Samband mitt við Bandaríkin hefur alltaf verið svolítið sérstakt. Í lok síðustu aldar þegar ég fór í langþráð frí til bróður míns, sem var við nám í Seattle, varð ég fyrir vonbrigðum. Ég hafði flogið nokkur þúsund kílómetra til að enda á stað sem minnti mig einna helst á Mosfellsbæ.
Þarna voru sömu vídeósjoppurnar og heima og fólk að tala tungumál sem ég kannaðist við úr sjónvarpinu. Hvar voru útlöndin? Svo var Kaninn líka skrítinn. Í einu boðinu var ég rekinn út í garð þegar ég ætlaði að kveikja mér í sígarettu inni í stofu, í næsta boði var heilt herbergi af fullorðnu fólki að góna saman á eitthvað drasl í sjónvarpinu meðan það borðaði ókryddaða hamborgara. En þarna kom ég líka í fyrsta sinn við snertiskjá. Vesturströndin var nefnilega frumherji í flest öllu sem átti eftir að skolast austur yfir hinn vestræna heim næstu árin. Rúmum áratug síðar sátum við öll heima á Fróni, dofin og reyklaus fyrir framan snertiskjái og horfðum á drasl.
En þarna á tuttugustu öld keyrðum við bræður suður til San Fransisco á þrjátíu ára gömlum Chevrolet-blæjubíl og kvöddumst síðan eftir nokkurra daga ferðalag. Hann keyrði aftur norður að klára nám en ég hélt áfram suður með vesturströndinni í Greyhound-rútu í leit að ævintýrum. Ennþá fannst mér ég ekki alveg vera kominn til útlanda, ég var í besta falli staddur inni í lélegri amerískri bíómynd, kannski í seinni hluta Midnight Cowboy þarna aftast í rútunni með líkið af Dustin Hoffman og sjálfan mig í fanginu.
Þegar á leið fór þó að bera meira á spænskumælandi farandverkafólki og þá léttist aðeins brúnin á mínum. Þetta voru þó að minnsta kosti útlendingar.
Og þegar ég var kominn yfir landamærin til Mexíkó skynjaði ég allt í einu töfra þegar ég sá tvo dvergvaxna menn með indíánahatta á hausnum stíga út úr rútu klukkan sex um morgun. Ég bókaði mig inn á hótel hið snarasta og fór í kúlubíó þar sem ég var eini túristinn, heyrði meira að segja einhvern hvæsa „Gringo“ fyrir aftan mig og varð alsæll.
Um kvöldið drakk ég óblandað viskí á pönktónleikum og ræddi við nokkra innfædda sem sögðust síðast hafa séð Íslending á þessum slóðum þegar Sykurmolarnir komu tíu árum áður til að spila í landamæraborginni San Diego.
Ég var loksins kominn til útlanda en ég var líka blankur. Þetta var nokkru áður en ég lærði að leysa öll heimsins vandamál með kreditkortum svo ég taldi saman síðustu dollarana og keypti mér rútumiða alla leið norður til Seattle og náði þannig flugi heim til Reykjavíkur.
Síðan liðu tæpir tveir áratugir þangað til ég fór aftur til Ameríku en fyrir nokkrum vikum skrapp ég til New York ásamt eiginkonu og syni.
Fyrstu dagana dvöldum við fjölskyldan í sambýli við ungan mann sem ég kallaði Homeland þegar hann heyrði ekki til því hann vinnur við að ráða leikara í samnefndan sjónvarpsþátt. Homeland fór í sturtu á hverjum morgni í þrjú kortér og síðan aftur ívið lengur á kvöldin þegar við hin vorum að festa svefn því Homeland er snyrtilegur ungur maður.
Sem var alveg dásamlegt því í miðju hreinlætinu sá ég einn morguninn hvernig lítill kakkalakki ullaði á mig undan klósettbrún. Þegar rassinn á Homeland speglaði sig í spegilsléttu klósettvatninu þóttist stjarnan ekki vita af kakkalakkanum og öfugt.
Á götunni fyrir utan hvítmálaða íbúðina, sem var öll í norrænum naumhyggjustíl, grasseruðu rotturnar við sólsetur; í eitt skiptið sáum við tíu rottur á nokkrum mínútum. Þannig birtust okkur ljóslifandi þær miklu andstæður sem Ameríka felur í sér.
Daginn eftir leiddi ég sex ára son minn yfir undurfagra Brooklyn-brúna og inn í borgríkið ógurlega, aldrei höfðum við augum litið jafn hrikalegt bæjarstæði.
Ég var svo dolfallinn að ég gleymdi að segja söguþyrstum syninum frá því að rúmri hálfri öld áður hefði föðuramma hans búið í þessari borg og verið fréttaritari Sameinuðu þjóðanna; nokkrum árum síðar hafði hún siglt heim til Reykjavíkur og flutt erindi í Ríkisútvarpið um „þetta Asíuland“ sem var Víetnam. Árið var 1965 og loft lævi blandið, eitthvað stórt var alveg að fara að gerast.
Hinum megin við Brooklyn-brúna mætti okkur dásamleg götutónlist í bland við háhýsi og frábæra byggingarlist, söfn og endalausar sögur af fólki. Og á sama tíma var þessi borg svo innilega úrkynjuð og smekklaus, full af vondu lafþunnu kaffi í pappamálum og fólki sem virtist vera í nánara sambandi við farsíma en þekkist annars staðar, ýmist vafrandi áfram eins og uppvakningar með augun á skjánum eða öskrandi öll sín einkamál inn í tækin, æðandi á milli matsölustaða sem seldu vondan mat á uppsprengdu verði. En hverjum var ekki sama? If I can make it there, I'll make it anywhere.
New York, svo sannarlega stórborg sem auðvelt er að elska og hata á sama tíma.
New York, svo sannarlega stórborg sem auðvelt er að elska og hata á sama tíma.
Að tíu dögum liðnum tókum við gulan leigubíl frá East Village og þokuðumst eftir ónýtu vegakerfi í gegnum Brooklyn í átt að JFK-flugvelli.
Spænskumælandi leigubílstjórinn dró upp síma og sýndi mér mynd af tvítugri hjákonu og þriggja ára syni sem hann geymdi í Dóminíska lýðveldinu. Eitthvað fannst mér unga móðirin mædd á svipinn, enda fimmtíu ára aldursmunur á þeim skötuhjúum og karlinn hafði heimtað DNA-prufu til að fá sönnur á faðernið – það væri nauðsynlegt til að afkvæmið gæti fengið amerískt vegabréf.
Nei, dæsti karlinn. New York er ekki sú sama; of mikið af túristum, of mikið af öllu. New York er búin að vera.
En ég held að þetta sé ekki alveg rétt hjá honum. Því alls staðar skynjaði ég þunga undiröldu. Í neðanjarðarlestinni öskraði svört kona ókvæðisorðum á viðstadda, bölvaði ríka hvíta fólkinu sem væri að fæla fólkið hennar út í úthverfin og breyta borginni í Hipster Disneyland. Og á Whitney-myndlistartvíæringnum kraumaði næstum því áþreifanleg pólitísk undiralda. Eins og eitthvað mikið og merkilegt væri alveg að fara að gerast.
Núna.
Athugasemdir