Á laugardaginn fylgdi ég nánasta æskuvini mínum inn á sjúkrahúsið Vog. Frá barnæsku hefur okkar samband verið meira eins og bræðra en vina. Ekkert hefur legið eins þungt á mér undanfarin ár og hans veikindi.
Ég kvaddi hann við dyrnar að húsinu við voginn með knúsi, kossi og baráttukveðjum. Þarna er á ferðinni ein greindasta og hæfileikaríkasta manneskja sem ég hef kynnst, en sökum þess að hann hefur í mörg ár þjáðst af ólæknuðum fíknisjúkdóm hefur hann ekki fengið tækifæri til þess að láta ljós sitt skína. Nú glittir loksins í von um breytingar þar á.
Ég hitti svo annan gamlan félaga úr Mosó í búðinni um daginn. Við tókum létta yfirferð um helstu sameiginlegu kunningja og samantekt á lífum okkar síðustu árin. Honum tókst að snúa lífi sínu við fyrir tveimur árum. Þar áður var um að ræða einhverja sturluðustu fyllibyttu sem ég hef komist í kynni við. Fyllerí með honum var eins og djamm með drukkinni siðblindri górillu. Nú stóð hann fyrir framan mig, útúrtattúveraður ábyrgur faðir, með körfuna fulla af lífrænu jukki, í jafnvægi og vellíðan. Ekkert nema birta í kringum hann.
Í gær fór ég svo á Stúdentakjallarann og settist niður með öðrum æskuvini mínum, einnig úr Mosó. Sá hefur frá unglingsaldri glímt við lamandi kvíða og félagsfælni. Hann var ungur líklega efnilegasti hljóðfæraleikari og íþróttamaður sem ég hef hitt. Allt sem hann tók sér fyrir hendur var gert af yfirnáttúrulegum metnaði og aga. En andleg veikindi hafa dregið hann í gegnum svipugöng. Nú stendur hann, rúmlega þrítugur, frammi fyrir því að árin í myrkrinu hafi gert hann að jaðarþegn. Án menntunar og reynslu, sterks félagslegs bakgrunns eða fjárhagslegs öryggis er hann í raun bjargarlaus í sínum veikindum. En hugsanlega er hann nú loksins að fá hjálp við hæfi, og heldur því áfram að harka. Berst við sinn sjúkdóm, með sinni frægu blöndu af æðruleysi og húmor að vopni.
„Andleg veikindi hafa dregið hann í gegnum svipugöng. Nú stendur hann, rúmlega þrítugur, frammi fyrir því að árin í myrkrinu hafi gert hann að jaðarþegn.“
Ég er þess fullviss að þessir menn væru ekki, frekar en ég, á leiðinni inn í ljósið, ef ekki væri fyrir þá hægfara afstöðubreytingu sem hefur orðið í þjóðfélaginu. Smám saman er verið að skrúbba skömmina af geðsjúkdómum, andlegum veikindum, fíknisjúkdómum og öðrum lamandi kvillum sem lengi hefur legið skömm yfir. Þeir sem þjást eiga ekki að þurfa að upplifa skömm í ofanálag. Ekki frekar en vegna kvefs, krabbameins eða fjölda fingra.
Í þessari margra alda þróun, frá því að verið var að tjóðra brjálæðinga við staur, yfir í að veita þeim hjálp við hæfi, er falin mikil þjáning. Milljarðar klukkustunda milljóna manna nötrandi í helvíti geðveikinnar og niðdimmu myrkri fíkninnar, hafa skilað okkur þeim árangri sem nú hefur náðst. Í dag er helsta baráttumálið að auka þá þjónustu sem þessum hópum er veitt og verja hana fyrir ágangi stjórnvalda, sem ætla stöðugt að sækja aurinn til sinna aumustu þegna.
