Eftirfarandi samtal milli Hermann Göring, ríkismarskálks Þýskalands Nasismans, og Gustave Gilbert, sálfræðings, átti sér stað þegar Nürnberg réttarhöldin stóðu yfir.
Göring: Að sjálfsögðu vill fólk ekki stríð. Af hverju ætti eitthvað bóndagrey að vilja hætta lífi sínu í stríði, þegar besta mögulega niðurstaðan fyrir hann er að hugsanlega komist hann aftur á bóndabæinn í heilu lagi? Almenningur vill náttúrulega ekki stríð; hvorki í Rússlandi né á Englandi eða, ef út í það er farið, í Þýskalandi. Það er alvitað mál. En þegar allt kemur til alls, þá eru það leiðtogar landanna sem ákveða stefnumótun, og það er einfalt mál að draga almenning með sér, hvort sem það er í lýðræði eða fasisma eða með ríkisstjórn eða í kommúnísku einræði.
Gilbert: Það er samt einn munur. Í lýðræðinu hefur fólkið eitthvað um málið að segja með því að kjósa sína fulltrúa, og í Bandaríkjunum getur aðeins þingið lýst yfir stríði.
Göring: Jájá, það er allt gott og blessað, en hvort sem fólkið hefur rödd eða ekki, þá er alltaf hægt að fá almenning til þess að hlýða leiðtogum sínum. Það er einfalt. Þú þarft bara að segja þeim að það sé verið að ráðast á þau, og mála friðarsinna upp sem föðurlandssvikara og að þeir séu að stefna landinu í hættu. Þetta virkar eins í öllum löndum.
Hér er enginn nýr sannleikur á ferð. Ef þú ætlar að sannfæra fólk um að fara í stríð þá eru til gamalreyndar og klassískar aðferðir til þess.
Fólki hættir kannski til þess að líta á Bandaríkin sem góða gæjann. Kannski er það Rambó-myndunum að kenna og því að hér eru einungis sýndar bandarískar bíómyndir og sjónvarpsefni, en sýn okkar á þennan risa í vestri er mjög skekkt. Þrátt fyrir að hafa sigrað vonda Hitler og vonda Hussein er saga Bandaríkjanna löðrandi í blóði.
„Þrátt fyrir að hafa sigrað vonda Hitler og vonda Hussein er saga Bandaríkjanna löðrandi í blóði.“
Í lokaávarpi sínu sem forseti varaði Eisenhower forseti við þessari þróun: Að Bandaríkin yrðu hernaðarveldi, sem þyrfti stöðug átök til þess að halda efnahag sínum uppi. Hann hafði verið hershöfðingi í seinni heimstyrjöldinni, og séð hrylling stríðsins í návígi. Hann lýsti þróuninni, frá því að enginn varanlegur hergagnaiðnaður væri til, yfir í það að framleiðendur vopna væru orðnir risavaxnir áhrifavaldar í bandarískri pólitík.
Þær tvær heimsstyrjaldir, sem BNA höfðu tekið þátt í áður en öldin var hálfnuð, höfðu gert það að verkum að fyrirtæki og framleiðendur sem áður sérhæfðu sig í landbúnaðartækjum, bílum og þvottavélum voru nú farnir að búa til vopn, og eins og Eisenhower sagði sjálfur, þá var engin leið að snúa þeirri þróun við. Vopnaframleiðslan var orðin varanlegur hluti af efnahag þeirra.
Eisenhower notaði þessa síðustu ræðu sína sem forseti til þess að vara sérstaklega við því að hergagnaframleiðendur gætu reynt að þvinga bandarísk stjórnvöld til þess að fara í stríð og átök sem engin þörf væri á. Að þeir gætu reynt að nota gríðarleg áhrif sín til þess að auka þörfina á vörum sínum, til þess eins að skila meiri hagnaði. Og aldrei er þörfin á stöðugu flæði vopna meiri en í stríðinu endalausa - stríðinu gegn hryðjuverkum.
Bandarískur efnahagur flýtur á olíu og blóði
Mestu olíubirgðir heimsins er að finna í Mið-Austurlöndum. Stór hluti hernaðaráforma Hitlers gengu út á að nálgast þessar birgðir. Honum mistókst það hins vegar þegar hann tapaði árásinni við Stalíngrad, og fékk því aldrei að baða skriðdrekana sína í svarta gullinu. Bandaríkin hafa aftur á móti lagt allan sinn þunga í að halda völdum á svæðinu, til þess að tryggja stöðugt flæði ódýrrar olíu.
Þessar tvær staðreyndir, fíkn vesturveldanna í ódýra olíu og þrýstingur hergagnaiðnaðarins um að þörf sé á vopnum þeirra, eru eitruð blanda sem hefur skapað hið stöðuga stríð í Mið-Austurlöndum. Allar kenningar um ástæður ástandsins sem ekki nefna þessar tvær risavöxnu breytur geta ekkert útskýrt. Afsakanirnar sem notaðar eru sem átyllur fyrir hernaðarbrölti halda ekki vatni. Illir einræðisherrar sem vesturveldin hafa sjálf komið á en snúist hafa í höndunum á þeim. Öfgahópar sem vesturveldin hafa sjálf vopnað en hafa snúist í höndunum á þeim. Aðstæður í þessum heimshluta voru í raun og sanni á leið til meira frjálslyndis og lýðræðis áður en hin kapítalísku stórveldi tóku örlög þeirra í sínar hendur.
Nú á svo að telja okkur trú um að nauðsynlegt sé að beita gríðarlegu hervaldi til þess að ná niðurlögum öfgahópa í Sýrlandi. Að friður á svæðinu sé ekki mögulegur nema með íhlutun Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. Sami söngur hefur verið kyrjaður frá upphafi ítaka vesturveldanna á svæðinu. Ef við bara sigrum
Talibana/Saddam/Khomeini/Hamas/Mubarak/Gaddafi/al-Assad/ISIS ÞÁ getum við loksins sofið róleg! En það er enginn að fara að sofa. Þetta stríð á ekki að hætta. Það er hannað til þess að geysa endalaust.
Ef við gerum okkur grein fyrir því að martröðin ISIS/IS/Daesh sem og allar hörmungar Mið-Austurlanda eru tillkomnar vegna olíu- og átakafíknar vesturveldanna þá getum við kannski reynt að setja þrýsting á íslensk stjórnvöld að hætta samstarfi við þau, hætta í NATO og hætta að styðja hina raunverulegu hryðjuverkamenn: ráðamenn í Washington. Við berjumst gegn stríði með því að ráðast á rót vandans, ekki með fordómum gagnvart afleiðingum hans.
Athugasemdir