Síðast þegar áfengisfrumvarp var lagt fyrir þingið sauð svo laglega upp úr að úr varð heil bylting sem steypti ríkisstjórn og fæddi aðra. Við fengum fjögurra ára frí frá mútuflokkunum (eftir nýjustu afhjúpanir er nú orðið löglegt að kalla kvótaflokkana mútuflokka) og flutningsmaður frumvarpsins var dæmdur til fjögurra ára dvalar á lögfræðiskrifstofu.
Nú stígur annar fram með annað frumvarp og enn fer allt á hvolf, útaf því hvort áfengi sé selt í einni verslun frekar en annarri. Hér fer allt til andskotans um leið og fyrstu bjórkippunum verður raðað upp á gólfið í Bónus, Krónunni og Hagkaup, að mati andstæðinga málsins. Þær heimsendaspár minna auðvitað á viðvaranir sem glumdu áður en bjórinn var loks leyfður. Hið öfuga gerðist þó. Áfengismenning landans stórbatnaði við tilkomu bjórsins.
Ég óx úr grasi í fylleríslandi. Allt fór á hausinn um hverja helgi. Aðeins var drukkið sterkt vín, blandað í kók.
Flöskurnar hétu handsprengjur, drykkirnir asnar, orð sem lýstu þeim drykkjulátum vel. Ælur og slagsmál úti á hlaði. Heilu og hálfu vinnuvikurnar fóru í að ræða áfengi, hvernig hægt væri að redda sér flösku fyrir helgina, hver gæti farið í ríkið, hver væri á leiðinni suður, hvort ekki væri mál að panta hreinlega tvo kassa norður, austur og vestur. Smiðirnir í brúarvinnunni pöntuðu heila flugvél inn í Djúp með sendingu úr Ríkinu á Ísafirði. Sérhvert laugardagskvöld var gamlárskvöld.
Heitustu samkomur sumarsins hétu sveitaböll. Til að koma í veg fyrir að þar yrðu allir á eyrunum var bannað að fara með flösku inn á ballið. Afleiðingin var sú að fólk drakk sig upp að eyrum á leiðinni og fyrir utan. Karlarnir voru stöðugt að fara út í bíl „til að stilla útvarpið“ og komu hruflaðir og rænulausir til baka. Og þótt fuglasöngur prýddi sumarbjart lognið utandyra var dansgólfið eins og skipslest í stórsjó þar sem síldin í tunnunni kastaðist til og frá og hending réð því hver lenti uppí hjá hverjum, svo úr urðu kynslóðir getnar af ösnum og handsprengjum.
Sveitaballið virðist blunda í okkur ennþá. Erfiðum fólki aðganginn að áfengi og þá verða allir edrú.
Þegar bjórinn flæddi loks um miðborg Reykjavíkur og Ísland komst í fullorðinna landa tölu, áttu margir von á kjarnorkusprengingu en reyndin varð önnur. Afnám bjórbannsins afhelgaði drykkjarföng landans, hversdagsvæddi alkóhólið, það varð ekki lengur svona svakalega merkilegt. Barir spruttu upp, fólk settist þar inn og kom jafnvel út án þess að hafa farið á fyllerí. Og jafnvel þótt tölur sýni að neyslan hafi aukist hefur drykkjumenningin batnað.
Áður fyrr var áfengi heilagur drykkur sem sumir tilbáðu en allir óttuðust. Tilkoma bjórsins gerði glasalyftingar hversdagslegri. Nú heyri ég hundrað raddir hrópa: „Þú gerir þér ekki grein fyrir hryllingnum sem allir þessir barir hafa getið af sér, slysin, slagsmálin, heimilisofbeldið og óhamingjan!“ Samt sem áður ætla ég að fullyrða að áfengismenning okkar hafi stórbatnað við tilkomu bjórsins. Fáir munu mótmæla því að við förum betur með áfengi í dag en áður. Nokkrar kynslóðir hafa alist upp í bjór- og léttvínsmenningu okkar tíma, forvarnarstarfi SÁÁ og snaraukinni meðvitund um bölið sem getur fylgt áfengi, og það þarf engar kannanir til að sýna manni að unga fólkið fer betur með áfengi en mín kynslóð gerði.
Hér tókst að taka mesta spenninginn úr áfengisdrykkjunni. Hún varð hversdagslegri, ekki svona mikið mál alltaf.
Í hugum sumra er allt vín BRENNIVÍN, eins og Steingrímur J. heyrðist hrópa í þinginu um daginn, og allir verða BLINDFULLIR um leið og glas fer að vörum. Í hugum kynslóða sem fæddar eru eftir bjórdag og betri vínbúðir er áfengi þó fremur tengt góðum mat í góðra vina hópi eða sófasetu yfir boltaleik.
Með því að leyfa sölu áfengis í einkareknum verslunum gætu sprottið hér upp sérverslanir með vín, með sérviskulegu úrvali beint frá bændum í fjallshlíðum Spánar eða Suður Afríku… Úrvalið getur varla minnkað við það, eða hvað? Í minni heimabyggð nyrðra stendur nýleg bruggverksmiðja sem á undraskömmum tíma tókst að búa til landsins besta bjór. Þangað er gaman að koma og skoða reksturinn og kaupa glös merkt fyrirtækinu en reglurnar meina okkur þó að kaupa þar sjálfan bjórinn. Hann er fluttur suður heiðar, á lager ÁTVR, til þess eins að vera keyrður aftur norður til sölu í Vínbúðunum á Dalvík og Akureyri. Reyndar er þetta ekki alveg rétt, því það er víst nýbúið að leiðrétta þessa dellu, og nú þarf bjórinn ekki lengur suður til að komast norður, en það gerum við sjálf hinsvegar í hvert sinn sem boðið skal í mat. Við ökum út og suður, úr matbúð í vínbúð og þaðan heim. Umhverfissjónarmiðin gleymast stundum í þessari umræðu.
Aðalatriðið er þó að mann grunar að með frjálsri vínverslun geti áfengismenning okkar tekið enn eitt þroskaskrefið.
Athugasemdir