Margir hafa spurt hvort Íslendingar séu komnir á sama stað og þeir voru fyrir hrunið haustið 2008 og eiga þá við hvort samhliða bættri efnislegri afkomu hafi græðgi aftur orðið ríkjandi í samfélaginu, samhliða skeytingarleysi um margvísleg gildi og ofuráherslu á efnisleg gæði á kostnað annars konar gæða. Ég get ekki lagt mat á þetta þar sem ég veit ekki hversu útbreiddir þessi lestir eru þótt þeir séu vissulega áberandi. Hins vegar getum við spurt hvort Íslendingar sem þjóð hafi lært af hruninu og þá einkum hvort lýðræðið í landinu sé sterkara en áður. Í lokaorðum Rannsóknarskýrslu Alþingis, kaflanum um siðferði, segir orðrétt:
Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum að beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins. (Vilhjálmur Árnason , Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir, 2010, bls. 243).
„Kannski er góðæri bara tími þar sem efnisleg gæði eru umfram meðallag og kemur siðferðilegu lífi þjóðar ekkert við.“
Ef við berum saman tímann nú og fyrir hrun, þá mætti spyrja hvort lýðræðislegir innviðir samfélagsins séu traustari, hvort skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna séu betri og hvort okkur takist að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum af meiri einhug. Svarið við öllum þessum spurningum er held ég nokkuð skýrt: „Nei.“ Lýðræðislegir innviðir hafa ekki verið ræktaðir sérstaklega (aftur heyrist t.d. að eftirlitsstofnanir skuli vera skilvirkar frekar en gagnrýnar). Stjórnsiðir og vinnulag í opinberri stjórnsýslu virðast ekki vera betri núna en fyrir hrun. Skammtímasjónarmið virðast ráða sem aldrei fyrir, t.d. í þjónustu við ferðamenn, í kröfum um virkjanir, í fiskveiðum og í samskiptum við önnur ríki á ýmsum sviðum. Auðvitað getur vel verið að ýmislegt hafi gerst á bak við tjöldin en frá sjónarhóli þess sem stendur utan við kerfið virðast stjórnsiðirnir vera verri ef eitthvað er. Skilyrði siðferðilegra rökræðna hafa heldur ekki verið ræktuð sem skyldi, sbr. bullið sem fylgdi í kjölfar samþykktar Reykjavíkurborgar um að kaupa ekki ísraelskar vörur.
Það hefur líka verið spurt hvort það ríki góðæri á Íslandi. Ef góðæri einkennist af græðgi, skammsýni og peningahyggju, og líka af tæknihyggju og markaðshyggju í menntamálum og velferðarmálum, þá erum við eflaust í góðæri nú eins og fyrir hrun. En ekkert af þessu einkennir gott líf. Kannski er góðæri bara tími þar sem efnisleg gæði eru umfram meðallag og kemur siðferðilegu lífi þjóðar ekkert við. Kannski er það bara misskilningur heimspekings að blanda siðferði og réttlæti inn í umræðu um góðæri. Það getur vel verið. En þá eru góðærin líka afskaplega lítils virði og yfirleitt engin ástæða til að hafa sérstakan áhuga á slíkum tímum. Góðæri felur að vísu í sér að samfélag býr ekki við alvarlegan skort (nema misskipting sé þeim mun meiri) en það kemur góðu lífi ekkert endilega við. Það sem er eftirsóknarvert er gott líf. Mesta hagsmunamál þjóðarinnar er að reyna að átta sig á því hvað það felur í sér og hvernig hægt sé að lifa því á þessum tímum sem einkennast af hnattvæðingu, gríðarlegri misskiptingu auðs bæði innan ríkis og milli ríkja, og umhverfisógnum sem eru algerlega fordæmalausar í sögu mannkyns.
Pistill Ólafs Páls Jónssonar er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir