Eitt af markmiðum Hitlers var að hreinsa Evrópu af gyðingum. Það er óljóst hvað hann hafði upphaflega í huga, en ég hef alltaf leyft mér að efast um að markmiðið hafi frá upphafi verið að opna sláturhús fyrir fólk. Í dag þekkja þó allir þær hrikalegu aðferðir sem nasistar þróuðu til þess að framfylgja þessu markmiði. Upphaflega var gyðingum gert skylt að ganga um merktir. Hörð aðskilnaðarstefna var innleidd og réttindi fólks af gyðingatrú skert. Fólki var rænt, það sent í þrælavinnu og á endanum hófust skipulagðar aftökur víðsvegar um álfuna. Flestir voru teknir af lífi í útrýmingabúðunum í Auschwitz í Póllandi, þar sem rúmlega 1,2 milljónir voru myrtar. Samtals féllu um sex milljónir gyðinga.
Aðferðirnar sem notaðar voru til að taka fólk af lífi voru svo óhugnalegar, að varla er hægt að minnast á þær nema í hálfum hljóðum. Í fyrstu var fólk oftast skotið, en slíkt fól í sér mikið álag á aftökusveitirnar, enda manneskjur sem hleyptu af hverju skoti. Venjulegt fólk að framfylgja stjórnvaldsákvörðunum. Því þurfti að afmennskjuvæða fórnarlömbin og taka þau af lífi í hópum. Þá urðu gasklefarnir til.
Fyrir um áratug síðan heimsótti ég Auschwitz. Það er sama hversu mikið maður telur sig vita um hörmungarnar sem þar áttu sér stað, það er einfaldlega ekki hægt að koma ískaldri viðbjóðstilfinningunni sem þessum stað fylgir í orð. Ég gekk þarna um í leiðslu á brennheitum sumardegi og heimsmynd mín hefur aldrei orðið söm síðan. Þegar ég hugsa til baka minnist ég þess ekki að hafa sagt orð á meðan á heimsókninni stóð. Hvaða orð eru viðeigandi á svona stað? Ég man eftir að hafa verið hálfhrædd við að anda, kannski af ótta við að anda inn of stórum skammti af mannvonsku. Ég man eftir glerbúri sem innihélt mörg tonn af mannshári. Herbergi fullu af leikföngum. Skartgripum, bréfum, persónulegum munum sem teknir voru af fólki við komuna. Það sem situr allra mest í mér er langur gangur þakinn myndum af fólkinu sem átti að útrýma. Á myndunum gaf að líta fólk í röndóttum fangabúningum með fanganúmer framan á sér. Öll voru þau krúnurökuð og því aðeins andlitsdrættirnir sem aðgreindu þau hvert frá öðru og oft var erfitt að greina hvers kyns einstaklingarnir voru. Afmanneskjuvædd. Það sem situr þó alltaf mest í mér er starandi augnarráðið. Þetta sama, starandi augnarráð. Augun voru eins og einhvers konar ótæmandi uppspretta ótta, örvæntingar og vonleysis.
„Ég bjóst ekki við að hverfa aftur til þessarar stundar í Auschwitz á sama hátt og ég gerði á brennheitum sumardegi í ágúst 2015, þá stödd á eyjunni Lesbos í Grikklandi.“
Þegar sagan endurtekur sig
Ég bjóst ekki við að hverfa aftur til þessarar stundar í Auschwitz á sama hátt og ég gerði á brennheitum sumardegi í ágúst 2015, þá stödd á eyjunni Lesbos í Grikklandi. En þegar ég keyrði í fyrsta skipti fram á hóp hundruða manneskja á flótta, grátandi, biðjandi um hjálp, vonlaus í óbyggðum á ókunnugri eyju á hjara veraldar mætti ég aftur þessu augnarráði. Þetta er blikið í augum manneskju sem veit að heimurinn er búinn að bregðast henni. Að allt sem hún trúði á í veröldinni var blekking og þegar á hólminn er komið er hún eyland. Á evrópskri eyju eða í evrópsku sveitahéraði. Á þessari öld eða á síðustu öld.
Fyrsta daginn sem ég bauð fram krafta mína á fatalagernum á Lesbos var mér falið að fara í gegnum óflokkuð föt og opnaði sjórekinn bakpoka. Hann innihélt svolítið af fatnaði, fallegan skartgrip, dagbók, greiðslukort, lítinn kóran og passamyndir af ástvinum eigandans. Aftur var ég komin í útrýmingabúðirnar. Það sem þaut í gegnum huga mér var að þarna væri ég að handleika muni sem síðar yrðu til sýnis á evrópska flóttamannasafninu – til minningar um fórnarlömb helfararinnar síðari. Fórnarlömbin hafði ég þó ekki bara séð á myndum, heldur horft í augun á þeim og átt við þau orðaskipti. Sagt þeim í hreinskilni að ég vissi ekki hvers vegna enginn væri hér til að hjálpa þeim. En þau voru enn á lífi og ég vissi að bæði ég og allir aðrir yrðu að leggjast á eitt til að bjarga þeim.
Ég dröslast enn um með skartgripi, fjölskyldumyndir og ástarbréf sem ég hef ekki fengið af mér að henda. Af ótta við að við getum ekki kennt komandi kynslóðum á jafn áhrifaríkan hátt um mistök okkar - þegar Evrópa brást flóttafólki. Þegar við endurtökum orðin: „Aldrei aftur.“ En hafa þau orð einhverja merkingu í raun?
