeirri ábyrgð sem ætlast er til. Hugsanlega er orðin þörf á að setja það skilyrði að fyrirtæki séu þátttakendur í Vakanum til að fá að fara inn á viss svæði?
Í framhaldi af þessu þurfum við líka að skoða hvert við stefnum. Samsetning ferðamanna hefur breyst á liðnum árum í kjölfar aukins massatúrisma. Meira er um ferðamenn sem koma lítið undirbúnir þar sem ákvörðunin um Íslandsferðina er oft tekin með skemmri fyrirvara og jafnvel keypt að lítt athuguðu máli á tilboðsverði. Jafnvel eru ferðamenn að þyrpast hingað á „off season“. Komnir á leigðan smábíl á afskektar heiðar um hávetur í aðstæður sem þeir hafa aldrei kynnst áður. Hér áður komu til landsins ferðamenn sem voru búnir að grúska í öllu áður og vissu hvað þeir voru að ganga út í, öfugt við ferðamanninn sem berst um á risavöxnum húsbíl í febrúarfárviðri undir Eyjafjöllum. Hverjum datt í hug að leigja bílinn út í þessum aðstæðum?
Traustið mun hrynja
Hvenær hrynur trúverðugleiki ferðaþjónstunnar? Hvað þurfa mörg slys að eiga sér stað vegna gullæðisgræðgi hérlendra ferðaþjónustuaðila til að Ísland fái á sig þann óafmáanlega stimpil til hingað sé ekki öruggt að koma? Erum við að bíða eftir nýju hruni? Mikilvægi ferðaþjónustu er orðið það mikið í íslensku efnahagslífi, að ef hrun yrði í greininni, myndi slíkt bitna á samfélaginu öllu.
Oft heyrast þær raddir að fjölga þurfi tilmæla- og bannskiltum. Slíkt getur verið mjög tvíeggjað, því að ef af stað er farið getur ábyrgðin snúist við og aðilar sem fara sér að voða á ómerktum stöðum, geta varpað ábyrgðinni yfir á þau yfirvöld sem þeir telja að hefðu átt að skiltavæða staðinn.
En engu að síður þarf að fjölga skiltum, en förum varlega í þá þróun. Slík skilti þyrftu að vera blanda bæða fróðleiks og viðvörunar.
Fara hamförum í umræðunni
Ég vona að með þessari grein átti viðkomandi aðilar sig á alvöru málsins og óskandi er að frekari umræða fari af stað. Á öðrum miðli var reynt að fara af stað með þessa umfjöllun, en þeir aðilar sem vissu upp á sig skömmina fóru hamförum í umræðunni. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem stunda þessar vanhugsuðu jöklaferðir birtu heiftúðuga pistla, reyndu að grafa undan mönnum í störfum þeirra með persónuníði og kröfðust ritskoðunar, sem þeir svo náðu fram. En eftir situr skömmin, þeir þurfa að ljúka við að hreinsa af sér slyðruorðið og breyta sinni stefnu áður en stórslys verður allri starfsgreininni til skaða.
Eflaust viðgengst ámóta fúsk í fleiri afþreyingargreinum ferðamennskunnar. Alls kyns hestaleigur með misgóð öryggisviðmið, siglingafyrirtæki, jeppaferðir og margt fleira mætti telja.
Allir aðilar þurfa að vera þess meðvitaðir að allir þurfa að gera allt rétt, alltaf. Enda er auðvelt að leita til annarra og hæfari um framkvæmd einstakra þátta í ferðum, sem er reyndar mjög mikið um hjá ábyrgum fyrirtækjum. Til dæmis að fá hæfan jöklaleiðsögumann til að fara með hóp af öryggi.
Svartir sauðir stefna greininni í hættu
Vissulega eru flest fyrirtæki að gera allt rétt. Það eru bara nokkrir (en þó of margir) svartir sauðir til í að stefna heill greinarinnar í hættu.
Það er annarra fyrirtækja að benda slíkum aðilum á að slíkt muni ekki líðast.
Allsherjar viðhorfsbreytingar er þörf.
Starfsgrein sem er orðin sú mikilvægasta í landinu en er á margan hátt stjórnlaus og nánast algjörlega hunsuð af stjórnvöldum sem þverskallast við að leggja til brotabrot af þeim fjármunum sem greinin aflar til að styrkja innviði ferðaþjónustunnar með brýnum úrbótum á aðstöðu og samgöngum.
Greinina þarf ekki að skattleggja frekar né búa til nýja skatta og álög á hana. Framlegðin er það mikil til samfélagsins að stjórnvöld eru komin í stóra skuld varðandi framlög til uppbyggingar þeirrar uppsprettu auðs sem ferðaþjónustan er orðin í dag.
Athugasemdir