Það er algengt áróðursbragð að tengja sig við óumdeildan málstað til að losna við að rökstyðja mál sitt eða svara fyrir ábyrgð. Þannig getur fólk jafnvel notað mikilvæga réttindabaráttu til þess að hygla sjálfu sér.
„Ég er kona“
Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra bar formlega ábyrgð á leka til að koma höggi á hælisleitanda og hafði verið staðin að því að skipta sér af lögreglurannsókn á hennar eigin ráðuneyti, beita lögreglustjóra þrýstingi, sem endaði með uppsögn hans, og grafa undan blaðamönnum sem fjölluðu um það, hélt hún því fram að það væri verið að gagnrýna hana vegna þess að hún væri kona.
„Ég er kona og ég hef rosalega mikinn metnað fyrir því að konur taki þátt í stjórnmálum líkt og karlar. Mér finnst margt í allri þessari orðræðu, og margt í því hvernig hefur verið komið fram í íslenskum stjórnmálum á umliðnum árum, bera þess merki að þetta sé erfiðara fyrir konur en karla.“ Þá sagðist hún í því samhengi „ekki vilja verða sú kona sem lætur undan slíkum ómaklegum, ósanngjörnum og ótrúlega óréttlátum aðdróttunum um að [hún] hefði gert eitthvað rangt“.
Rökfærslan og umræðan er þannig einfölduð niður í:
1. Konur eru beittar misrétti í umræðunni.
2. Hanna Birna er kona.
3. Þeir sem gagnrýna Hönnu Birnu beita hana misrétti.
„Strákarnir“ og „stelpurnar“
Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarkona Hönnu Birnu, skrifaði grein í miðju lekamálinu um að hún hefði verið kölluð „stelpa“ af samstarfsmanni sínum. „Ég varð að hitta á stelpuna,“ hafði hún eftir manninum og vildi meina að verið væri að gera lítið úr henni.
Nokkru seinna talaði Hanna Birna um „strákana“: „Mér finnst þegar ég tala við konur um það, þá skynja þær minni stuðning heldur en strákarnir fá. Strákarnir taka þéttar utan um hvorn annan og segja bara: „Hann er einn af okkur“ og verja hann alla leið. Það er öðruvísi með konur.“
Lekamálið, sem samkvæmt vörn Hönnu Birnu byggðist á kynjafordómum, fólst raunverulega í því að hún misbeitti valdi sínu. Það hafði þær afleiðingar að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri í Reykjavík, hrökklaðist úr starfi. Hanna Birna ákvað að snúa vörn í sókn með því að kynna ráðningu á næsta lögreglustjóra í samhengi kynjabaráttunnar.
„Það hefur verið vilji Alþingis og vilji lögreglunnar að efla hlut kvenna í þessum mikilvægu störfum og þess vegna eru þetta mjög ánægjuleg tímamót,“ sagði hún við ráðninguna.
Kynjabarátta í lögreglunni?
Nýi lögreglustjórinn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, hefur án vafa staðið sig vel í því að auka áherslu á rannsókn kynbundins ofbeldis, sem hefur verið vanrækt, að stórum hluta vegna þess að sjónarhóll eldri karlmanna hefur verið ríkjandi í lögreglunni. Það er hins vegar ekki þar með sagt að gagnrýni á lögreglustjórann eða störf hennar jafngildi kynjabaráttu.
Deilur og óánægja innan lögreglunnar vegna samskipta hins nýja lögreglustjórans við undirmenn sína, eru hins vegar settar í kynjasamhengið.
Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri hefur verið klagaður til tveggja ráðuneyta og stjórnar Þjóðleikhússins fyrir tölvupóst til vinar síns í lögreglunni, Jóns H. B. Snorrasonar, þar sem hann talar um „stelpurnar í lögreglunni“.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, skrifstofustjóri og samstarfskona Sigríðar Bjarkar, kvartaði til innanríkisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins vegna þess að ummæli hans í tölvupóstinum væri „ærumeiðandi“ og „niðrandi“.
Í viðtali við Öldu Hrönn í Fréttablaðinu í fyrra talaði hún hins vegar sjálf um „strákana“ í lögreglunni á Suðurnesjum, án þess að meina neitt illt.
Orðanotkunin „stelpa“ getur verið niðrandi í einhverju samhengi, rétt eins og „strákur“. Í mörgum tilfellum getur hún hins vegar fremur verið til marks um aldursfordóma en kynjafordóma.
Að tengja sig við hið óumdeilda
Almenn samstaða er um að fjölga konum í stjórnunarstöðum á Íslandi og stuðla að jöfnu kynjahlutfalli. Það er líka meðvitund um að vinna þurfi í því á virkan hátt að koma á jafnrétti og jöfnuði kynjanna. Til dæmis var ekkert land annað en Ísland sem tók virkari þátt í He for She átaki UN Women.
Það er auðveld leið að stilla umræðunni þannig upp að maður sé samhangandi óumdeildum málstað sem víðtækur stuðningur er við, eins og Hanna Birna gerði. Jafnframt ýtir það undir rökvillur.
Líklega er ekki mikil hætta á að einstaklingar nái raunverulega að skaða trúverðugleika jafnréttisbaráttunnar með því að skýla sér á bakvið hana til að hylja eigin ábyrgð, en það er engu að síður mikilvægt að átta sig á þeim aðferðum sem beitt er til að skekkja umræðuna.
Lengri útgáfa af leiðaranum birtist í prentútgáfu Stundarinnar.
Athugasemdir