„Ég dröslast enn um með skartgripi, fjölskyldumyndir og ástarbréf sem ég hef ekki fengið af mér að henda.“
Þegar samanburður við helförina er nauðsynlegur
Ekki allir gyðingar í síðari heimstyrjöldinni voru myrtir með gasi eða byssukúlum. Stór hópur dó úr kulda, vosbúð, ofreynslu og hungri. Afskiptaleysi. Látinn veslast upp, því mennska þeirra var talin minna virði en kvalara þeirra. Sagan endurtekur sig í Evrópu árið 2016. Hingað til hefur ekki mátt líkja þessum atburðum saman, og þeir sem leyfa sér það eru úthrópaðir fyrir að gera lítið úr þjáningum fórnarlamba nasismans. En hvenær megum við byrja að líkja þessu saman? Þegar sex milljón flóttamenn hafa týnt lífi á okkar vakt? Eða megum við minna okkur sjálf á hvers vegna heimurinn settist niður eftir lok síðari heimsstyrjaldar og samdi mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna? Við gerðum það til þess stoppa okkur sjálf þegar mest á reyndi. Til að vernda mannkynið fyrir sjálfu sér, svo komandi kynslóðir þyrftu aldrei að upplifa viðlíka þjáningar. Það er stutt síðan þetta var. Svo stutt, að fólk sem upplifði þjóðarmorð nasista er enn á lífi. Samt þverbrjóta valdhafar mannréttindi fólks á degi hverjum. Evrópusambandið undirritaði rétt í þessu samning við Tyrkland um að allir flóttamenn sem ná landi á grísku eyjunum verði sendir tilbaka. Þeir ætla að hreinsa álfuna af flóttafólki og sú setning hljómar svo kunnuglega að ískaldur hrollur læðist niður eftir bakinu.
Í fyrra dóu yfir 3000 manns á flótta í og við strendur Evrópu. Flestir drukknuðu, en fólk fraus líka í hel, ofreyndi sig, fékk ekki læknishjálp og þannig heldur listinn áfram. Það er margt sem getur dregið fólk til dauða, og hvort sem gasklefar eða lekir gúmmíbátar verða því að bana – þá var það stefna stjórnvalda sem murkaði úr þeim lífið.
Valdhafar kjósa að losa okkur við fólk, vitandi að mögulega erum við að senda það út í opinn dauðann. Vitandi að mögulega verða þau hneppt í þrældóm, myrt eða svelt. Mannréttindasamtök hafa varað við endursendingum til Tyrklands og ekki að ástæðulausu. Tyrknesk stjórnvöld eru gjörspillt, fasisminn á uppleið og mannúðin á undanhaldi. Samningurinn ber vott um að sama má segja um Evrópu.
„Valdhafar kjósa að losa okkur við fólk, vitandi að mögulega erum við að senda það út í opinn dauðann.“
Afmanneskjuvæðing fyrsta skrefið
Í barnslegri einlægni hélt ég alltaf að útrýming á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni hefði fengið að ganga á svo lengi vegna þess að almenningur vissi ekki af henni. Evrópubúar hefðu aldrei gerst sekir um slíkt sinnuleysi ef þeir hefðu vitað um kvalræðið sem fólk þurfti að þola án nokkurrar hjálpar.
En tími samfélagsmiðla, upplýsingar og nýrra siðferðisviðmiða sýnir að svo er ekki. Þrátt fyrir að sjá skelfilegar aðstæður flóttafólks trekk í trekk halda stjórnvöld sínu striki með þöglu samþykki umheimsins. Þjóðernissinnar eru í mikilli uppsveiflu í Evrópu og víðar og siðferðismörk og viðmið íbúa heimsins eru þanin til hins ítrasta. Skilaboðin frá mörgum valdhöfum eru að múslimar séu annars flokks og komi okkur ekki við. Fólk í bráðri lífshættu er byrði sem einhverjir aðrir þurfa að sinna. Mannréttindi eru skipulega virt að vettugi, fyrir allra augum. Þjóðernissinninn Donald Trump er afgreiddur sem lélegur brandari á meðan börn vestanhafs velta fyrir sér hvaða skólasystkini verði send úr landi komist hann til valda.
Við sem trúum því að hægt sé að gera betur erum oft kölluð naív og draumsýn okkar á friðsælt fjölmenningarsamfélag er afgreidd sem útópía og einfeldningsháttur. Og kannski erum við naív. Þó ekki á þann hátt sem efasemdafólk vill meina, heldur skortir okkur mögulega trú á að fólk geti í alvörunni verið svona illgjarnt. Og þar liggur kannski vandinn. Við erum í afneitun.
Undanfarna mánuði hef ég hitt ósköpin öll af mögnuðu fólki sem hefur risið upp úr sófanum og hjálpað þúsundum manns. Ferðast yfir hálfan hnöttinn til að fæða, klæða og þerra tár ókunnugs fólks sem kemur okkur öllum við. Fólk sem hefur öskrað á valdhafana, stillt sér upp fyrir framan þá sem á að úthýsa og neitað að færa sig frá. Prjónað húfur, gefið peninga og stöðugt minnt samferðafólk sitt á hið góða og fallega. Þetta fólk vill ekki bara bæta heiminn, það gerir það. En með því að eyða öllum þrótti í að bregðast við vandamáli sem stjórnmálamenn hafa skapað, er þessi hópur ekkert meira en plástur á svöðusári. Að hlúa að fólki sem hefst við í drullupolli í suðurhluta Evrópu er allrar virðingar vert. En munum hvers vegna það endaði þar. Munum hvers vegna Aylan litli Kurdi varð bara þriggja ára og hvers vegna milljónir gyðingabarna komust aldrei til manns. Vegna stjórnvaldsákvarðana, rasisma og þjóðernishyggju.
Athugasemdir