Sjaldan hafa mér fallist jafn margar hendur (við að koma saman einni grein) og hef ég þó bara tvær.
Stundin sendi tölvupóst á sunnudegi um að ný grein þyrfti að berast fyrir föstudag. Fyrsta hugsun var sú að gefa þjóðmálunum langþráð frí og skrifa bara um nýja snjallsímann minn, þann fyrsta sem ég eignast. Af ýmsum sökum hafði ég beðið með þau kaup í tíu ár og kom því ansi ferskur inn í þann heim. Hrifningin var því ósvikin. Ég efast um að mannskepnan hafi búið til meira undur en Samsung Galaxy Note 4. (Nei, ég fæ ekki borgað fyrir þetta, ég bara kemst ekki yfir hvað þetta er ótrúlegt tæki.) Nú get ég ekki bara haft eldgos í Chile í hendi mér heldur einnig handskrifað SMS og teiknað inn á ljósmyndir!
Jæja, þessi hugmynd lifði þó aðeins í tuttugu mínútur því makrílmálið bankaði auðvitað upp á. Sigurður Fiskistofubani ætlar sjálfur að gefa út kvóta á markríl, prívat og persónulega, til þeirra sem hann þekkir, til þeirra sem hann elskar, til þeirra sem hann telur eiga það skilið. Gull finnst í Esjunni og allir sem skóflur eiga arka af stað. Þeir sem mestan mokstur sýna fá svo mesta kvótann, þegar umhverfis- og auðlindaráðherrann ákveður svo, og nokkrir uppáhaldsvinir hennar í bland. Hvernig getur það legið í valdi einnar manneskju að úthluta slíkum gæðum, ausa af slíkri auðlind sem þjóðinni ber? Jafnvel Guð sjálfur myndi veigra sér við því, eins og sá ágæti herramaður gerir reyndar á hverjum degi.
Makrílfrumvarpið afhjúpar og undirstrikar glæpsamlegt eðli kvótakerfisins og það hve við erum ennþá frumstæð þjóð. Og þegar hafður er í huga fjárstuðningur sjávarútvegsins til mútuflokkanna fyrir síðustu kosningar, sem og gömul SMS ráðherranna um „leynifundi í LÍÚ“, er fangelsi það eina sem kemur upp í hugann.
Hér var því komið prýðis efni í grein fyrir Stundina. En þá kom þetta með menntamálaráðherra sem lamaði mann í lungunum og á mánudagsmorgni birtist svo Hanna Birna á ný og var strax búin að ljúga nokkrum sinnum áður en fyrsti þingdagurinn hennar var liðinn. Sama dag upplýstist að sjávarþingmaður Framsóknar hafði fært fyrirtækið á nafn konunnar rétt áður en hann settist á þing en ætlaði samt að þiggja makrílkvóta úr hendi Fiskistofubana, vinar síns. Þegar hér var komið við sögu helltist yfir mann viss þreyta: „Muna að koma þessum Páli potara inn í greinina.“
„Makrílfrumvarpið afhjúpar og undirstrikar glæpsamlegt eðli kvótakerfisins og það hve við erum ennþá frumstæð þjóð.“
En allt þetta grófst síðan undir skriðu misstórra smámála: Stjórnarþingmaður vildi afnema verkfallsrétt, fjármálaráðherra sagði of mikinn jöfnuð í samfélaginu, og það klukkan korter í verkfall, um leið og hann leysti álver landsins úr skattaálögum (!), aðstoðarmaður menntamálaráðherra ruddi sínum manni leið inn í hádegisfréttir með því að minna á að RÚV tilheyrði ráðuneyti þeirra. Í kjölfarið kom svo könnun um traust: 5% þjóðarinnar trúir því að fjármála- og forsætisráðherra séu í tengslum við fólkið í landinu. (Sem er nokkurnveginn stærð Kögunar- og Engeyjarættanna plús venslafólk.)
En ekki var allt búið enn. Daginn þar á eftir kom í ljós að þeir sem handvaldir voru af Borgunarstjórninni til að kaupa Borgun (Engeyjarættin aftur) fengu greiddan út þennan líka prýðisgóða arð, og þá upplýstist einnig sama dag að Suðurnesjamenn hafi orðið af 400 milljónum í akstursleyfum þegar Hanna Birna rifti gerðum fyrri stjórnar og runnu þær þá aftur á réttan stað, til Kynnisferða (já, einmitt, í eigu Engeyjarættar). Sama fyrirtæki hafði fyrr í vetur hlotið undanþágu frá virðisaukahækkun sem gekk yfir allt, mat og bækur, „til að einfalda kerfið“. Allt var það í boði ættarprinsins sem 95% þjóðarinnar treystir til að gera vel við frændur sína.
Eftir að hafa farið í gegnum heilt bankahrun og eftirmála þess finnst manni ansi hart að loks nú, 7 árum síðar, fallist manni hendur og sitji magnlaus frammi fyrir tölvuskjánum.
Í miðjum klíðum var ég svo kallaður með myndverk niður í Ráðhús, þar sem verið var að hengja upp sýningu á verkum fyrir góðgerðaruppboð. Og þar sem mér var rambað á milli skilrúma gekk ég allt í einu inn á aðra sýningu, um Brunann mikla sem varð í Reykjavík fyrir 100 árum, árið 1915. Og þar sem ég stóð frammi fyrir „stórfenglegu“ líkani af miðbænum eins og hann var eftir þann stórbruna, þar sem helftin af honum var ein brunarúst, fann ég loks hvernig mér leið, fann ég loks birtingarmynd ástandins á Íslandi dagsins í dag. Hér er allt í rúst. Hér er allt orðið græðgi og spillingu að bráð. Eftir standa rjúkandi svartar stoðir.
Borgunarstjórnin er kannski ekki enn orðin „versta ríkisstjórn sögunnar“ í hefðbundinni merkingu þeirra orða, til þess hefur hún gert svo lítið, en það litla sem hún hefur gert og hyggst gera er nánast allt í þágu þeirra sem borguðu undir þá ráðherrastólana. Á undraskömmum tíma hefur henni tekist að brenna allt sem heitir traust og tiltrú, virðing og siðferði. Einn af hverjum ellefu landsmönnum trúir því að forsætisráðherra sé heiðarlegur í sínum störfum. Sá umræddi eini er líklegast sá sem nýtur góðs af braski ríkisstjórnarinnar.
Athugasemdir