Almannahagsmunir. Réttsýnt og fallegt hugtak sem lýsir rétti okkar allra til að lifa óáreitt í öruggu samfélagi. Til að tryggja þessa hagsmuni höfum við ýmis lagaúrræði, til dæmis gæsluvarðhald. Því má beita til að taka einstaklinga, sem liggja undir grun um alvarleg afbrot, til gæslu yfirvalda á meðan á rannsókn máls stendur. Þetta á sérstaklega við ef möguleiki er fyrir hendi að þeir skaði annað fólk eða hagsmuni rannsóknarinnar með því að afmá sönnunargögn eða yfirgefa landið, svo dæmi séu nefnd. Í slíkum tilfellum má úrskurða þá í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála og halda þeim þar uns endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp yfir þeim í Hæstarétti.
„Þegar hann greip til axarinnar var nú þegar búið að dæma hann sekan í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfelldar líkamsárásir.“
Þrátt fyrir það eru til dæmi um óskiljanlega linkind af hálfu íslenskra yfirvalda til að beita gæsluvarðhaldsúrræðinu gegn grunuðum kynferðisbrotamönnum. Mál hinna svokölluðu Hlíðanauðgara er dæmi um slíkt, en þegar þetta er ritað ganga þeir lausir þrátt fyrir að ríkir almannahagsmunir séu fyrir að þeir sæti gæslu yfirvalda. Fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur fyrir samfélagið, ekki bara vegna þess að það grefur undan öryggi og vellíðan almennra borgara, heldur má beinlínis rekja morð og nauðganir til ákvarðana íslenskra yfirvalda um að hneppa kynferðisbrotamenn ekki í gæsluvarðhald. Þannig má nefna hinn svokallaða kjötaxarmann, sem hlaut í tvígang fimm ára dóma fyrir nauðgun þann 11. október 2006 og 19. júní 2007. Brotaþolinn í seinna málinu var þakin stórum marblettum um allan líkamann auk lína og rispa eftir kjötexi og búrhníf sem maðurinn misþyrmdi henni með. Þegar hann greip til axarinnar var nú þegar búið að dæma hann sekan í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfelldar líkamsárásir á tvær konur og hrottalega nauðgun á annarri þeirra. Þriðju konunni hefði auðveldlega mátt bjarga ef maðurinn hefði setið í gæsluvarðhaldi. Þjáningar hennar skrifast á reikning íslenskra yfirvalda. Ekki nóg með að maðurinn var frjáls ferða sinna, heldur var einni þeirra kvenna sem kærðu hann synjað um nálgunarbann. Maðurinn var sem sagt hvorki talinn hættulegur samfélaginu, né þeim sem hann gekk í skrokk á.
Því miður er þetta ekki einsdæmi og enn síður alvarlegasta tilvikið. Þann 6. mars árið 2000 kærði stúlka nokkur fyrrum sambýlismann sinn fyrir nauðgun. Í málavöxtum dómsins segir frá því hvernig sakborningurinn gortaði sig af því að hafa nauðgað kærustu sinni og tekið verknaðinn upp á myndband. Lögregla lagði hald á umrætt myndband samdægurs. Í dómi segir að „efni myndbandsins samræmdist vitnisburði brotaþolans við rannsókn og meðferð málsins, en hún bar að ákærði hefði þröngvað henni til kynferðismakanna og tekið þau upp á myndband til að geta notað gegn henni síðar.“ Það verður að teljast til tíðinda að jafn haldbærar sannanir og myndbandsupptaka liggi til grundvallar í nauðgunarmáli. Þó var ofbeldismaðurinn ekki hnepptur í gæsluvarðhald. Ekki einu sinni þótt tvö vitni segðu í skýrslutökum lögreglu frá því að sakborningurinn hefði hótað að drepa vinkonu brotaþolans, sem var eitt af lykilvitnum málsins. Ofbeldismaðurinn, sem var frjáls ferða sinna, braust inn til vinkonunnar þremur vikum síðar og myrti hana með því að stinga hana 28 sinnum með hnífi. Hér er á ferðinni annað dæmi um konu sem hefði verið bjargað ef maður, sem lá undir grun um nauðgun, hefði verið hnepptur í gæsluvarðhald. Morð hennar skrifast á reikning íslenskra yfirvalda.
„Ofbeldismaðurinn, sem var frjáls ferða sinna, braust inn til vinkonunnar þremur vikum síðar og myrti hana með því að stinga hana 28 sinnum með hnífi.“
Vanvirðing við kynfrelsi annarrar manneskju er vanvirðing við lífið sjálft. Hættuna sem stafar af slíku fólki ber síst af öllu að vanmeta, líkt og sagan sannar. Á meðan yfirvöld draga lappirnar með að setja grunaða kynferðisbrotamenn í gæsluvarðhald er í raun verið að hneppa konur, sem vilja ekki að þeir ráðist á sig, í „gæsluvarðhald“ heima hjá sér. Það er með öllu óásættanlegt. Almannahagsmunir eiga ekki bara að vera fallegt hugtak, þeir eiga að vera forgangsmál í lýðræðisþjóðfélagi sem metur öryggi fólks – karla sem kvenna – ofar öllu öðru.
Athugasemdir