Önnur barátta, sem hefur verið áberandi upp á síðkastið, hefur verið að fá fólk sem hefur þurft að berjast við andleg veikindi út úr skápnum. Fá það til þess að opinbera sín veikindi - fyrst og fremst fyrir aðra sem enn þjást í einrúmi. Andleg veikindi verða nefnilega margfalt viðráðanlegri um leið og sjúklingurinn hefur leitað sér hjálpar. Í því tilliti hafa byltingar á samfélagsmiðlum eins og #égerekkitabú gríðarlega mikið að segja. Þar stíga veikir í bata fram fyrir skjöldu og segja sína sögu. Benda á að geðrænir sjúkdómar leggjast ekki á aumar manneskjur eða lélega karaktera. Að slík veikindi fara ekki í manngreinarálit, velja sér ekki fórnarlömb eftir stétt eða stöðu, kyni eða kynferði. Rétt eins og allir sem fara í göngutúr um Berlín geta átt á hættu að stíga í einn af þeim óteljandi hundalortum sem dreifðir eru um götur borgarinnar, geta allir þeir sem upplifa hið mannlega ástand átt á hættu að veikjast andlega. Ég hugsa að Búdda hafi haft rétt fyrir sér þegar hann hélt því fram að lífið væri þjáning. Mannlegt ástand er margþætt og flókið, og auðvelt að stíga í hundaskít vanlíðunar. Og erfiðast í þögninni. Ef hins vegar er opnað á það ástand og þögnin rofin - þá er lausn í boði.
Þess vegna eru þessar byltingar svo dásamlegar. Þær blossa upp og hertaka umræðuna í nokkra daga. Valda því að smám saman þokumst við í átt til nauðsynlegrar afstöðuleiðréttingar.
#égerekkitabú þvær hendur geðveikra af skömm tengdri sjúkdómum sínum.
#freethenipple gefur konum aukið frelsi yfir líkama sínum, og hjálpar til við að veita þeim þau sjálfsögðu mannréttindi að þurfa ekki að fela ákveðna líkamshluta sína, gegn sínum vilja og algjörlega að ástæðulausu.
#þöggun færir ábyrgð kynferðisofbeldis frá saklausum þolendum yfir á gerendur og gerir þolendum mögulegt að skila skömminni.
Allar eiga þessar byltingar það sameiginlegt að brjóta niður múra. Þær hleypa fólki út úr myrkrinu, með áföll og upplifanir sem hafa verið kæfðar eða heftar á einhvern hátt, án þess að sú kæfing sé á nokkurn hátt réttlætanleg. Fólk stígur fram og opinberar líkama sinn og tilfinningar, vegna þess að þannig hlotnast þeim þau sjálfsögðu mannréttindi að fá að vera til, eins og þau eru, án skammar. Dogmatískur arfur kúgunar sem skipar okkur í hólf skammar fyrir hluti sem eru ekki í okkar valdi - tjah, hann getur bara farið í rassgat!
Með nýrri kynslóð, nýrri tækni og auknum, opnari samskiptum lærist fólki að heiðarleikinn er eins og aloe-vera á andleg mein. Flóðbylgjur opinberanna grafa undan skömminni og jafna okkur út. Hér erum við þá öll saman. Brotin og hökkuð. Grátandi og hlæjandi. Fáránleg og fullkomin. Og það er bara allt í lagi.
Það sem ég vona hins vegar er að þetta séu ekki einungis blossar. Að þessar byltingar séu aðeins byrjunin. Upphafið á því að við, sem heild, gerum okkur grein fyrir mættinum sem býr innra með okkur. Að þetta óhefta flæði upplýsinga haldi áfram að hvetja okkur áfram. Hvetja okkur til að berjast fyrir frelsinu sem við eigum öll rétt á. Að við höldum áfram að búa til nýjar byltingar, hlúa að hinum gömlu, og rífa niður alla þá múra sem enn standa himinháir og hefta för okkar um andlegar og veraldlegar óravíddir alheimsins.
#egerekkitabu #freethenipple #þoggun
Athugasemdir