Mikilvægasta mótunarafl í heiminum er mannlegur vilji. Íslensk ungmenni vilja ekki ráða sig í stóriðjustörf og Drekasvæðið hljómar í þeirra eyrum eins og kafli úr Harry Potter bók. Helmingurinn hefur ekki einu sinni hug á að búa á Íslandi í framtíðinni, hvað þá meira. Nýlegar viðhorfskannanir benda til þessa. Þeir sem afskrifa niðurstöðurnar sem draumóra í ungu kynslóðinni eru á villigötum, því rannsóknir staðfesta einnig að búsetufyrirætlanir ungs fólks rætast að verulegu leyti.
Ungir Íslendingar hafa ekki áhuga á að starfa í stóriðju og því munu erlendir ríkisborgarar að öllum líkindum fylla þeirra skarð.
Vilja flytja burt
Síðasta sumar voru kynntar niðurstöður rannsóknar Háskólans á Akureyri sem sýndu að rúmlega helmingur íslenskra unglinga vill búa erlendis í framtíðinni. Samkvæmt stjórnanda rannsóknarinnar, Þóroddi Bjarnasyni, sýna íslenskar rannsóknir að „búsetufyrirætlanir unglinga hafa býsna gott forspárgildi fyrir þróun einstakra byggðarlaga yfir lengri tíma“, (úr Akureyri vikublað). Fyrir hrun, árin 2003 og 2007, vildi um þriðjungur íslenskra unglinga helst búa erlendis en hlutfallið hefur aukist og nam um helmingi allra ungmenna árið 2015. Aukningin nemur 70%. Þóróddur benti einnig á að samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu geri ráð fyrir því að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um 70 þúsund á næstu 25 árum. Miðað við miðspá Hagstofunnar verður náttúruleg fjölgun á höfuðborgarsvæðinu um 50 þúsund og því virðast þessir aðilar hafa gert ráð fyrir 20 þúsund íbúa fjölgun vegna aðflutnings; sem er tvöfalt meiri aðflutningur en þróun síðustu 25 ára gefur tilefni til að ætla. Niðurstöður Háskólans á Akureyri benda hins vegar til aukins vilja ungs fólks til að flytja til útlanda, auk minnkandi aðflutnings innanlands. „Samkvæmt þessu þarf gríðarmikinn aðflutning erlendis frá til að spár um 70 þúsund íbúa fjölgun á höfuðborgarsvæðinu gangi eftir,“ bætti Þóroddur við.
Draumórar yfirvalda
Útþrá ungmenna endurspeglast einnig í niðurstöðum stórrar rannsóknar á vegum Nordregio um framtíðarsýn ungs fólks á norðurslóðum Norðurlanda, sem kynntar voru í nóvember síðastliðnum. Þar sést að ungir Íslendingar hafa ekki áhuga á að starfa í stóriðju og því munu erlendir ríkisborgarar að öllum líkindum fylla þeirra skarð. Rætt var við ungmenni í Norðurþingi, Austur-Húnavatnssýslu og Þórshöfn, meðal annars vegna þess að þar hefur mikill brottflutningur verið á undanförnum árum auk þess sem sjávarútvegur og landbúnaður hefur átt undir högg að sækja. Mótvægisaðgerðir yfirvalda leiddu meðal annars til umfangsmikillar iðnaðaruppbyggingu á Bakka, nærri Húsavík. Hugsanlega hefði yfirvöldum þó reynst betur að ráðfæra sig við ungu kynslóðina, því ef rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar breyta stóriðjuáformin engu um fyrirætlanir ungmenna á svæðinu um að yfirgefa heimahagana. Þau vilja mennta sig annars staðar enda sækja þau innblástur sinn til fjölmiðla og samfélagsmiðla og verða fyrir beinum áhrifum af hnattvæðingunni fremur en af nærumhverfinu, samkvæmt rannsóknarstjóranum Önnu Karlsdóttur. Í kynningu á rannsóknarniðurstöðunum sagði hún að ljóst væri að iðnaðarstefna yfirvalda heillar ekki ungt fólk og framtíðardraumar ráðamanna um aukin umsvif á norðurslóðum og olíuvinnsla á Drekasvæðinu hafi engin áhrif á þau (úr viðtali á Bylgjunni). Í langfæstum tilvikum höfðu þátttakendur gefið þessum verkefnum gaum yfir höfuð. Þá bætti hún við að þótt heimamenn yfirgefi byggðina komi fólk í þeirra stað. Það verði að megninu til innflytjendur og sjá þeir til þess að gera samfélagið lífvænlegra.
Framtíð okkar allra
Kannski er kominn tími til að taka mark á fyrirætlunum fólksins sem mun erfa landið, eða öllu heldur fólkinu sem hefur takmarkaðan áhuga á þeim arfi. Ljóst er að fólksfækkun blasir við ef framtíðaráform ungmennanna rætast, sem eldri rannsóknir gefa okkur fulla ástæðu til að taka alvarlega. Fólksfækkun örvar ekki hagvöxt, framleiðslu né uppbyggingu og ógnar stöðugleika samfélags sem standa þarf undir sívaxandi hópi eldri borgara, sem ná sífellt hærri lífaldri. Að hugsa sér sóknarfærið fyrir Ísland ef nú stæðu yfir miklir fólksflutningar og þúsundir manna, sem kysu ekkert fremur en stöðugleika, myndu vilja byggja landið okkar. Svo ekki sé minnst á möguleikana sem felast í því að taka við þessum mannauði og aðlaga hann að menningu okkar og tungumáli. Að hugsa sér ef hér stæði fólk í biðröð eftir að fá að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Að hugsa sér ef þeir sexhundruð, sem spáð er að leiti hingað á árinu, yrðu álitnir sá hafsjór af tækifærum sem þeir eru. Fram til þessa hafa vonir og þrár þeirra sem sækja um að fá að byggja landið verið að engu hafðar af yfirvöldum í meirihluta tilvika, í krafti harðneskjulegra reglugerða. Þess í stað hafa sömu yfirvöld rutt af stað áformum sem eru ekki í neinum tengslum við vonir og þrár þeirra sem mega byggja þetta land – en langar burt.
Mikilvægasta mótunarafl í heiminum er mannlegur vilji.
Tími til kominn að leggja við hlustir.
Athugasemdir