Þegar ég var í grunnskóla var ég enn of ung til að skilja að það að vera feit væri ekki það versta sem ég gæti verið. Þegar ég var í grunnskóla var ég enn of ung til að átta mig á því að holdafar mitt skipti ekki máli. Ég var sveltandi, ælandi, grátandi, brotnandi, því ég skyldi, og ég varð, að verða mjó. Og hvort ég varð! Því meira sem ég grenntist því óhamingjusamari varð ég. Ég einangraðist frá fjölskyldu minni og vinum um leið og ég afneitaði sjálfri mér. Núna er ég feitari en ég hef nokkurn tíma verið en hamingjusamari í eigin skinni en nokkru sinni fyrr. Þetta hefur verið langt ferli að bata og enn þann dag í dag þarf ég að stöðva sjálfa mig þegar meiðandi hugsanir læðast að. Ég er alls ekki sú eina sem hef upplifað þetta og mitt tilfelli er alls ekki það versta. Því miður mætti segja að ég hafi sloppið frekar vel. Átröskun og líkamsímyndarraskanir eru algengari en fólk gerir sér grein fyrir. Það þjást alltof margir af þessu samfélagsmeini.
Í dag er það orðið þannig að fólk upplifir útlitsfordóma og holdafarsmisrétti á hverjum degi; frá fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki, sjálfu sér, samfélaginu, fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Segja má að viðmið fegurðarsamkeppna hafi færst yfir í daglegt líf, ekki bara þátttakenda í slíkum keppnum, heldur allra. Sitt sýnist hverjum um fegurðarsamkeppnir en eitt eru flestir sammála um og það er að þeir fegurðarstaðlar sem ríkja í samfélaginu er skaðlegir og hafa áhrif á sjálfsmynd fólks á öllum aldri.
Fegurðarstaðlar sem byggja á fitufordómum og staðalímyndum. Sú hugmynd að ein ákveðin útgáfa af líkama henti öllum og sé öllum möguleg, svo lengi sem þau borði nógu lítið, hreyfi sig nógu mikið og brosi nógu breitt. Græðgi og leti er orðið að persónueinkennum sem eru eignuð feitu fólki. Virði fólks minnkar eftir því sem talan á vigtinni hækkar.
Undanfarin ár og áratugi hafa útlitskröfur aukist til muna og tíðni átraskanna þar með. Útlitsdýrkun er æ meira áberandi á öllum sviðum samfélagsins og sorglega lítið gert til að sporna við henni. Virði manneskjunnar felst í útliti hennar, hversu vel hún passar við þá einsleitu fegurðarmynd sem talin er æskilegust. Og þetta er staðreynd. Þetta er ekki ergelsi feitra og ljótra yfir ógæfu sinni í „genahappdrættinu“. Þetta er kerfisbundin mismunun.
Vandamálið er ekki hvernig við lítum út, vandamálið er þegar aðrir segja okkur að við lítum ekki út eins og við eigum að líta út. Í okkar samfélagi eru þau skilaboð mjög skýr: Ekki vera feit/ur/t. Feitur sem lýsingarorð er bannorð, fólk tekur andköf þegar það heyrir það og setur upp á sig fyrirlitningarsvip; Feitur! OJ! Þegar einhver talar um það að vera feitur grípa allir andann á lofti og hefjast handa við að afneita því í gríð og erg, „NEI! ÞÚ ERT EKKI FEIT! ÞÚ ERT FLOTT OG FALLEG!“ Við sem samfélag þurfum að hætta að rífa niður feitt fólk, við getum verið feit og flott! Við getum verið feit og falleg! Við getum verið feit og heilbrigð! Við getum verið feit og verið einmitt bara það: FEIT. Því það er hluti af því að eiga líkama – holdafar! Líkamar geta verið alls konar og enginn líkami er rangur eða minna virði en aðrir. Allir líkamar eiga skilið að borin sé virðing fyrir þeim og að fá væntumþykju og umhyggju. Þetta á við um feita líkama, rétt eins og granna.
Ég er feit, ég er falleg og sem mestu máli skiptir, ég er helvíti hamingjusöm. Ég er feit kona og ég brýt viðmið samfélagsins á hverjum degi með því að elska mig og ég mun halda áfram að gera það.
Athugasemdir