Magnús Júlíusson, kynntur sem verkfræðingur og fyrrverandi formaður SUS, sendi mér kveðju góða í Stundinni fyrr í dag. Ég verð að ætla að hann hafi skrifað þetta af bestu samviskusemi en honum hefur samt tekist að fara með rangt mál í nokkum atriðum og sýnt takmarkaðan skilning eða þekkingu í öðrum. Leyfi ég mér því að koma á framfæri nokkrum ábendingum.
Magnús segir mig hafa farið mikinn í að reyna að sannfæra fólk um að það sé almennt að greiða hærri skatta en þegar vinstri stjórnin var hér við völd. Þar sem ég er fremur hæglátur maður kann það að teljast „að fara mikinn“ að skrifa eina stutta blaðagrein og svara í eingang ómálefnalegum útúrsnúningi úr henni. Honum til upplýsingar skal og bent á er það ekki nýtt að ég skrifi um þróun skattbyrði með þeim hætti sem ég gerði í grein minni. Grein sama efnis, byggð á sömu aðferðafræði birti ég í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla árið 2007 og aftur í vefriti fjármálaráðuneytisins 2011 þar sem ég fjallaði um þá nýliðin tímabil. Umfjöllun mín nú er í engu frábrugðin þeim hinum fyrri. Það er leitt til þess að vita að hún skuli nú af einhverjum ástæðum setja menn úr jafnvægi en varla ætlast skrifarinn til þess að þagað sé yfir tiltækum upplýsingum eða leitað heimildar stjórnvalda til að birta þær. Væri t.d. fróðlegt að vita hvort hans skrif eru birt með velvild þeirra.
Þá er ekki rétt að ég hafi agnúast yfir því að skattgreiðslur til ríkisins hafi hækkað. Sé hægt að segja að ég hafi agnúast yfir einhverju er það helst því að þessi hækkun á skattgreiðslum til ríkisins sem Magnús bendir á er í meira mæli látin lenda á baki fólks með miðlungstekjur eða minni en á þeim sem breiðust bök hafa.
Það er heldur ekki rétt hjá Magnúsi að lækkun skatta á þá tekjuhæstu hafi eingöngu stafað af brottfalli auðlegðarskatts. Eins og ég benti á í grein minni stafar drjúgur hluti lækkunarinnar af þeirri ástæðu en tekjuskattshlutfall annarra skatta hjá þeim lækkaði einnig meðan það hækkaði hjá öðrum.
Magnús skilur réttilega eins og ég líka benti á í grein minni að skattbyrði hækkar þegar persónuafsláttur fylgir launaþróun og hún er meiri en verðlagsþróun. En það er ekki bara meðalskattbyrðin sem breytist eins og hann vill vera láta. Þetta veldur mikilli hækkun skattbyrði hjá þeim sem eru með tekjur rétt yfir skattleysismörkum en mjög lítilli hjá þeim sem hafa háar launatekjur og engri hjá þeim sem hafa bara fjármagnstekjur. Þetta er ein meginástæðan fyrir þeirri þróun til aukinnar ójöfnunar tekna sem ég gerði að umtalsefni í grein minni.
Rétt er hjá Magnúsi að sjálfvirk tenging persónuafsláttar við verðlag var ekki umdeild. Hún var ekki síst tekin upp til tryggingar gegn hækkun skatta ef verðlag hækkar umfram laun. Sú tenging kemur ekki í veg fyrir að persónuafsláttur sé látinn hækka meira t.d. til að verjast hækkun skattbyrði vegna breytinga á launakjörum. Þá er rangt hjá Magnúsi að þær breytingar sem gerðar voru á tekjuskattskerfinu 2009 hafi komið verst niður á tekjulægstu hópunum. Reyndin var allt önnur eins og hann getur sannfærst um með lestri greinar minnar.
Það er ekki heldur rétt sem Magnús lætur í veðri vaka að þessi hækkun launa sé eina ástæðan fyrir hækkun skattbyrði. Drjúg ástæða er líka að barnabætur og vaxtabætur voru látnar dragast saman. Barnabætur hjóna og sambýlisfólks voru 1,2 milljörðum króna lægri 2015 en 2012 og vaxtabætur 2 milljörðum króna lægri. Þetta bitnaði mest á fólki með lágar tekjur og miðlungstekjur.
Mesta furðu vekur sú staðhæfing Magnúsar að hækkun persónuafsláttar komi verst niður á þeim tekjulægstu. Þvert á móti. Þótt krónutalan sé hin sama upp allan skattstigann munar hinum tekjulægri meira um þær krónur en þeim tekjuhæstu sem varla merkja hana. Á sama hátt má benda á það að breyting á skatthlutfalli til lækkunar gagnast eingöngu þeim sem eru með tekur í viðkomandi skattþrepui eða hærra skattþrepi, þ.e. gagnast best þeim með háar tekjur.
Að lokum. Magnús gerir mikið úr þeirri staðreynd að ráðstöfunartekjur hafi aukist á kjörtímabilinu. Það er rétt að svo er en verður trauðla skrifað á reikning stjórnvalda. Magnús þegir hins vegar yfir áhrifum breyttra skatta á þróun tekna og ráðstöfunartekna á tímabilinu. Til þess að draga hana fram set ég hér með stöplarit sem sýnir eftir tekjubilum hlutfallslegar breytingar á a) tekjum, b) tekjusköttum (án auðlegðarskatts) og ráðstöfunartekjum (án tilllits til auðlegðarskatts).
Stöplaritið sýnir:
– Tekjur hafa hækkað frá 2012 til 2015 í öllum tekjubilum, í kringum 20%, mest í lægstu bilunum nema hjá efstu 5% þar sem hækkun tekna er yfir 30%.
– Skattar, þ.e. álögð skattfjárhæð hefur hækkað mikið meira en tekjur hjá hjónum og sambúðarfólki, mest í lægstu tekjubilunum og svo fallandi að 80% markinu. Í tekjubilunum þar fyrir ofan hækkuðu skattar allt að 10 prósentum minna en tekjur.
– Afleiðingin fyrir ráðstöfunartekjur var að þær hækkuðu tveim til þremur prósentum minna en laun á öllum neðri hluta tekjuskalans. Í efstu bilunum hækkuðu ráðstöfunartekjurnar um allt að 10 prósentustig meira en tekjurnar.
– Hækkun skattbyrði rændi lægri tekjuhópa öllum þeim ávinningi sem þeim hlotnaðist með örlítið meiri hækkun lægri launa en hærri.
Ég vona að ég hafi ekki með þessum sakleysislegu ábendingum raskað ró Magnúsar eða trufli hann frá ástundun bókmennta. Ég hef tekið eftir því af umgengni minni við 3ja ára dótturson minn að undanförnu að lestur bóka sem hæfir þroska hans er mikilvægur aflgjafi framfara í hugsunar og rökvísi.
Athugasemdir