Öll viljum við búa í réttlátu samfélagi, þar sem við upplifum öryggi og frelsi til þess að vera við sjálf. Liður í að ná því frelsi er að tryggja kyn- og kynjafrelsi. Á Íslandi er ríkjandi orðræða sú að hér sé „mesta“ jafnrétti í heiminum og er margt sem rennur stoðum undir þá hugmynd, þótt vissulega eigum við langt í land og sér í lagi á vissum sviðum.
Þó að jafnrétti sé markmið í öllu jafnréttisstarfi þá þurfum við að tryggja jafna stöðu, ekki aðeins rétt, þvert á kyn, en hvernig náum við því fram? Hvernig náum við að vinna gegn menningu þar sem ofbeldi gagnvart stórum hópi viðgengst? Hvernig ætlum við að hafa áhrif á lagaumhverfi sem styður ekki þolendur, menningu sem með þögn sinni og aðgerðarleysi samþykkir þetta grófa ofbeldi? Hvað almenna orðræðu og samfélagslega umræðu varðar þá hefur margt unnist á þeim vettvangi. Helst ber að nefna sameiginleg átök þar sem unnið hefur verið gegn skömm þolenda og þeirra upplifan, þekking og reynsla dregin fram í kastljósið. Þetta eru átök eins og „konur tala“, „karlar tala“, „druslugangan“, „free the nipple“ og „bleiki fíllinn“, sem og fleiri.
„Þessi breyting á lögum yrði þess valdandi að sá sem nauðgar eða beitir kynferðisofbeldi þarf að geta sýnt fram á að fullt samþykki hafi fengist“
Er þetta nóg? Þurfum við ekki að taka afdrifaríkari stefnu og beita réttarkerfi okkar þannig að við styðjum við þolendur og tryggjum frekar að kynferðislegt ofbeldi líðist ekki í okkar samfélagi? Að lögin styðji við þá sem leita sér hjálpar án þess að missa sjónar að mannréttindum hvers og eins? Við horfum allavega ekki upp á það að kynferðislegt ofbeldi fari minnkandi, þvert á móti. Í menningu sem markvisst kyngerir, kynlífsvæðir og styður það sem kallað hefur verið nauðgunarmenningu. Réttarkerfið okkar er þolendum kynferðisglæpa óvægið, flókið og erfitt, viljum við það?
En hvernig breytum við kynhegðun heillar þjóðar og tryggjum ofar öllu að það sé skýrt að fullt samþykki þurfi að fást ætli einstaklingar að eiga í kynferðislegu sambandi? Til þess þarf að vera kristaltært hver ábyrgð einstaklingsins er, það sé ekki opið til túlkunar og að einstaklingurinn þurfi að sýna með nánast ómögulegum hætti að brotið hafi verið á sér.
Nauðgun af gáleysi (e. Rape by neglect) er lagalegt heiti yfir þá breyttu stefnu sem hefur verið innleidd í ákveðnum ríkjum Bandaríkjanna líkt og New York, sem einnig hefur verið til umræðu á Norðurlöndunum, sér í lagi Noregi, þar sem nauðgun að stórkostlegu gáleysi hefur verið gerð að lögum. Fleiri lönd hafa tekið til umræðu að innleiða lögin þegar kemur að kynferðisbrotum (líkt og Bretland). Þar er markmiðið skýrt, refsa á þeim sem hefur beitt kynferðisofbeldi, hann er gerður ábyrgur fyrir gjörðum sínum. Í raun þarf sá sem liggur undir grun að sýna fram á að fullt samþykki hafi fengist. Þannig er sjónum beint að þeim sem sekur er, í stað þess að þolandanum sé gert að reiða fram sönnun þess að brotið hafi verið á sér.
Þessi breyting á lögum yrði þess valdandi að sá sem nauðgar eða beitir kynferðisofbeldi þarf að geta sýnt fram á að fullt samþykki hafi fengist, að ofurölvun, „mistúlkun“ eða „misskilningur“ hafi ekki leitt gjörðir hans. Samþykkið má ekki vera þvingað, kúgað eða stafa af ójafnri valdastöðu, heldur þarf það að vera fullkomlega upplýst.
Fyrir einstakling með heilbrigða sýn á kynlífi og kynhegðun er þetta ekki flókið eða einkennilegt, en fyrir þann sem kann að feta hið óræða þýðir þetta að skýr breyting þurfi að eiga sér stað. Raunverulegt upplýst samþykki er ein leið til þess að hafa áhrif og knýja fram breytingu á kynhegðun heillar þjóðar, þar sem einstaklingar eru gerðir ábyrgir fyrir gjörðum sínum og taka ábyrgð á þeim.
Athugasemdir